Samkeppnishæfni - 

16. Mars 2018

Stóra lausnin er smá

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stóra lausnin er smá

Ríflega 99 prósent fyrirtækja á Íslandi eru með færri en 250 manns á launaskrá og teljast því vera örfyrirtæki, lítil eða meðalstór. Meira en helmingur launafólks starfar hjá slíkum fyrirtækjum.

Ríflega 99 prósent fyrirtækja á Íslandi eru með færri en 250 manns á launaskrá og teljast því vera örfyrirtæki, lítil eða meðalstór. Meira en helmingur launafólks starfar hjá slíkum fyrirtækjum.

Það gefur augaleið að litlu fyrirtækin eru burðarásinn í íslensku atvinnulífi og leika stórt hlutverk í hagvexti landsins. Mikilvægt er að gætt sé að hagsmunum þessara fyrirtækja og að þeim sé tryggt gott rekstrarumhverfi sem hvetji til stofnunar fyrirtækja og stuðli að því að þau geti vaxið. En hvað getur ný ríkisstjórn gert til að stuðla að vexti og viðgangi fyrirtækja á Íslandi?

Lækka tryggingagjald
Fyrst og fremst er mikilvægt að stjórnvöld standi við loforð um að lækka tryggingagjaldið. Tryggingagjaldið er launatengt gjald sem atvinnurekendum ber að standa skil á vegna launakostnaðar í atvinnurekstri. Það kemur til viðbótar við laun, greiðslur í lífeyrissjóð og annan launatengdan kostnað. Gjaldið dregur úr getu lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að ráða fleira starfsfólk og til þróa og stækka atvinnustarfsemi sína. Til að setja gjaldið í samhengi samsvarar tryggingagjald fyrirtækis með 14 starfsmenn því að vera með fimmtánda starfsmanninn á launaskrá.

Tryggingagjaldið var hækkað tímabundið árin 2009 og 2010 til að mæta tekjutapi ríkissjóðs í kjölfar efnahagskreppunnar og til að mæta auknu atvinnuleysi. Síðan hafa forsendur breyst og atvinnuleysi minnkað. Gjaldið er því nú nýtt til annarra og óskyldra útgjalda ríkissjóðs og því eðlilegt að það lækki. Lækkun gjaldsins er mikilvægur liður í að bæta samkeppnisstöðu fyrirtækja og gera þeim kleift að mæta kröfum vinnumarkaðarins um launahækkanir sem og auknu framlagi í lífeyrissjóði.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar kemur fram að til standi að lækka tryggingagjaldið en þó er ekki tekið fram hversu mikið eða hvenær. Standa vonir til þess að gjaldið verði lækkað um 1% auk 0,5% lækkunar á síðasta ári. Gert er ráð fyrir það skili 100 milljörðum króna í ríkissjóð á þessu ári.

Einfalda reglubyrði
Í öðru lagi er mikilvægt að regluverkið á Íslandi íþyngi ekki fyrirtækjum um of. Lítil og meðalstór fyrirtæki með fáa starfsmenn eiga erfiðara en önnur með að uppfylla flóknar kröfur. Má þar nefna regluverk um stofnun fyrirtækja en umsóknir um starfsleyfi, vottorð, umsagnir o.s.frv. geta oft tekið langan tíma. Þær eru einnig dýrar og gera að verkum að fyrirtækjum reynist erfitt að stíga sín fyrstu skref.

Tilvalið væri að einfalda ferlið, t.a.m. með því láta tilkynningu um að rekstur sé hafinn nægja í stað umsóknar um starfsleyfis. Atvinnulífinu væri treyst til að reka starfsemi sína samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda. Auk þess væri hægt að einfalda opinbert eftirlit með því að taka upp úrtakseftirlit í stað reglulegs eftirlits. Eftirlit væri þá ekki alltaf framkvæmt hjá öllum heldur þeim sem sérsök ástæða er til að hafa eftirlit með og þeim sem væru valdir með tilviljanakenndum hætti. Slíkt myndi spara bæði fyrirtækjunum og stjórnvöldum fjármuni og tíma.

Við mat á áhrifum af lagasetningu þarf að taka tillit til mismunandi stöðu fyrirtækja á markaðnum. Það er deginum ljósara að ekki er ávallt hægt að gera sömu kröfur til lítilla og meðalstórra fyrirtækja til að bregðast ört við nýrri og viðamikilli löggjöf eins og til stórra. Kostnaður fyrirtækja við að bregðast við nýrri löggjöf getur verið mismikill og því mjög mikilvægt að vanda vel til verka. Þá þarf að tryggja að samráð sé haft við lítil og meðalstór fyrirtæki og að þeim sé gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri snemma í lagasetningarferlinu.

Sjálfvirk stjórnsýsla
Í stjórnarsáttmálanum er talað um að sett verði á fót rafræn þjónustugátt þar sem hægt verði að nálgast alla þjónustu hins opinbera og sinna erindum. Þessi hugmynd er ekki ný af nálinni en lengi hefur staðið til að gera stjórnsýsluna sjálfvirkari og að fullu rafræna. Nú fer drjúgur tími lítilla og meðalstórra fyrirtækja í að eiga formleg samskipti við stjórnsýsluna, oft við margar stofnanir sem hver starfar í sínu horni. Ein rafræn þjónustugátt myndi vafalaust leysa þennan vanda. Þá gætu fyrirtæki afgreitt öll sín erindi, leyfisveitingar, skráningar o.fl. hratt og örugglega í gegnum netið – með einum smelli. Þetta kæmi líka í veg fyrir tvíverknað hjá stjórnsýslunni og myndi auka skilvirkni hennar og gegnsæi.

Þá gefur það augaleið að samskipti við stjórnvöld þurfa að vera skilvirk og hröð. Það getur oft skipt þessi fyrirtæki sköpum að bregðast hratt við ýmsum aðstæðum sem upp kunna að koma á markaðnum. Þau verða að geta gripið gæsina þegar hún gefst. Seinagangur í formlegum samskiptum fyrirtækja við stjórnvöld getur verið beinlínis skaðlegur og heft athafnir og veikt samkeppnisstöðu þeirra og gæti skapað ríkinu skaðabótaskyldu við ákveðnar aðstæður. Til að að vinna bug á slíku væri best að gera kerfið sjálfvirkara og nýta rafræna stjórnsýslu betur og festa hana í sessi í stjórnsýslu- og fyrirtækjamenningu á Íslandi.

Lækka fjármagnstekjuskatt
Skattaumhverfi íslenskra fyrirtækja þarf að vera einfalt, fyrirsjáanlegt og til þess fallið að hvetja til fjárfestinga og auka fjölbreytni atvinnulífsins. Nýlega var fjármagnstekjuskattur hækkaður í 22%. Jafnframt átti að endurskoða skattstofninn samhliða. Ekkert hefur bólað á þeim áformum. Hækkun fjármagnstekjuskatts kemur verst niður á litlum og meðalstórum fyrirtækum, sérstaklega sprotafyrirtækjum og frumkvöðlastarfi, þar sem þau þarfnast mikils fjármagns.

Hækkun skattsins leiðir einnig til þess að sparnaður innlendra aðila minnkar sem gerir fyrirtækjunum erfiðara fyrir að sækja sér fjármagn. Þau eiga almennt erfiðara með að sækja sér fjármagn að utan, heldur en hin stærri, þar sem fjárfestar og lánveitendur þurfa ekki að greiða hinn háa íslenska fjármagnstekjuskatt. Fjárfestar horfa til þess hver arðsemi fjárfestinga þeirra verður eftir skatta. Sé fjármagnstekjuskattur hækkaður verða færri verkefni arðbær og því dregur úr sparnaði og þar með fjárfestingu. Minni fjárfesting þýðir færri störf, dýrari rekstur og leiðir til samdráttar. Þá verður skatturinn að miðast við raunávöxtun í stað nafnávöxtunar. Þrátt fyrir að skattprósentan á Íslandi sé fremur lág er skatturinn í raun mjög hár ef verðbólga er tekin með í reikninginn. 

Bæta umhverfi fyrir nýsköpun
Skapa verður rekstrarumhverfi sem hvetur til nýsköpunar, frumkvæðis og verðmætasköpunar. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem oft eru sprotafyrirtæki. Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að ríkisstjórnin hyggist endurmeta fyrirkomulag á endurgreiðslu kostnaðar vegna rannsókna og þróunar og afnema þak á endurgreiðslum. Þetta er jákvætt og mun vafalaust hvetja til frekari fjárfestingar í nýsköpun og eykur samkeppnishæfni íslenskra sprotafyrirtækja. Mikilvægt er að þetta verði gert sem fyrst.

Lækka fasteignagjöld
Þjóðskrá breytti aðferð við útreikning fasteignamats á atvinnuhúsnæði sem tók gildi árið 2015 og miðar nú við leigutekjur með hliðsjón af gæðum, ástandi og staðsetningu. Með því var horfið frá því að byggja matið á endursöluverðmæti eigna. Aðferðafræðin fól því í sér breyttan útreikning á skattstofni, fasteignamatinu, sem fól í sér hærri fasteignagjöld og þar með aukna skattbyrði á atvinnulífið.

Breytingin hefur einnig haft í för með sér hækkun leigu. Engin lagabreyting var á bakvið hina breyttu aðferðafræði og bentu Samtök atvinnulífsins á að varhugavert væri að að ríkisstofnun gæti, uppá sitt eindæmi, tekið slíka ákvörðun án samráðs við atvinnulífið enda miklir hagsmunir í húfi. Annað hvort þarf að breyta þessari framkvæmd aftur eða lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda til að vega á móti þessu.

Hugsum smátt
Lítil og meðalstór fyrirtæki á Íslandi standa frammi fyrir ýmsum hindrunum í rekstri sínum. Hér að ofan eru sex atriði rakin sem auðvelt væri fyrir ríkisstjórnina að byrja á. Nauðsynlegt er að stjórnvöld sjái hag sinn í því að hefja samtal við þessi fyrirtæki og geri sér grein fyrir að þau leika stórt hlutverk við verðmætasköpun og aukningu á hagvexti. Í því samtali er ennfremur mikilvægt að ekki séu öll fyrirtæki sett undir sama hatt og að regluverkið taki mið af ólíkum þörfum fyrirtækja á Íslandi.


Til umhugsunar eru reglulegir pistlar á vef SA um brýn samfélagsmál.

Samtök atvinnulífsins