Fréttir - 

30. apríl 2014

Stöðugleikinn veltur á sveitarfélögunum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stöðugleikinn veltur á sveitarfélögunum

Verðbólgan hefur nú verið undir markmiði Seðlabankans í þrjá mánuði. Hækkun verðlags síðustu 12 mánuði er aðeins 2,3% þrátt fyrir að sífellt hækkandi fasteignaverð knýi upp verðmælingarnar. Án húsnæðis er verðbólgan aðeins 1% og því hefur kaupmáttur launa gagnvart vöru og þjónustu aukist mjög mikið undanfarið ár. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt síðustu mánuði eftir töluverða styrkingu í kringum síðustu áramót.

Verðbólgan hefur nú verið undir markmiði Seðlabankans í þrjá mánuði. Hækkun verðlags síðustu 12 mánuði er aðeins 2,3% þrátt fyrir að sífellt hækkandi fasteignaverð knýi upp verðmælingarnar. Án húsnæðis er verðbólgan aðeins 1% og því hefur kaupmáttur launa gagnvart vöru og þjónustu aukist mjög mikið undanfarið ár. Gengi krónunnar hefur verið stöðugt síðustu mánuði eftir töluverða styrkingu í kringum síðustu áramót.

Kjarasamningar hafa verið gerðir fyrir rúmlega 100 þúsund starfsmenn af þeim 140 þúsundum sem eiga aðild að stéttarfélögum. Samningar liggja fyrir hjá 98% starfsfólks á almennum vinnumarkaði en þeir sem eftir eru taka einkum til flugstéttanna. Ríkið hefur gert samninga sem ná til 62% af starfsmönnum þess en fjölmennastir þeirra hópa sem ósamið við eru BHM-félögin. Stærstu hóparnir með lausa samninga eru starfsmenn sveitarfélaga, en þar eru grunnskóla- og leikskólakennarar fjölmennastir.

Þorri allra samninga er til 15 mánaða með 2,8% almennri launahækkun, þó að lágmarki 8 þúsund krónur auk 1.750 króna sértækrar hækkunar á grunnlaun undir 230 þúsund krónum og 30 þúsund króna hækkunar á orlofs- og desemberuppbótum. Kostnaðarmat samninganna var tæp 4% á ársgrundvelli að teknu tilliti til 0,75% áætlaðra launabreytinga í launakerfum fyrirtækja og stofnana á tímabilinu. Nokkrir samningar hafa verið gerðir til lengri tíma, eða allt að þriggja ára. Þeir samningar hafa falið í sér sambærilegar kostnaðarhækkanir í upphafi auk tilvísunar til umsaminna almennra hækkana á vinnumarkaði á samningstímanum. Það gildir einnig um nýgerðan kjarasamning SA við stéttarfélög starfsmanna Isavia sem nánar er fjallað um í fréttabréfinu.

Kjarasamningur ríkisins við Félag framhaldsskólakennara, sem telur um 1.600 félagsmenn, er verulegt frávik frá launastefnunni sem mótaðist á almennum vinnumarkaði í desember og febrúar síðastliðnum. Samningnum fylgir aukinn kostnaður ríkisins í upphafi en þegar fram í sækir skapa breytingar sem í honum felast möguleika á mikilli hagræðingu í skólastarfinu, m.a. þriggja ára framhaldsskóla, og aukinn sveigjanleika í skólastarfinu. Samtök atvinnulífsins hafa lýst stuðningi við markmið ríkisins með samningsgerðinni, telja kostnaðinn ásættanlegan og ekki vera fyrirmynd fyrir aðra kjarasamninga.

Kjarasamningar sveitarfélaga og viðsemjenda þeirra eru skammt á veg komnir. Í lok síðasta mánaðar var undirritaður kjarasamningur milli Sambands íslenskra sveitarfélaga og 11 aðildarfélaga BHM sem valdið hefur undrun og titringi hjá öðrum samningsaðilum. Að mati SA getur kjarasamningur við þennan fámenna hóp ekki orðið tilefni til þess að horfið verði frá markaðri launastefnu. Það mun reyna verulega á stjórn Sambands sveitarfélaga, í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga, að standa fast í fæturna og víkja ekki frá markaðri stefnu í samningum við stærstu hópana, leikskólakennara og grunnskólakennara sem boðað hafa verkföll.

ASÍ hefur sett fram kröfur um breyttar áherslur og telur forsendur stöðugleika í uppnámi.  Að mati ASÍ hefur ríkið og sveitarfélög samið um þannig frávik frá markaðri stefnu að ekki verði við unað. Það hafi mistekist að koma á og varðveita efnahagslegan stöðugleika vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkis og sveitarfélaga. SA eru ósammála þessu mati ASÍ. Það er of snemmt að kveða upp úr um að launastefnan hafi verið brotin niður. Hvort svo fari er undir sveitarfélögunum komið. Ef þau gera kjarasamninga með svipuðum kostnaðarhækkunum og felast í kjarasamningi ríkisins og félags framhaldsskólakennara, án þess að fá ámóta ávinning á móti, er ljóst að þau hafa sprengt stöðugleikastefnuna í loft upp. Ábyrgðin sem hvílir á sveitarfélögunum er mikil og afleiðingar kjarasamninga þeirra á næstunni munu skipta sköpum um þróun verðbólgu, gengis og kaupmáttar launa á næstu árum.

Hannes G. Sigurðsson.

Af vettvangi í apríl 2014

Samtök atvinnulífsins