Stjórnendur hækkuðu minnst starfsstétta 2014

Í lok júlí hvers árs fer af stað mikil umræða um launamál og launaójöfnuð í framhaldi af útgáfu svonefndra tekjublaða þar sem birtar eru tölur um meðallaun og launabreytingar einstaklinga og hópa á grundvelli upplýsinga í álagningarskrám sem skattyfirvöld birta. Mesta athygli vekja upplýsingar um laun þeirra forstjóra, sérfræðinga og starfsmanna fjármálafyrirtækja sem hækkað hafa mest milli ára. Þá eru stundum borin saman laun tiltekins fjölda sem var með hæstu launin á síðasta ári við sama fjölda á árinu þar áður. Með þeirri aðferð getur fengist niðurstaða sem er víðs fjarri launaþróun viðkomandi hóps.

Hagstofa Íslands hefur það verkefni að taka við upplýsingum um launagreiðslur fyrirtækja og stofnana og birta upplýsingar um launaþróun í formi launavísitalna. Aðferð stofnunarinnar er að bera saman laun sömu einstaklinga í sömu störfum hjá sömu fyrirtækjum milli tveggja tímabila við mat á launabreytingum. Þegar launavísitölur hópa eru reiknaðar út er byggt á launahugtakinu regluleg laun, en það eru föst laun sem greidd eru við hverja launaútborgun. Ekki er byggt á greiðslum fyrir yfirvinnu eða öðrum óreglulegum greiðslum.

undefined

Niðurstaða Hagstofunnar er að regluleg laun á almennum vinnumarkaði hafi hækkað um 5,8% milli áranna 2013 og 2014. Launaþróunin var nokkuð jöfn eftir starfsstéttum, en mest hækkuðu þau hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki um 7,0%, þar á eftir hjá skrifstofufólki, 6,4%, en minnst hjá stjórnendum, 5,2%.

Hagstofan birtir einnig upplýsingar um meðaltal reglulegra launa eftir sömu starfsstéttum. Almennt er hækkun meðallauna starfsstéttanna mun minni en breyting launavísitalna sömu stétta. Í heild hækka meðallaunin um 3,6%, eða um 2,2% minna en launavísitalan. Stærsta frávikið í þessum samanburði er hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki þar sem munar 4,4% eftir því hvort litið er til hækkunar launavísitölu eða meðallauna.  Þessi samanburður vekur áleitnar spurningar um hvort aðferðir Hagstofunnar við útreikning launavísitalna geti falið í sér ofmat á launaþróun og hvort ekki sé tilefni til þess að endurskoða þær.

Launaþróun eftir atvinnugreinum var ójafnari en í samanburði starfsstéttanna. Mest hækkuðu laun í byggingarstarfsemi um 7,4%, þar á eftir í samgöngum og flutningum 6,8%, en minnst í iðnaði 4,6%.

undefined

Niðurstaða Hagstofunnar er að regluleg laun stjórnenda hafi að jafnaði hækkað um 5,4% milli áranna 2013 og 2014 samanborið við 6,1% meðalhækkun reglulegra launa í landinu. Regluleg laun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra hafi verið 1.451 þús. kr. á mánuði og heildarlaun 1.629 þús.kr.

Í umfjöllun Frjálsrar verslunar um tekjur forstjóranna er aðferð Hagstofunnar ekki beitt. Samsetning forstjórahópsins er mjög ólík milli ára og þar sem starfaskipti eru mjög algeng í þessum hópi eru fjölmargir einstaklingar á listanum sem annað hvort hófu störf eða létu af störfum á árinu 2014.