Stjórnendur 400 stærstu: Telja aðstæður góðar en blikur á lofti

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins sýna að stjórnendur í heild telja aðstæður nú vera góðar í atvinnulífinu en að þær fari versnandi á næstu sex mánuðum.

Að mati stjórnenda er auðveldara en áður að fá fólk til starfa, en rúmlega þriðjungur fyrirtækja finnur nú fyrir skorti á starfsfólki. Búast má við að á næstunni muni störfum fjölga hægar en um árabil því stjórnendur búast við 0,7% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum eða sem nemur 900 störfum.

Stjórnendur búast við 2,4% verðbólgu á næstu 12 mánuðum, rúmlega 2% hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna á ársgrundvelli og að gengi krónunnar veikist um 4%.

Stjórnendur telja hækkun launakostnaðar vera meginskýringu á hækkun á verði vöru og þjónustu fyrirtækjanna.

Heldur færri en áður meta núverandi aðstæður góðar í atvinnulífinu
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar örlítið og hefur ekki verið lægri í tvö ár. Nú telja 70% stjórnenda aðstæður í atvinnulífinu góðar en 6% slæmar, samanborið við að 80% töldu þær góðar og 3% slæmar í síðustu könnun.

Telja að aðstæður í atvinnulífinu fara versnandi
Mikil breyting hefur orðið á mati stjórnenda á aðstæðum eftir sex mánuði. 8% telja að aðstæður batni en 29% að þær versni. Aðrir telja þær verða óbreyttar. Þetta er mikil breyting frá könnunum síðustu fimm ára þegar mun fleiri hafa talið aðstæður fara batnandi en versnandi.

Minnkandi skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki er minni en í síðustu könnunum og telja nú 37% stjórnenda skort ríkja á starfsfólki, samanborið við 42% í síðustu könnun. Skorturinn hefur minnkað mikið í byggingariðnaði og iðnaði þar sem hann hefur verið mestur.

Hófleg fjölgun starfsmanna
30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 29% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 15% sjá fram á fækkun en 56% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þeirra fjölgi um 0,7% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna markaðinn í heild má búast við störfum þar fjölgi um 900 á næstu sex mánuðum. Þetta er mun minni fjölgun en í síðustu könnun en þá væntu stjórnendur 1,7% fjölgunar að meðaltali sem þá svaraði til 2.100 starfa. Stjórnendur vænta mestrar fjölgunar starfsmanna í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu.

Helmingur fyrirtækja með fullnýtta framleiðslugetu
Helmingur stjórnenda telur ekki erfitt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu sem er svipuð niðurstaða og í síðustu könnun. Vandinn er mestur í byggingariðnaði og iðnaði.

Útlit fyrir heldur minni hagnað á þessu ári
Rúmlega 40% stjórnenda búast við því að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stýra verði svipaður á þessu ári og því síðasta en jafnmargir, tæplega 30%, búast við aukningu og minnkun. Jafn margir stjórnendur búast við að hagnaður aukist og að hann minnki á þessu ári samanborið við síðasta ár.  27% stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, aukist milli ára, en 27% að hann minnki og 45% að hann verði óbreyttur. Helmingur útflutningsfyrirtækja býst við minnkandi hagnaði en fjórðungur annarra fyrirtækja.

Minnkandi væntingar um aukna eftirspurn
Rúmlega þriðjungur stjórnenda býsast við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum en 14% að hún minnki. Þetta eru mun minni væntingar um eftirspurnaraukningu og hafa þær ekki verið minni síðan 2013. 38% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á erlendum mörkuðum en 15% að hún minnki, en það eru einnig minni væntingar en undanfarin ár.

Minnkandi fjárfestingaráform
Dregið hefur úr væntingum um auknar fjárfestingar á árinu. Nú vænta álíka margir stjórnendur aukinnar og minnkandi fjárfestingar, en á undanförnum þremur árum hafa töluvert fleiri stjórnendur búist við aukningu en minnkun.

Vænta lækkunar á vöxtum Seðlabankans
Stjórnendur vænta þess að Seðlabankinn lækki veðlánavexti sína á næstunni. Veðlánavextirnir voru 5,25% á könnunartímabilinu og bjuggust stjórnendur við því að þeir yrðu komnir í 4,5% eftir eitt ár. Skömmu eftir að könnunartímabilinu lauk lækkaði Seðlabankinn veðlánavextina í 5,0%.

Verðbólguvæntingar við markmið
Verðbólguvæntingar stjórnenda eru við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Stjórnendur vænta að jafnaði 2,4% verðbólgu næstu 12 mánuði en verðbólguvæntingar þeirra hafa verið undir markmiði Seðlabankans síðastliðið ár. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði 3,0% eftir tvö ár sem er sama niðurstaða og í síðustu könnunum. Þá vænta stjórnendur þess að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra muni hækka að jafnaði um 1,1% á næstu sex mánuðum og að verð á aðföngum sem fyrirtækin kaupa af birgjum hækki um 2,0%.

Vænta veikingar gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi krónunnar veikist um 4,1% á næstu 12 mánuðum.

Launakostnaður hefur mest áhrif á verðbólgu
Stjórnendur voru beðnir um að tiltaka þá þætti sem mest áhrif hafa til hækkunar á verði á vöru og þjónustu fyrirtækjanna sem þeir stýra. Launakostnaður er meginskýringin að mati stjórnenda en þar á eftir kemur aðfangaverð. Aðrir þættir sem vega minna eru eftirspurn, samkeppnisstaða og álagning, annar rekstrarkostnaður, framleiðslugeta og framleiðni.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 30. ágúst til 27. september og voru spurningar 19. Á miðju könnunartímabilinu féll ríkisstjórnin og hafði mikill meirihluti svara borist fyrir stjórnarslitin. Ekki var gerður samanburður á svörum fyrir og eftir slitin.

Í úrtaki voru 430 fyrirtæki sem teljast stærst miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 248, þannig að svarhlutfall var 58%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.