Fréttir - 

13. Júní 2019

Stjórnendur 400 stærstu: Minnkandi umsvif

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu: Minnkandi umsvif

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna að umsvif í atvinnulífinu haldi áfram að minnka. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu er tvískipt, þar sem jafn margir telja aðstæður góðar og slæmar, en mun fleiri telja að þær versni en batni á næstunni.

Niðurstöður nýrrar Gallup könnunar fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefa til kynna að umsvif í atvinnulífinu haldi áfram að minnka. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu er tvískipt, þar sem jafn margir telja aðstæður góðar og slæmar, en mun fleiri telja að þær versni en batni á næstunni.

Stjórnendur á landsbyggðinni eru mun svartsýnni en á höfuðborgarsvæðinu.

Skortur á starfsfólki er nánast enginn og útlit fyrir fækkun starfa um 0,5% á næstu sex mánuðum.

Stjórnendur vænta 3% verðbólgu á næstu 12 mánuðum og einnig eftir tvö ár.

Hlutlaust mat á núverandi aðstæðum
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, hækkar örlítið og er svipuð og fyrir fimm árum, þ.e. á fyrri hluta ársins 2014. Örlítið fleiri telja aðstæður góðar en slæmar.

23% stjórnenda telja aðstæður í atvinnulífinu góðar, samanborið við 60% fyrir ári síðan. 20% telja þær slæmar, samanborið við 12% fyrir ári síðan. Aðrir telja þær hvorki góðar né slæmar. Væntingar eru langminnstar í ferðaþjónustu og sjávarútvegi.

Mat stjórnenda á landsbyggðinni á núverandi aðstæðum er mun lakara en á höfuðborgarsvæðinu. 33% stjórnenda á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar en aðeins 14% góðar, en því er öfugt farið á höfuðborgarsvæðinu þar sem 17% telja aðstæður slæmar en 26% góðar.

Væntingar til aðstæðna eftir 6 mánuði skána
Væntingar stjórnenda til aðstæðna í atvinnulífinu eftir sex mánuði batna nokkuð milli kannana. 40% stjórnenda telja að aðstæður versni, samanborið við 60% fyrir þremur mánuðum, en 13% að þær batni.

 

Lítill skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki hefur minnkað stöðugt undanfarin misseri og er nú svipaður og árið 2013. Einungis 14% finna fyrir skorti samanborið við 27% fyrir ári síðan. Skortur á starfsfólki er algengastur í ýmissi sérhæfðri þjónustu.

Starfsmönnum gæti fækkað um 600 á næstu 6 mánuðum
23 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 15% stjórnenda búast við fjölgun starfsmanna en 25% búast við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna fækki um 0,5% á næstu sex mánuðum og er þetta þriðja könnunin í röð þar sem fram koma vísbendingar um starfsmannafækkun. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 600 á næstu sex mánuðum. Fjölgunin er 900 hjá þeim sem áforma fjölgun en fækkunin er 1.500 hjá þeim áforma fækkun.

Áform um fækkun starfsmanna er nokkuð jöfn eftir atvinnugreinum að undanskilinni ýmissi sérhæfðri þjónustu þar sem búist er við fjölgun.

Vænta verðbólgu nálægt markmiði
Verðbólguvæntingar stjórnenda eru nú 3% að jafnaði sem er lækkun úr 4% í síðustu könnunum. Stjórnendur vænta þess að verðbólgan verði einnig 3% eftir tvö ár og fimm ár.

Ólíkar horfur milli atvinnugreina
Stjórnendur búast að hluta við aukinni innlendri eftirspurn eftir vöru og þjónustu. 20% stjórnenda býst við aukningu en 13% búast við minnkun, en aðrir búast við óbreyttri eftirspurn. Mikill munur eru á horfum eftir atvinnugreinum þar sem töluverðrar aukningar er vænst í verslun og iðnaði en samdrætti í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum eru betri en innanlands því 32% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn þar en aðeins 12% búast við samdrætti. Horfur á erlendum mörkuðum er einnig mjög mismunandi eftir atvinnugreinum þar sem helmingur stjórnenda í ferðaþjónustu sér fram á samdrátt og svipað gildir í byggingariðnaði og fjármálastarfsemi.

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og framkvæmd af Gallup. Minni könnun með 9 spurningum og ítarlegri könnun með 20 spurningum skiptast á. Að þessu sinni var minni könnunin gerð á tímabilinu 9. maí til 6. júní 2019.

Í úrtaki voru 412 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 205, þannig að svarhlutfall var 50%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins