Stjórnendur 400 stærstu: Góðar aðstæður verða enn betri

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallup meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins endurspeglar góðar aðstæður í atvinnulífinu. Stjórnendur eru almennt sammála um að staðan í atvinnulífinu verði jafngóð eða betri eftir sex mánuði.

Vinnuaflsskortur er tilfinnanlegur þar sem tæpur helmingur fyrirtækja finnur fyrir honum. Búast má við rúmlega 2% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum, sem svarar til 2.200 starfa. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er ekki lengur einskorðuð við tilteknar atvinnugreinar heldur breiðist út um allt atvinnulífið.

Stjórnendur búast við mikilli aukningu eftirspurnar innanlands en einnig erlendis frá.

Stjórnendur búast við 3,0% verðbólgu á næstu 12 mánuðum sem er athyglisvert í ljósi þess að spár opinberra aðila gera ráð fyrir að hún verði 4%.

Aðstæður einstaklega góðar í atvinnulífinu

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er í hæstu hæðum. Yfirgnæfandi meirihluti stjórnenda, 81%, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 2% að þær séu slæmar. Óverulegur munur er á mati stjórnenda eftir atvinnugreinum en minnst jákvæðni er meðal stjórnenda í sjávarútvegi, þótt margfalt fleiri í þeirri grein telji aðstæður góðar en slæmar.

Mikil bjartsýni
Stjórnendur eru almennt sammála um að staðan í atvinnulífinu verði jafngóð eða betri eftir sex mánuði. 44% telja að aðstæður batni, 48% að þær verði óbreyttar en 8% að þær versni. Stjórnendur í öllum atvinnugreinum eru mjög bjartsýnir á framvinduna en minnst jákvæðni er meðal stjórnenda í sjávarútvegi, þótt tvöfalt fleiri í þeirri grein telji ástandið batni eftir sex mánuði en versni.

undefined

Almennur skortur á starfsfólki
Skortur á starfsfólki vex mikið milli kannana þar sem 42% stjórnenda telja skort vera á starfsfólki samanborið við 31% fyrir aðeins þremur mánuðum. Undanfarnar kannanir hafa sýnt mestan starfsmannaskort í byggingariðnaði og ferðaþjónustu en nú hefur hann breiðst út til annarra greina og er orðinn álíka mikill í iðnaði og í byggingarstarfsemi. Einnig er starfsmannaskorturinn í verslun orðinn álíka mikill og í ferðaþjónustu. Minnstur skortur á starfsfólki er í fjármálastarfsemi, sérhæfðri þjónustu og sjávarútvegi þótt hann sé allnokkur.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.600 á næstu 12 mánuðum
Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 43% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 5% sjá fram á fækkun en 52% búast við óbreyttum fjölda. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum þeirra fjölgi um 2,2% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna markaðinn í heild má búast við störfum þar fjölgi um rúmlega 2.600 á næstu sex mánuðum. Sem fyrr er búist við langmestri fjölgun í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu, en iðnaðurinn er þar ekki langt að baki. Minnst fjölgun er áformuð í sjávarútvegi.
undefined

Eftirspurn eykst bæði innanlands og erlendis
56% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum en aðrir að hún standi í stað. Hlutfallslega flestir stjórnendur fjármálafyrirtækja, 67% þeirra, búast við aukningu, en þétt þar á eftir koma 66% stjórnenda í iðnaði, 64% stjórnenda í byggingarstarfsemi og 62% stjórnenda í verslun. Horfur eru einnig góðar hvað erlenda eftirspurn varðar þar sem 45% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn og 48% að hún verði óbreytt.

Væntingar um 3,0% verðbólgu
Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 3,0% sem er sama niðurstaða og í síðustu könnun. Þetta er athyglisverð niðurstaða í ljósi þess að bæði Hagstofan og Seðlabankinn spá u.þ.b. 4% verðbólgu á sama tímabili.

undefined

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 4. til 27. maí 2016 og voru spurningar 7. Í úrtaki var 441 stærsta fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 244 þeirra þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.