Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Vaxandi þenslumerki í atvinnulífinu

Íslenskt efnahagslíf er í kröftugri uppsveiflu sem knúin er áfram af stórauknum kaupmætti heimilanna og aukinni eftirspurn sem beinist að heimamarkaðsgreinum samkvæmt könnuninni. Mat stjórnenda á núverandi aðstæðum í atvinnulífinu eru svipaðar og í upphafi efnahagsuppsveiflunnar 2004 og mat á aðstæðum eftir 6 mánuði er hærra en það var á þensluárunum 2004-2007.

Þótt enn sé nægt framboð af starfsfólki fjölgar þeim fyrirtækjum hratt sem finna fyrir vinnuaflsskorti. Búast má við 1% fjölgun starfsmanna á almennum vinnumarkaði á næstu sex mánuðum, þ.e. rúmlega eitt þúsund störfum. Skortur á starfsfólki og áformuð fjölgun starfsmanna er mest í heimamarkaðsgreinum en minnst í útflutningsgreinum.

Stjórnendur búast við mikilli aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstunni en að verðhækkanir á vörum þeirra og þjónustu verði hóflegar. Jafnframt virðast þeir bjartsýnir um þróunina á erlendum mörkuðum.

Fjárfestingar aukast mikið milli áranna 2014 og 2015 að mati stjórnenda og meira en fram hefur komið í síðustu könnunum.

Á næstu 12 mánuðum búast stjórnendur við miklum vaxtahækkunum, allt að 2%, að verðbólgan verði 3% og gengi krónunnar verði stöðugt.

Aðstæður mjög góðar í atvinnulífinu
Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar muninn á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, er nú svipuð og um áramótin 2003 og 2004 þegar síðasta efnahagsuppsveifla fyrir hrun var að hefjast. Meirihluti stjórnenda, 53%, telur aðstæður í atvinnulífinu góðar, en einungis 8% að þær séu slæmar. Í öllum atvinnugreinum telja mun fleiri stjórnendur aðstæður vera góðar en slæmar og er matið jákvæðast í fjármálastarfsemi.

Almennt talið að aðstæður batni næstu 6 mánuði
Mun fleiri stjórnendur telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri en að þær verði verri eftir sex mánuði. Tæplega 40% telja aðstæður verða betri en 11% verri. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem sýnir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeirra sem telja að það versni, hefur ekki verið hærri síðan haustið 2007. Stjórnendur í öllum atvinnugreinum eru bjartsýnir á framvinduna en bjartsýnin er langmest í fjármálaþjónustu, en þar á eftir koma verslun og þjónusta, en minnst er hún í sjávarútvegi og iðnaði, þ.e. atvinnugreinum í alþjóðlegri samkeppni. Mun meiri bjartsýni gætir á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni og meðal fyrirtækja á heimamarkaði en útflutningsfyrirtækja.

undefined

Ört vaxandi skortur á starfsfólki
Stöðugt fjölgar fyrirtækjum sem telja skort ríkja á starfsfólki. Nú telur rúmur fjórðungur stjórnenda skort vera á starfsfólki og hefur fjöldi þeirra sem svo telja tvöfaldast á síðustu tveimur árum.  Skortur á starfsfólki er langmestur í byggingarstarfsemi, þar sem 64% stjórnenda telja skort ríkjandi, og þar á eftir í flutningum og ferðaþjónustu, þar sem 40% stjórnenda telja skort vera á starfsfólki. Minnstur skortur á starfsfólki er í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi þar sem um 15% stjórnenda telur svo vera.

Mikil fjölgun starfsmanna á næstunni
Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 31% stjórnenda þeirra sjá fram á fjölgun starfsmanna á næstu sex mánuðum, 13% sjá fram á fækkun en 56% búast við óbreyttum fjölda. Þetta er mikil breyting frá síðustu könnun í maí sl. en þá sáu 21% fram á fjölgun en 16% fram á fækkun. Þegar svör stjórnenda eru vegin með stærð fyrirtækjanna fæst að starfsmönnum  þeirra fjölgi um tæplega 1% á næstu sex mánuðum. Sé sú niðurstaða færð yfir á almenna markaðinn í heild má búast við störfum þar fjölgi um rúmlega 1.000 á næstu sex mánuðum. Mest fjölgun er áformuð í byggingarstarfsemi, verslun, þjónustu og flutningum og ferðaþjónustu en minnst í iðnaði og sjávarútvegi. Stjórnendur í fjármálastarfsemi búast við óbreyttum fjölda starfsmanna.  

undefined

Tæpur helmingur með fullnýtta framleiðslu- og þjónustugetu
Þeim stjórnendum fjölgar hratt sem telja vandasamt að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu. 49% stjórnenda telja það vandasamt eða mjög erfitt samanborið við 34% í mars sl. Langflestir, eða 88%, telja að þessar aðstæður vari næstu sex mánuði.

Búast ekki við auknum hagnaði árið 2015
32% stjórnenda búast við að hagnaður fyrirtækjanna sem þeir stjórna, sem hlutfall af veltu, verði meiri árið 2015 en 2014, en 22% að hann verði minni.  Þetta eru mun minni væntingar um hagnað en í könnuninni í mars sl. þegar 36% stjórnenda bjuggust við auknum hagnaði árið 2015 en  14% minni hagnaði. Stjórnendur í verslun telja flestir hlutfallslega að hagnaður aukist en fæstir í iðnaði.

Aukin framlegð
Væntingar stjórnenda um framlegð fyrirtækjanna, þ.e. EBITDA, á næstu sex mánuðum eru minni en í síðustu könnunum á þessu og síðasta ári. Þannig búast 35% þeirra við því að framlegð aukist, 20% að hún minnki og 42% að hún standi í stað. Horfur  eru bestar í byggingar- og fjármálastarfsemi en lakastar í sjávarútvegi. Að mati stjórnendanna hefur framlegðin farið batnandi á síðustu sex mánuðum.

Væntingar um aukna eftirspurn bæði innanlands og erlendis
Búist er við mikilli aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum, þar sem 45% telja að hún aukist en 7% að hún minnki. Byggingar- og fjármálastarfsemi skera sig úr þar sem allir stjórnendur búast við aukinni eftirspurn. Að jafnaði er búist við 1,4% verðhækkun á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum og 2,3% hækkun aðfanga.

Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum eru góðar því 40% telja að hún aukist en 10% að hún minnki. Að jafnaði er búist við 0,1% verðhækkun á erlendum mörkuðum í erlendri mynt, sem eru lakari horfur en í síðustu könnunum þegar búist var við 0,5-1,0% hækkunum.

Fjárfestingar aukast á árinu
Fjárfestingar fyrirtækjanna munu aukast mikið á þessu ári samkvæmt könnuninni. 33% stjórnenda sjá fram á auknar fjárfestingar en 11% búast við að þær minnki miðað við árið 2014. Þessar vísbendingar um fjárfestingar eru sterkari en í síðustu könnunum. Langmest aukning fjárfestinga er áætluð í byggingarstarfsemi og flutningum og ferðaþjónustu en aukningin er mikil í öllum atvinnugreinum nema verslun.

undefined

Stjórnendur vænta mikilla vaxtahækkana
Að meðaltali búast stjórnendur við því að veðlánavextir Seðlabankans verði orðnir 8,0% eftir 12 mánuði, en þeir voru hækkaðir úr 5,75% í 6,25% á könnunartímabilinu. Breytingin er mikil milli kannana því fyrir þremur mánuðum væntu þeir þess að veðlánavextirnir yrðu 5,6%.

Væntingar um 3,0% verðbólgu á árinu
Miðgildi væntinga stjórnenda um verðbólgu næstu 12 mánuði er 3,5% sem er lækkun um 0,5% frá síðustu könnun. Væntingar stjórnenda um verðbólgu eftir tvö ár er einnig 3,5% sem er 0,4% hækkun frá síðustu könnun.

undefined

Vænta stöðugs gengis krónunnar
Að jafnaði vænta stjórnendur þess að gengi  krónunnar verði stöðugt næstu 12 mánuði, en í síðustu könnunum hafa þeir búist við 1-2% veikingu gengisins.  

Um könnunina
Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er í höndum Gallum. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 19. ágúst til 13. september 2015 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 439 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 259 þeirra þannig að svarhlutfall var 59%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.