Efnahagsmál - 

11. Oktober 2012

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Meta aðstæður áfram slæmar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Meta aðstæður áfram slæmar

Mat stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins á aðstæðum í atvinnulífinu hefur lítið breyst til hins betra undanfarna mánuði. Þannig telja 6,4% þeirra aðstæður vera frekar góðar, tæpur helmingur að þær séu frekar eða mjög slæmar en 45,5% að þær séu hvorki góðar né slæmar. Í síðustu könnun, sem gerð var í júní sl., töldu 3,1% að aðstæður væru góðar en 63,2% að þær væru slæmar. Meginbreytingin er því sú að þeim fjölgar marktækt sem telja aðstæður hvorki góðar né slæmar, þ.e. úr 33,6% í júní í 45,5% í september.

Mat stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins á aðstæðum í atvinnulífinu hefur lítið breyst til hins betra undanfarna mánuði. Þannig telja 6,4% þeirra aðstæður vera frekar góðar, tæpur helmingur að þær séu frekar eða mjög slæmar en 45,5% að þær séu hvorki góðar né slæmar. Í síðustu könnun, sem gerð var í júní sl., töldu 3,1% að aðstæður væru góðar en 63,2% að þær væru slæmar. Meginbreytingin er því sú að þeim fjölgar marktækt sem telja aðstæður hvorki góðar né slæmar, þ.e. úr 33,6% í júní í 45,5% í september.

Mat á aðstæðum eftir sex mánuði hefur ekki breyst frá síðustu könnun, en nú telja 16% stjórnenda að aðstæður verði betri, 19% að þær verði verri en aðrir að þær verði óbreyttar. Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja. Stjórnendur í sjávarútvegi og byggingariðnaði eru svartsýnastir en í þeim greinum telja engir stjórnendur aðstæður vera góðar. Þeim fyrirtækjum sem skortir starfsfólk hefur fjölgað, en í heild má þó búast við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum.

Aðstæður enn slæmar að mati stjórnenda

Margfalt fleiri stjórnendur telja aðstæður slæmar í atvinnulífinu en að þær séu góðar. Nú telja 48,1% þeirra aðstæður vera frekar eða mjög slæmar, 6,4% að þær séu frekar góðar en 45,5% að þær séu hvorki góðar né slæmar. Í síðustu könnun, sem gerð var í júní sl., töldu 3,1% að aðstæður væru góðar en 63,2% að þær væru slæmar. Meginbreytingin er því sú að þeim fjölgar marktækt sem telja aðstæður hvorki góðar né slæmar, þ.e. úr 33,6% í júní í 45,5% í september, en hlutfallsleg fjölgun þeirra sem telja aðstæður frekar góðar er vart marktæk. Mikill munur er á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis þar sem 65% stjórnenda á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar en 42% á höfuðborgarsvæðinu. 70% stjórnenda í byggingariðnaði og 65% stjórnenda í sjávarútvegi telja aðstæður slæmar. Skásta matið á núverandi aðstæðum er að finna í ýmissi sérhæfðri þjónustu. Hlutfallslega fleiri stjórnendur í stórum fyrirtækjum en þeim minni telja aðstæður slæmar.

Aðstæður eftir 6 mánuði versna heldur

Mat á aðstæðum eftir sex mánuði er svipað og í síðustu könnun. Tveir af hverjum þremur stjórnendum telja að þær verði óbreyttar, en heldur fleiri að þær versni en að þær batni. Stjórnendur í sjávarútvegi skera sig úr þar sem rúmlega 60% telja að aðstæður versni en 40% að þær verði óbreyttar. Stjórnendur á landsbyggðinni eru mun svartsýnni á þróun næstu mánaða en á höfuðborgarsvæðinu. Stjórnendur stærri fyrirtækja eru heldur svartsýnni en stjórnendur þeirra smærri.

Smelltu til að stækka


Nægt framboð af starfsfólki

Langflestir stjórnendur, 82%, búa við nægt framboð af starfsfólki í fyrirtækjum sínum, en 18% búa við skort, samanborið við 12%-14% í síðustu tveimur könnun. Enginn munur er á landsbyggð og höfuðborgarsvæði en skortur á starfsfólki er mestur í sérhæfðri þjónustu, iðnaði og verslun en minnstur í byggingariðnaði. Þá kemur fram að skorturinn er tiltölulega mestur í minnstu fyrirtækjunum sem hafa ársveltu undir 500 m.kr.

Búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstunni

Um 30 þúsund manns starfa hjá fyrirtækjunum sem þátt tóku í könnuninni. Ætla má að starfsmönnum þeirra fækki um 150 samtals eða um 0,5% á næstu sex mánuðum. Áform um fækkun er einkum að finna hjá stærstu fyrirtækjunum. Í heildina búast 62% stjórnenda við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, en álíka margir sjá fram á fjölgun og fækkun starfsmanna. Fjölgun starfsmanna er áformuð í sérhæfðri þjónustu og verslun, en fækkun í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi..

Smelltu til að stækka

Mikil vannýtt framleiðslu- og þjónustugeta

70% stjórnenda telja það ekki vera vandkvæðum bundið að bregðast við óvæntri aukningu í eftirspurn eða sölu, rúmur fjórðungur að það sé nokkurt vandamál en einungis 3% að það geti orðið erfitt. Þetta er svipuð niðurstaða og fram hefur komið í haustkönnunum síðastliðin þrjú ár. Fjármálastarfsemi og verslun virðast eiga auðveldast með að bregðast við aukinni eftirspurn en í sérhæfðri þjónustu yrði það erfiðast þar sem helmingur svarenda telur það geta verið vandkvæðum bundið. Ekki er munur á svörum eftir staðsetningu fyrirtækjanna á landinu en svo virðist sem meðalstór fyrirtæki eigi auðveldast með að bregðast við óvæntri aukningu eftirspurnar. Nánast allir stjórnendurnir, 94%, telja að þessar aðstæður verði óbreyttar næstu sex mánuði.

Vísbendingar um að fjárfestingar hafi aukist á árinu

Á heildina litið koma fram vísbendingar um smávægilega aukningu fjárfestinga fyrirtækjanna á þessu ári samanborið við 2011. Þannig greina 27% stjórnenda frá því að fjárfestingar verði meiri á þessu ári en í fyrra, 21% að þær verði minni en rúmur helmingur að þær verði svipaðar. Mest aukning fjárfestinga kemur fram í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu en þar á eftir í iðnaði. Mun fleiri stjórnendur í sjávarútvegi telja fjárfestingar minnki á árinu en að þær aukist. Auknar fjárfestingar virðast bundnar við höfuðborgarsvæðið en á landsbyggðinni telja jafnmargir stjórnendur að fjárfestingar verði meiri og að þær verði minni. Auknar fjárfestingar milli áranna virðist að mestu bundnar við stærri fyrirtæki, þ.e. fyrirtæki með meira en tveggja milljarða króna ársveltu, en í minnstu fyrirtækjunum kemur fram skýr samdráttur fjárfestinga milli ára.

Búist við minnkandi hagnaði

Tæpur helmingur stjórnenda telur að hagnaður, sem hlutfall af veltu, verði svipaður á þessu ári og árið 2011, tæpur fjórðungur að hann aukist en rúm 30% að hann minnki. Þetta eru lakari niðurstöður en í síðustu könnun og staðan á landsbyggðinni er mun lakari en á höfuðborgarsvæðinu varðandi horfur um hagnað á árinu. Staðan virðist best í sérhæfðum þjónustufyrirtækjum og fjármálafyrirtækjum en lökust í sjávarútvegi, iðnaði og verslun.

Minnkandi væntingar um framlegð

Í samræmi við horfur um minnkandi hagnað þá vænta stjórnendur þess að jafnaði að framlegð fyrirtækjanna, þ.e. EBITDA, minnki á næstu sex mánuðum. Þannig býst fjórðungur við að hún aukist, 30% að hún minnki en 45% að hún standi í stað. Útlitið er dekkst í sjávarútvegi, iðnaði og verslun en bjartara í fjármálastarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu. Á síðustu sex mánuðum telja stjórnendur að jafnaði að framlegðin hafi staðið í stað.

Eftirspurn eykst jafnt innanlands sem erlendis

Stjórnendur fyrirtækjanna búast að jafnaði við allmikilli aukningu eftirspurnar á innanlandsmarkaði á næstu sex mánuðum eins og í tveimur síðustu könnunum. Þessi niðurstaða á við allar greinar nema sjávarútveg og byggingarstarfsemi. Tæpur helmingur stjórnenda býst við að verð á vöru og þjónustu fyrirtækjanna á innanlandsmarkaði hækki, en réttur helmingur að það standi í stað, og er búist við 2,1% meðalhækkun á næstu sex mánuðum. Þá er búist við 3,4% hækkun aðfanga fyrirtækjanna á næstu sex mánuðum.

Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum eru nokkuð lakari en þær hafa verið undanfarin ár en þeir eru þó fleiri sem telja að eftirspurnin aukist en að hún minnki. Nú telja 36% að hún aukist, 41% að hún verði óbreytt en 23% að hún minnki. Sjávarútvegurinn sker sig úr þar sem einungis 7% stjórnenda telja að eftirspurnin aukist en 51% að hún minnki. Mun fleiri stjórnendur búast við að útflutningsverð lækki en að það hækki og gera að jafnaði ráð fyrir 1,4% lækkun á næstu sex mánuðum.

Vænta hækkunar stýrivaxta

Stjórnendur vænta þess að stýrivextir Seðlabankans (vextir af lánum gegn veði til sjö daga) hækki umtalsvert á næstu misserum, en þeir eru nú 5,75%. Að meðaltali búast þeir við að stýrivextir verði 8,1% eftir 12 mánuði en í febrúar síðastliðnum bjuggust þeir við að þeir yrðu 6,9% og 4,8% fyrir ári síðan. Þriðjungur stjórnenda telur að þeir verði komnir yfir 9% eftir 12 mánuði.

Verðbólguvæntingar hjaðna en eru langt yfir verðbólgumarkmiði

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 4,1% samanborið við væntingar um 4,7% í könnuninni í maí síðastliðnum. Eftir tvö ár búast stjórnendur við að verðbólgan, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs síðastliðna 12 mánuði, verði 5,1% sem er svipað og í könnuninni í febrúar síðastliðnum. Yfir helmingur býst við því að verðbólgan verði þá á bilinu 4-6% en innan við fimmtungur hefur trú á því að hún verði undir 4%.

Flestir vænta veikingar gengis krónunnar

Meirihluti stjórnenda (54%) telur að gengi krónunnar veikist á næstu 12 mánuðum, 31% telja að það verði óbreytt og 16% að það styrkist. Þeim hefur fjölgað sem vænta veikingar á gengi krónunnar og þeim fækkað sem vænta styrkingar í samanburði við fyrri kannanir. Að meðaltali búast stjórnendur við 2,6% veikingu krónunnar en í febrúarkönnuninni var búist við 1,4% veikingu hennar.

Smelltu til að stækka

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 5. september til 2. október 2012 og voru spurningar 19. Í úrtaki voru 421 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 233 þeirra þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins