Efnahagsmál - 

12. Janúar 2012

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Heldur skárra mat á horfum en áður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Heldur skárra mat á horfum en áður

Þótt mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telji aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar þá hefur þeim fækkað hlutfallslega síðustu mánuði. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stærstu fyrirtækja landsins. Nú telja 67% stjórnenda aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 72% í síðustu könnun sem gerð var fyrir tveimur mánuðum síðan. 29% telja að þær séu hvorki góðar né slæmar en 4% að þær séu góðar. Á landsbyggðinni er þungt yfir stjórnendum, þar sem fjórir af hverjum fimm telja aðstæður slæmar, og enginn stjórnandi í sjávarútvegi telur aðstæður góðar. Á höfuðborgarsvæðinu telja þrír af hverjum fimm aðstæður vera slæmar en 5% að þær séu góðar. Jákvæðasta matið á núverandi aðstæðum er í ýmsum þjónustugreinum.

Þótt mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telji aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar þá hefur þeim fækkað hlutfallslega síðustu mánuði. Þetta kemur fram í nýrri könnun Capacent fyrir SA og Seðlabanka Íslands meðal stærstu fyrirtækja landsins. Nú telja 67% stjórnenda aðstæður vera slæmar en hlutfallið var 72% í síðustu könnun sem gerð var fyrir tveimur mánuðum síðan. 29% telja að þær séu hvorki góðar né slæmar en 4% að þær séu góðar. Á landsbyggðinni er þungt yfir stjórnendum, þar sem fjórir af hverjum fimm telja aðstæður slæmar, og enginn stjórnandi í sjávarútvegi telur aðstæður góðar. Á höfuðborgarsvæðinu telja þrír af hverjum fimm aðstæður vera slæmar en 5% að þær séu góðar. Jákvæðasta matið á núverandi aðstæðum er í ýmsum þjónustugreinum.

Vísitala efnahagslífsins eftir 6 mánuði ekki hærri í tæp 5 ár

Nokkuð meiri viðsnúningur er á mati á aðstæðum eftir sex mánuði samanborið við síðustu könnun, en þeir eru nú fleiri sem telja að þær batni á næstunni en að þær versni. Vísitala efnahagslífsins eftir sex mánuði, sem mælir mismun á fjölda þeirra sem telja að ástandið batni og þeim sem telja að það versni, hefur ekki verið hærri frá því í ársbyrjun 2007. Nú telja 22% stjórnenda að aðstæður batni en þeir voru 17% fyrir tveimur mánuðum, en sem fyrr telja langflestir (61%) að þær breytist ekki. Stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu eru mun bjartsýnni, þar sem 26% sjá fram á bata, en á landsbyggðinni þar sem aðeins 9% sjá fram á bata. Í þjónustugreinum, samgöngum og ferðaþjónustu og verslun sjá fleiri stjórnendur fram á bata en afturkipp, en stjórnendur í sjávarútvegi og byggingariðnaði sjá langflestir fram á lakari aðstæður.

Vísitala efnahagslífsins

Nægt framboð af starfsfólki

Langflestir stjórnendur, eða 90%, telja ekki að skortur sé á starfsfólki. Skortur á starfsfólki er minna vandamál en fyrir tveimur mánuðum síðan og svipaður og um mitt síðasta ár. Munur á höfuðborgarsvæði og landsbyggð er lítill, en skorturinn er heldur meiri á höfðuborgarsvæðinu. Skortur á starfsfólki er einkum í þjónustugreinum, samgöngum og ferðaþjónustu.

Fjölgun eða fækkun starfsmanna

Tæplega 30 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Ætla má af svörum stjórnendanna að starfsmönnum þeirra fækki um 100-200 á næstu sex mánuðum, eða um 0,3-0,7%. Langflestir, eða þrír af hverjum fimm, búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, 17% áforma fjölgun starfsmanna en 25% búast við fækkun. Fjölgun starfsmanna er áformuð í sérhæfðri þjónustu, samgöngum og ferðaþjónustu, óbreyttum fjölda í verslun en fækkun í öðrum atvinnugreinum.

Skortur á starfsfólki?

Innlend eftirspurn stöðug en lakari horfur erlendis

Stjórnendur fyrirtækjanna búast að jafnaði við óbreyttri eftirspurn á innanlandsmarkaði og er það sama niðurstaða og í könnuninni fyrir tveimur mánuðum. Hins vegar eru horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum nokkuð lakari en áður. Nú telja 38% að hún aukist, 46% að hún verði óbreytt en 16% að hún minnki. Í síðustu könnun töldu fleiri en nú (42%) að eftirspurnin myndi aukast og færri (9%) að hún myndi minnka.

Verðbólguvæntigar ekki breyst

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 3,5% samanborið við 3,6% í síðustu könnun. Miðgildi verðbólguvæntinga eftir eitt á er 4,0%.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 7. til 30. desember 2011 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 441 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 242 þeirra þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins