Efnahagsmál - 

22. Júní 2011

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Flestir telja aðstæður slæmar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Flestir telja aðstæður slæmar

Mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt reglubundinni könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í maí og júní 2011, telja 78% stjórnenda aðstæður slæmar, 21% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Þetta er nánast sama niðurstaða og fékkst í mars síðastliðunum þegar 79% stjórnenda töldu aðstæður slæmar.

Mikill meirihluti stjórnenda fyrirtækja telja aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar samkvæmt reglubundinni könnun Capacent meðal stærstu fyrirtækja landsins. Samkvæmt könnuninni, sem gerð var í maí og júní 2011, telja 78% stjórnenda aðstæður slæmar, 21% að þær séu hvorki góðar né slæmar en 2% að þær séu góðar. Þetta er nánast sama niðurstaða og fékkst í mars  síðastliðunum þegar 79% stjórnenda töldu aðstæður slæmar.

Mat stjórnenda á aðstæðum eftir 6 mánuði er töluvert lakara en verið hefur undanfarið og hefur matið ekki verið lægra síðan í desember 2009. 19% þeirra sjá fram á betri tíma eftir 6 mánuði, 31% að aðstæður verði verri en 50% telja að þær breytist ekki. Mun meiri bjartsýni ríkir á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 21% telja aðstæður batna, en á landsbyggðinni, þar sem einungis 11% telja þær batna. Stjórnendur í fjármálastarfsemi, þjónustu, iðnaði og verslun og eru bjartsýnni en í öðrum greinum, þar sem 20-30% telja að betri tíð sé í vændum, en mest svartsýni ríkir í byggingastarfsemi, þar sem enginn trúir á betri tíð, í samgöngum og flutningum, þar sem 5% sjá fram á betri tíð og í sjávarútvegi þar sem rúm 10% telja að ástandið batni.

Vísitala efnahagslífsins

Flest fyrirtæki hafa yfir nægu starfsfólki að ráða, eða um 90%, sem er svipað og verið hefur frá árinu 2009, en einungis 9% vantar starfsfólk. Skortur á starfsfólki er nú meiri á landsbyggðinni  en á höfuðborgarsvæðinu. Ekki eru áform um fjölgun starfa í þessum hópi fyrirtækja þar sem 58% þeirra hyggjast halda óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum, 13% áforma fjölgun starfsmanna en 26% stefna að fækkun. Þetta eru dekkri atvinnuhorfur en mælst hafa frá árinu 2009. Áformuð er fækkun starfsmanna í öllum þeim atvinnugreinum sem flokkað er eftir, en minnst fækkun er  áformuð í samgöngum og þjónustu, en mesta fækkunin í byggingastarfsemi og sjávarútvegi. Ekki er mikill munur á höfuðborgarsvæði og landsbyggð hvað áform um fækkun eða fjölgun starfsmanna varðar.

Helmingur fyrirtækjanna telur innlenda eftirspurn eftir vöru eða þjónustu fyrirtækjanna standa í stað á næstu sex mánuðum, en álíka margir telja að hún aukist og að hún minnki. Bestur horfurnar eru í þjónustugeiranum en lakastar í sjávarútvegi. Horfur á höfuðborgarsvæðinu eru marktækt betri en á landsbyggðinni. Horfur á erlendum mörkuðum eru hins vegar mun betri þar sem rúmur helmingur svarenda telur eftirspurn erlendis aukast en einungis 7% að hún minnki.

18% svarenda telja að framlegð fyrirtækjanna, EBITDA, muni aukast á næstu sex mánuðum sem er mun lakari niðurstaða en í síðustu könnun þar sem 29% töldu hana aukast. 32% telja að hún muni minnka en 45% að hún verði svipuð. Afkoman virðist fara versnandi þar sem framlegðin hefur minnkað hjá 41% fyrirtækjanna, aukist hjá 23% og staðið í stað hjá 36% á síðustu sex mánuðum.

Loks telja svarendur að meðaltali að verðbólgan verði 3,9% á næstu 12 mánuðum sem er svipað og í síðustu könnun þegar þeir bjuggust að meðaltali við 4,2% verðbólgu.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 17. maí til 19. júní 2011 og voru spurningar 9. Í úrtaki voru 440 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun) og var svarhlutfall 41% Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins