Stjórnendur 400 stærstu fyrirtækjanna: Dökkar horfur

Mikill meirihluti stjórnenda telur aðstæður í atvinnulífinu vera slæmar og þeim fækkar verulega sem búast við að þær batni á næstunni. Þetta eru helstu niðurstöður ársfjórðungslegrar könnunar á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja, sem gerð var um mánaðamótin maí-júní. Stjórnendur í sjávarútvegi og byggingariðnaði líta horfurnar dekkstum augum. Yfirleitt er nægt framboð af starfsfólki en þeim fyrirtækjum fer þó heldur fjölgandi sem skortir fólk, en í heild er þó búist við nokkurri fækkun starfsmanna á næstu sex mánuðum. Væntingar eru um vaxandi verðbólgu og búast stjórnendur við um 5% verðbólgu á næstu 12 mánuðum.

Aðstæður slæmar

Stjórnendur telja aðstæður slæmar í atvinnulífinu. Nú telja 63% þeirra aðstæður vera slæmar sem er sama hlutfall og í mars. Þriðjungur telur þær hvorki góðar né slæmar en aðeins 3% að þær séu góðar. Þrír af hverjum fjórum stjórnendum á landsbyggðinni telja aðstæður slæmar, en þrír af hverjum fimm á höfuðborgarsvæðinu. Í öllum atvinnugreinum telur meirihluti stjórnenda aðstæður slæmar. 90% stjórnenda í sjávarútvegi telja þær slæmar og 80% í byggingariðnaði. Skásta matið á aðstæðum er í fjármálaþjónustu, ýmissi sérhæfðri þjónustu og iðnaði þar sem u.þ.b. 55% telja aðstæður slæmar, en í verslun, samgöngum og ferðaþjónustu eru hlutföllin 57%-65%. Hlutfallslega fleiri stjórnendur í stórum fyrirtækjum en þeim minni telja aðstæður slæmar.

Vísitala efnahagslífsins eftir 6 mánuði lækkar aftur

Mat á aðstæðum eftir sex mánuði er nú lakara en í síðustu tveimur könnunum þótt það sé heldur skárra en fyrir ári. Tveir af hverjum þremur stjórnendum telja að þær verði óbreyttar, en heldur fleiri að þær versni en batni. Stjórnendur á höfuðborgarsvæðinu eru heldur bjartsýnni en á landsbyggðinni þótt litlu muni. Hlutfallslega fæstir stjórnendur í sjávarútvegi og byggingariðnaði sjá fram á bata en hlutfallslega flestir í fjármálaþjónustu og sérhæfðri þjónustu. Horfur eru dekkri meðal stjórnenda stærri fyrirtækja en smærri.

Smelltu til að stækka!

Nægt framboð af starfsfólki

Langflestir stjórnendur, 86%, búa við nægt framboð af starfsfólki í fyrirtækjum sínum, en 14% búa við skort, samanborið við 10%-12% í síðustu tveimur könnun. Enginn munur er á landsbyggð og höfuðborgarsvæði en fyrri kannanir hafa sýnt meiri þörf fyrir starfsfólk á landsbyggðinni. Skortur á starfsfólki er mestur í sérhæfðri þjónustu en minnstur í sjávarútvegi og meiri í smærri fyrirtækjum en þeim stærri.

Búist við lítilsháttar fækkun starfsmanna á næstunni

Rúmlega 25 þúsund starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. Ætla má að starfsmönnum þeirra fækki alls um 100 eða 0,4% á næstu sex mánuðum. Þetta er lakari niðurstaða en í síðustu könnun þar sem fram kom útlit fyrir óbreyttan starfsmannafjölda í heild. Þrír af hverjum fimm stjórnendum búast við óbreyttum starfsmannafjölda á næstu sex mánuðum, en álíka margir sjá fram á fjölgun og fækkun. Fjölgun starfsmanna er áformuð í sérhæfðri þjónustu, iðnaði, byggingarstarfsemi, samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, en fækkun í sjávarútvegi, fjármálastarfsemi og verslun.

Smelltu til að stækka!

Eftirspurn eykst jafnt innanlands sem erlendis

Stjórnendur fyrirtækjanna búast að jafnaði við aukinni eftirspurn á innanlandsmarkaði. Um fjórðungur þeirra býst við aukningu en tveir af hverjum þremur að eftirspurn verði óbreytt. Horfur um eftirspurn á erlendum mörkuðum á næstu sex mánuðum eru mjög góðar þar sem 40% stjórnenda búast við aukningu, 12% við samdrætti en 48% við óbreyttri eftirspurn.

Vaxandi verðbólguvæntingar

Að meðaltali búast stjórnendur við því að verðbólgan eftir eitt ár, þ.e. hækkun vísitölu neysluverðs á næstu 12 mánuðum, verði 4,7% samanborið við 4,5% í síðustu könnun og 3,5% í upphafi árs. Miðgildi verðbólguvæntinga eftir eitt ár er 5,0% eins og í síðustu könnun.

Smelltu til að stækka!

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Capacent. Einföld könnun með 7 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarlegri könnun með 19 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 22. maí til 8. júní 2012 og voru spurningar 7. Í úrtaki voru 406 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaunagreiðslur) og svöruðu 223 þeirra þannig að svarhlutfall var 55%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.