11. janúar 2022

Stjórnendur 400 stærstu: Góðar horfur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórnendur 400 stærstu: Góðar horfur

Reglubundin könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins var gerð um mánaðamót nóvember og desember 2021.

Meta núverandi aðstæður góðar

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, lækkar nokkuð frá síðustu könnun. Tæpur helmingur telur aðstæður góðar en rúmlega tíundi hver að þær séu slæmar. Í öllum þeim atvinnugreinum sem könnunin nær til telja mun fleiri stjórnendur að staðan sé góð en slæm og er mestur munur í þjónustu og verslun. Þá telja hlutfallslega fleiri aðstæður góðar á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og í heimamarkaðsgreinum en í útflutningsgreinum.

Helmingur telur að aðstæður fari batnandi

Fleiri stjórnendur telja að aðstæður batni en að þær versni á næstu sex mánuðum. Tæpur helmingur telur að aðstæður batni en einn af hverjum sjö að þær versni. Bjartsýni er almenn en er þó minni en fyrr á árinu.

Stöðugur vöxtur í spurn eftir starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur vaxið jafnt og þétt síðastliðið ár. Fyrir ári síðan bjuggu 8% fyrirtækja við skort á starfsfólki en nú er hlutfallið komið upp í 39%. Skortur á starfsfólki er mestur í byggingarstarfsemi, þar sem meirihluti fyrirtækja býr við skort, og þar á eftir koma iðnaður, verslun og ýmis þjónusta þar sem um 35-45% fyrirtækja búa við skort.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.100 á næstu 6 mánuðum

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 27 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 39% þeirra við fjölgun starfsmanna, 8% við fækkun en aðrir óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,7% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn má ætla að störfum fjölgi um 2.100 á næstu sex mánuðum, þ.e. á fyrri hluta ársins 2022. Áætluð fjölgun er 2.600 hjá fyrirtækjum sem áforma fjölgun starfsfólks en áætluð fækkun er 500 hjá hinum.

Stjórnendur í byggingarstarfsemi og ferðaþjónustu sjá fram á mesta fjölgun starfsfólks en stjórnendur í fjármálastarfsemi og sjávarútvegi og sjá fram á minnsta fjölgun.

Verðbólga yfir markmiði

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,7% og aukast nokkuð frá síðustu könnun. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru stöðugar við 3% eins og undanfarin tvö ár.

Vaxandi eftirspurn innanlands sem utan

Almennt er búist við aukinni innlendri eftirspurn á næstu 6 mánuðum. Tæplega helmingur stjórnenda býst við að hún aukist, álíka margir að hún standi í stað og örfáir að hún minnki. Enn betri horfur eru á erlendum mörkuðum þar sem tæplega 60% stjórnenda búast við aukinni eftirspurn.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni könnun með 9 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er könnunin ítarlegri með 20 spurningum. Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 15. nóvember til 7. desember 2021 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 444 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 206, þannig að svarhlutfall var 46%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins