Efnahagsmál - 

04. Júní 2007

Stjórn peningamála í ógöngum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stjórn peningamála í ógöngum

Samtök atvinnulífsins óska nýrri ríkisstjórn til hamingju með að vera komin til starfa og vilja gjarnan eiga við hana gott samstarf. Sérstaklega er lýst stuðningi við markmið ríkisstjórnarinnar um að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og trausta stöðu ríkissjóðs. Samtök atvinnulífsins fagna áformum ríkisstjórnarinnar um samráð við aðila vinnumarkaðarins. Verkefnin framundan eru margvísleg og mikilvæg og krefjast þess að gott samráð sé milli ríkisstjórnarinnar og samtakanna til þess að árangur náist. Atvinnulíf og almenningur eiga allt undir því að vel takist til í störfum ríkisstjórnarinnar.

Samtök atvinnulífsins óska nýrri ríkisstjórn til hamingju með að vera komin til starfa og vilja gjarnan eiga við hana gott samstarf. Sérstaklega er lýst stuðningi við markmið ríkisstjórnarinnar um að tryggja lága verðbólgu, lágt vaxtastig, betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum, jafnan og öflugan hagvöxt og trausta stöðu ríkissjóðs. Samtök atvinnulífsins fagna áformum ríkisstjórnarinnar um samráð við aðila vinnumarkaðarins. Verkefnin framundan eru margvísleg og mikilvæg og krefjast þess að gott samráð sé milli ríkisstjórnarinnar og samtakanna til þess að árangur náist. Atvinnulíf og almenningur eiga allt undir því að vel takist til í störfum ríkisstjórnarinnar.

Seðlabankinn í sjálfheldu
Ríkisstjórnin þarf nú þegar að taka á þeirri sjálfheldu sem stjórn peningamála og hagstjórnin hefur ratað í. Þetta verkefni er afar brýnt vegna þess að aðgerðir Seðlabankans hafa skaðað atvinnulífið án þess að skila árangri á móti og atvinnulífið getur ekki þolað þá skertu samkeppnisstöðu sem of há verðbólga, viðvarandi háir vextir og óhóflegar gengissveiflur hafa skapað.  Seðlabankinn hefur á undanförnum misserum hækkað stýrivexti en þeir eru nú 14,25%. Á þeim tíma hefur gengi krónunnar sveiflast fram og til baka, bæði hækkað ótæpilega, en síðan lækkað á ný. Nú fer gengið enn á ný hækkandi og er orðið alltof hátt miðað við stöðu atvinnulífsins og jafnvægi í viðskiptum við útlönd. Útlit er fyrir að gengið eigi eftir að hækka enn frekar áður en það lækkar á ný. Gengið mun þá lækka þrátt fyrir háa stýrivexti Seðlabankans og bankinn mun ekki að óbreyttu um fyrirsjáanlega framtíð sjá möguleika á því að lækka vexti.

Vaxtatækið dugar ekki
Tilraunir Seðlabankans til þess að hafa hemil á verðbólgu með vaxtahækkunum hafa sýnt að þetta tæki bankans dugar lítið sem ekkert í þeirri viðleitni. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að markaðshlutdeild óverðtryggðrar krónu er orðin mjög lítil í lánakerfinu og að hlutdeild erlendra lána fer sífellt vaxandi. Enda reyna flestir sem geta að taka erlend lán og flýja krónuna. Viðvarandi háir vextir grafa þannig undan krónunni sem gjaldmiðli. Almennt á vaxtatækið að virka beint á einkaneyslu og fjárfestingar fyrirtækja og draga þannig úr eftirspurn. En þetta á aðeins í takmörkuðum mæli við í hagkerfi eins og því íslenska þar sem tiltölulega lítill hluti hagkerfisins er háður vöxtum í eigin gjaldmiðli. Seðlabankinn hefur t.d. lýst gengi krónunnar sem helsta miðlunartæki peningastefnunnar hér á landi sem gengur út á það að háir vextir eigi að hækka gengið, beina eftirspurn út úr hagkerfinu og draga svo mikið úr tekjumyndun í útflutnings- og samkeppnisgreinum að það hafi líka áhrif á eftirspurn. En gjaldeyrismarkaðurinn virðist hegða sér þannig að gengi krónunnar lækkar löngu áður en slík eftirspurnaráhrif koma fram.  Þegar markaðsaðilum finnst að of mikið sé kreppt að þessum atvinnugreinum hætta þeir að taka mark á Seðlabankanum og gengið lækkar þrátt fyrir himinháa vexti. Ennfremur hefur aukin alþjóðavæðing íslenska fjármálamarkaðarins þýtt að háir vextir skapa nægt framboð erlendis frá af lánsfé í íslenskum krónum með svokölluðum jöklabréfum en virðast ekki hafa laðað fram teljandi aukningu á sparnaði innlendra aðila.

Gengissveiflur draga úr árangri
Gengissveiflurnar hafa reynst afar óheppilegar fyrir atvinnulífið þar sem þær skapa óhóflegar sveiflur í afkomu og draga úr árangri atvinnulífsins.  Það þarf því að hugsa stjórn peningamála upp á nýtt.  Vaxtahækkanir og gengissveiflur hafa ekki dugað til þess að vinna bug á verðbólgunni heldur búa til viðvarandi ástand hárra vaxta. Gengissveiflurnar eru beinlínis skaðlegar vegna þess að þær draga úr árangri og samkeppnishæfni atvinnulífsins án þess að skila neinu á móti. 

Önnur hagstjórnartæki nauðsynleg
Við þessi skilyrði þarf að leggja meiri áherslu á önnur hagstjórnartæki en vaxtatækið enda hefur það nánast verið tekið úr sambandi með ofnotkun þess. Það sem mestu máli skiptir er að skoða mikilvægustu markaðina í hagkerfinu, hvernig þeir virka og hvort á þeim sé óeðlilegt ástand vegna tilbúinnar eftirspurnar eða hindrana á framboðshliðinni. Fjármál hins opinbera hafa mikla þýðingu fyrir heildareftirspurn og verða að vera í lagi. Við gerð fjárlaga fyrir árið 2008 verður að hafa hemil á aukningu samneyslu og tilfærsluútgjalda þannig að ríkisbúskapurinn verði ekki uppspretta umframeftirspurnar í hagkerfinu. Í aðdraganda kosninganna 12. maí sl. settu allir stjórnmálaflokkarnir fram áform um aukin ríkisútgjöld og lægri skatta. Mikilvægt er að öll þessi áform finni sér farveg innan ramma sem samræmist hóflegum langtíma vexti ríkisútgjalda og lækkandi skatta án þess að halli myndist á ríkissjóði. Ennfremur er nauðsynlegt að haga fjármálum sveitarfélaga þannig að þau vinni ekki gegn hagstjórnaraðgerðum ríkisins. Samtök atvinnulífsins ítreka nauðsyn þess að sveitarfélögum verði settar reglur sem koma í veg fyrir hallarekstur þeirra.

Lækka lánshlutföll Íbúðalánasjóðs og hætta inngripi í markaðinn
Ein mikilvægasta aðgerðin við núverandi aðstæður er að lækka á ný lánshlutföll Íbúðalánasjóðs og lánsfjárhæðir. Sjóðurinn er markaðsleiðandi og síðasta hækkun lánshlutfalla kom undraskjótt fram í nýjum hækkunum á fasteignaverði sem bæði koma beint fram í hækkunum á neysluverðsvísitölu og síðan óbeint vegna áhrifa á einkaneyslu og eftirspurn. Þetta er ein meginskýringin á því af hverju verðbólgan hefur verið alltof mikil undanfarna mánuði. Lækkun lánshlutfalla Íbúðalánasjóðs á síðasta sumri, í kjölfar kjarasamninganna í júní, var lykilatriði í því að hægja þá á verðhækkunum og ná betra jafnvægi. Þeim aðgerðum var vel tekið en síðan dró mjög úr trúverðuleika stjórnvalda þegar þær voru dregnar til baka. Starfsemi Íbúðalánasjóðs hefur sætt mikilli gagnrýni alþjóðastofnana, s.s. IMF og OECD, auk matsfyrirtækja sem meta lánshæfi íslenskra aðila. Sífellt erfiðara er að réttlæta það inngrip ríkisins á almennan lánamarkað sem felst í rekstri Íbúðalánasjóðs og ríkistryggingu lána til almennings. Sjóðurinn hefur beinlínis unnið gegn markmiðum og viðleitni Seðlabankans með því að takmarka fjölbreytni skuldabréfaútgáfu sinnar í því skyni að geta haldið útlánsvöxtum niðri. Íbúðalánasjóður má ekki starfa eins og ríki í ríkinu í skjóli sérstöðu sinnar og það verður að tryggja að hann grafi ekki undan hagstjórninni.  Brýnt er að sérmeðferð á Íbúðalánasjóði, s.s. ríkisábyrgð, verð hætt og að ríkið dragi sig út úr þessari lánastarfsemi með sama hætti og gert hefur verið á öðrum sviðum fjármálamarkaðarins.

Frekari opnun vinnumarkaðar
Önnur mikilvæg aðgerð snýr að vinnumarkaðnum. Opnun vinnumarkaðarins gagnvart nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins fyrir ári síðan hafði mjög jákvæð áhrif og leiddi til betra jafnvægis og samræmis á markaðnum. Nú stendur atvinnulífið frammi fyrir aukinni þörf fyrir starfsfólk, ekki síst fyrir sérhæft starfsfólk á ýmsum sviðum. Þetta starfsfólk er ekki endilega að finna á Evrópska efnahagssvæðinu heldur jafnvel miklu frekar utan þess. Nú er miklum erfiðleikum bundið að fá slíka starfsmenn til landsins og er brýnt að greiða fyrir aðgangi þeirra að vinnumarkaðnum. Það verður sífellt nauðsynlegra til þess að tryggja eðlilega þróun á vinnumarkaðnum og samkeppnishæfni atvinnulífsins á næstu misserum.

Fyrstu aðgerðir
Ný ríkisstjórn þarf að taka strax myndarlega á hagstjórninni m.a. með þeim aðgerðum sem hér hafa verið nefndar. Fyrstu aðgerðirnar þurfa að vera að skapa forsendur fyrir lækkandi verðbólgu. Aðgerðir í málefnum Íbúðalánasjóðs og fasteignamarkaðarins eru lykilatriði. Þá þarf strax að koma skýrt fram hvaða markmið ríkisstjórnin setur vegna fjárlagagerðar fyrir næsta ár. Meginatriði er að marka efnahagsstefnunni trúverðugleika og lækka verðbólguvæntingar. Ríkisstjórnin þarf að gefa Seðlabankanum skýr skilaboð um að hún ætlist til þess að bankinn vinni ekki gegn trúverðugleika efnahagsstefnunnar og gegn væntingum um lægri verðbólgu. Það gefur Seðlabankanum tækifæri til þess að komast úr sjálfheldu hárra vaxta en það vekur von um að gengi krónunnar verði stöðugra og lægra en nú og þannig meira í takt við getu atvinnulífsins og stöðuna í viðskiptum við útlönd. Í framhaldinu þarf að hefja sérstaka úttekt og endurskoðun á fyrirkomulagi stjórnar peningamála en því starfi hraða því starfi eftir föngum þar sem núverandi stjórnunaraðferðir eru allt of kostnaðarsamar fyrir atvinnulífið. Brýnt er að niðurstaðan af slíkri vinnu geti eftir því sem við á fengið afgreiðslu með lagabreytingum þegar á haustþingi. 

Samtök atvinnulífsins óska eftir samstarfi við ríkisstjórnina um að ná fram þeim breytingum sem hér hafa verið raktar svo fljótt sem frekar er kostur.

Samtök atvinnulífsins