Stinga kaupmenn gengisstyrkingu krónunnar í vasann?

Algengt er að fullyrt sé að kaupmenn séu fljótir að hækka verð þegar gengi krónunnar lækkar en tregari til lækkunar þegar krónan styrkist. Þessi fullyrðing styðst ekki við reynslu síðustu ára og áratuga. Val á upphafspunkti samanburðar á þróun gengis og verðlags innfluttra vara skiptir miklu máli og getur leitt til rangra ályktana. Þá tekur samanburður á gengi og innflutningsverði ekki til allra þátta sem áhrif hafa á söluverð innfluttra vara, því taka þarf erlenda verðbólgu og innlenda kostnaðarþróun með í reikninginn. Þegar heildarmyndin er skoðuð frá ársbyrjun 2008 kemur í ljós að kostnaðarverð innfluttra vara hækkaði um 75% en verð innfluttra vara um 61% og þar af leiðandi lækkaði álagning verslunarinnar.

Formaður VR, Ólafía B. Rafnsdóttir skrifaði grein í VR blaðið 10. desember þar sem hún hélt því fram að styrking krónunnar undanfarin misseri hefði ekki skilað sér í lægra verði innfluttra neysluvara. Valdi hún tímabilið frá janúar 2013 til september 2014 þegar meðalgengi krónunnar styrktist um 12,4% bar saman við að innfluttar mat- og drykkjarvörur hefðu lækkað um 0,6%. Við röksemdafærslu og niðurstöðu Ólafíu er ýmislegt að athuga.

  • Gengisbreytingar skila sér að fullu í verðlagi á nokkrum mánuðum og eru yfirleitt að mestu komnar fram eftir 1-4 mánuði. Gengi krónunnar var mjög sveiflukennt á árinu 2012 og lækkaði mikið á síðustu mánuðum ársins, eða um tæp 12%. Sú gengislækkun leiddi til hækkunar á verði innfluttra vara á fyrstu mánuðum ársins 2013. Í greininni veldur upphafspunktur samanburðarins, janúar 2013 þegar gengi krónunnar var mjög lágt í samanburði við núverandi stöðu þess, því að hrapað er að kolrangri niðurstöðu. 
  • Innfluttar mat- og drykkjarvörur eru einungis 3,8% af 34,4% hlutdeild innfluttra vara í neyslu landsmanna. Verð margra innfluttra matvara sveiflast mikið á heimsmarkaði, t.d. kakó og kakósmjör, sem er aðalhráefnið í súkkulaðivörur og hækkaði um helming á heimsmarkaði á þessu tímabili. Þá var tekinn upp sykurskattur á tímabilinu sem olli einnig verulegri hækkun á söluverði innfluttra mat- og drykkjarvara óháð gengisþróun. Eðlilegra er því að bera saman verðþróun á öllum innflutningsvörum við þróun gengis krónunnar.
  • Samanburður á gengisþróun og verðlagi innflutningsvara í heild, án áfengis og tóbaks, frá janúar 2008 til desember 2014 sýnir að gengislækkun krónunnar skilaði sér ekki að fullu út í verðlagið. Á árinu 2008 hækkaði gengisvísitalan um 71% en söluverð innfluttra vara um 30%. Á árunum þar á eftir minnkaði þessi munur, en þegar tímabilið 2008-2014 er skoðað í heild kemur í ljós að gengisvísitalan hækkaði um 65% en innfluttar vörur um 61%.

undefined

Gengi krónunnar er ekki eini áhrifavaldurinn á söluverð innfluttra vara. Verðbólga erlendis, hækkun innlends kostnaðar og breytingar á vörutengdum sköttum hafa einnig áhrif. Þó verðbólga erlendis hafi almennt verið minni en hér á landi er hún samt sem áður nokkur. Að auki greiða verslanir laun og þar fellur til ýmis innlendur kostnaður svo sem vegna húsaleigu, rafmagns, hita og fjölmargra annarra innlendra kostnaðarþátta.

Taka verður tillit til framangreindra þátta ef nálgast á heildstætt mat á áhrifum gengisþróunar á verðþróun innfluttra vara. Hér að neðan er viðfangsefnið nálgast með þeim hætti. Miðað er við kostnaðarskiptingu verslunarkeðjunnar Haga hvað varðar meðalkostnaðarverð seldra vara, hlutfall launakostnaðar af vörusölu og hlutfall annars kostnaðar. Ekki er litið til fjármagnsliða né skatta í þessu samhengi.

Starfsemi Haga er fjölþætt og nær bæði til matvöru, fatnaðar og ýmissar annarrar sérvöru. Vörusala þeirra ætti því að endurspegla ágætlega verslun með innlenda og erlenda vöru. Meðalkostnaðarverð seldra vara hjá Högum er tæp 76% af tekjum, launakostnaður 9% og annar rekstrarkostnaður 15%. Á þeim grundvelli er reiknuð kostnaðarvísitala seldra vara þar sem breyting á kostnaðarverði seldra vara miðast við erlenda verðbólgu og gengisþróun tímabils, breyting launakostnaðar við þróun launavísitölu yfir sama tímabil og breyting annars innlends kostnaðar við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Tvö tímabil eru tekin eru til skoðunar; frá janúar 2008 til nóvember 2014 og mars 1997 til nóvember 2014.

Á tímabilinu janúar 2008 til nóvember 2014 hækkuðu erlendir gjaldmiðlar um 67%, verðlag á EES-svæðinu hækkaði um 11,6% að meðaltali, en á Íslandi hækkaði vísitala neysluverðs og launavísitala Hagstofunnar um nærri 50%. Á tímabilinu frá mars 1997 hækkaði verðlag á EES-svæðinu um 38% og erlendir gjaldmiðlar hækkuðu um 85%. Á Íslandi hækkaði vísitala neysluverðs um 136% og launavísitala um 231% á sama tíma.

Þegar litið er til þessara þátta kemur í ljós að verðlag innfluttra vara hér á landi hækkaði um 61% frá janúar 2008 en áætlað kostnaðarverð innfluttra vara hækkaði um 75%. Kostnaðarverð innfluttra vara hækkaði því um 9% umfram útsöluverð þeirra hér á landi frá janúar 2008 til nóvember 2014. Með öðrum orðum, álagning verslunarinnar minnkaði á tímabilinu.

undefined

Gagnlegt er að horfa til verðþróunar yfir löng tímabil til að forðast skekkjur sem geta falist í vali á upphafspunkti þess tímabils sem tekið er til skoðunar. Sé horft til alls tímabilsins, sem sundurliðun Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs nær til, þ.e. frá mars 1997 til nóvember 2014, kemur í ljós að kostnaðarverð innfluttra vara hækkaði um 153% á sama tíma og söluverð þeirra í verslunum hækkaði um 89%. Kostnaðarverð innfluttra vara hækkaði því þriðjungi meira en söluverð þeirra á því tímabili. Álagning verslunarinnar minnkaði því verulega á tímabilinu.

Jafnframt má glögglega sjá að sveiflur í söluverði innfluttra vara hér á landi eru mun minni en sveiflur í kostnaðarverði þeirra. Mikil kostnaðaraukning, t.d. samhliða gengisfalli, fer ekki út í verðlagið að fullu. Þetta má sjá bæði í gengisfalli áranna 2001, 2006 og 2008-2009. Í öllum tilvikum er hækkun á söluverði mun minni en sem nemur hækkun á kostnaðarverði innfluttra vara.

Það er því röng fullyrðing hjá formanni VR að halda því fram að gengisstyrking skili sér síður í verðþróun innfluttra vara hér á landi en gengisveiking. Staðreyndin er sú að á undanförnum þrettán árum hefur krónan í þrígang veikst umtalsvert án þess að sú veiking hafi komið að fullu fram í verðlagi innfluttra vara. Hvorki í beinu framhaldi af gengisveikingunni né til lengri tíma litið.

undefined