Efnahagsmál - 

13. janúar 2004

Stimpilgjöld og vörugjöld tímaskekkja

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stimpilgjöld og vörugjöld tímaskekkja

"Breytingar á skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja á síðustu árum hafa verið afar jákvæðar og er óhætt að fullyrða, að þær eigi ríkan þátt í afkomubata þjóðarinnar nú hin síðari ár," sagði Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins í setningarræðu sinni á skattadegi Deloitte, Viðskiptablaðs Morgunblaðsins og Samtaka atvinnulífsins. Hann sagði skattalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja orðið sambærilegt eða jafnvel betra en í samanburðarlöndum á flestum sviðum. Verkinu væri þó ekki lokið og fjallaði Ingimundur m.a. um mikilvægi þess að afnema hinn nánast séríslenska eignarskatt, stimpilgjöld og vörugjöld, sem hann sagði að hlytu að teljast tímaskekkja í nútímaefnahagskerfi. Sagði hann Samtök atvinnulífsins telja brýnna að afnema slíka neyslustýrandi skatta en að lækka lægra skattþrep í virðisaukaskatti. Jafnframt fjallaði Ingimundur um kaupréttarsamninga og sagði hann mikilvægt að gæta hófs við gerð slíkra samninga, en jafnframt að skattareglur ættu ekki að koma í veg fyrir það hagræði sem árangurstengdir launasamningar hefðu í för með sér.

"Breytingar á skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja á síðustu árum hafa verið afar jákvæðar og er óhætt að fullyrða, að þær eigi ríkan þátt í afkomubata þjóðarinnar nú hin síðari ár," sagði Ingimundur Sigurpálsson, formaður Samtaka atvinnulífsins í setningarræðu sinni á skattadegi Deloitte, Viðskiptablaðs Morgunblaðsins og Samtaka atvinnulífsins. Hann sagði skattalegt umhverfi íslenskra fyrirtækja orðið sambærilegt eða jafnvel betra en í samanburðarlöndum á flestum sviðum. Verkinu væri þó ekki lokið og fjallaði Ingimundur m.a. um mikilvægi þess að afnema hinn nánast séríslenska eignarskatt, stimpilgjöld og vörugjöld, sem hann sagði að hlytu að teljast tímaskekkja í nútímaefnahagskerfi. Sagði hann Samtök atvinnulífsins telja brýnna að afnema slíka neyslustýrandi skatta en að lækka lægra skattþrep í virðisaukaskatti. Jafnframt fjallaði Ingimundur um kaupréttarsamninga og sagði hann mikilvægt að gæta hófs við gerð slíkra samninga, en jafnframt að skattareglur ættu ekki að koma í veg fyrir það hagræði sem árangurstengdir launasamningar hefðu í för með sér.

Vel sóttur fundur
Fundinn sóttu rúmlega tvö hundruð manns, en þar var m.a. fjallað um skattaleg atriði varðandi skuldsetta yfirtöku hlutafélaga, skattlagningu kaupréttar og annarra hlunninda hjá yfirmönnum hlutafélaga, skattaleg atriði við Hybrid fjármögnun, breytingar á skattalögum 2003 og mörk skattasniðgöngu og skattafyrirhyggju. Setningarræðu Ingimundar er að finna hér að neðan, en önnur erindi fundarins er að finna á vef Deloitte.

Setningarræða Ingimundar Sigurpálssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins:

Góðan dag góðir fundarmenn!
Stöðugt rekstrarumhverfi og jafnvægi í efnahagslífi eru fyrirtækjum nauðsynleg til þess að standast alþjóðlega samkeppni. Skattamál og samkeppnishæfni atvinnulífsins eru nátengdir efnisflokkar og getur skipan þeirra mála skipt sköpum í afkomu fyrirtækja. Breytingar á skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja á síðustu árum hafa verið afar jákvæðar og er óhætt að fullyrða, að þær eigi ríkan þátt í afkomubata þjóðarinnar nú hin síðari ár. 

Mikilvægustu breytingar á sviði skattamála á þeim tíma má telja lækkun á álagningarhlutfalli skatta á hagnað fyrirtækja, sem gildi tóku á síðasta ári. Í upphafi síðasta áratugar var fyrirtækjum gert að greiða allt að helming hagnaðar í tekjuskatt, en nú nemur sú greiðsla tæpum fimmtungi. Afnám aðstöðugjalds á fyrri hluta síðasta áratugar var einnig mikilvægt framfaraspor, en það var skattur, sem lagður var á fyrirtæki án tillits til afkomu. Samræming tryggingagjalds milli atvinnugreina telst einnig vera jákvætt skref, sem og einnig helmings lækkun eignaskatts. Þannig má segja, að markvisst hafi verið unnið að umbótum á skattalegu umhverfi íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum og er ánægjulegt að geta sagt, að það hafi með tímanum orðið sambærilegt eða jafnvel betra en í öðrum samanburðarlöndum á flestum sviðum.

Það er þó ekki svo, að verkinu sé að fullu lokið. Margt er enn á þeim verkefnalista, sem fylgja þarf eftir til umbóta í skattamálum fyrirtækja. Þar má nefna afnám eignaskatts, sem er nánast séríslenskt tilvik í skattlagningu fyrirtækja, og afnám stimpil- og vörugjalda, sem hlýtur að teljast tímaskekkja í nútímaefnahagskerfi. Þá er þess að geta, að Samtök atvinnulífsins hafa nýlega sett fram ósk um að íslensk skattalög verði aðlöguð frekar að alþjóðlegu samkeppnisumhverfi að því er varðar skattlagningu arðs, söluhagnaðar og þóknana til félaga, sem skráð eru erlendis.

Nú liggur fyrir stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um afnám eignaskatts að fullu, enda er hann arfur frá þeim tíma, þegar fjármagnstekjuskattur var ekki lagður á.  Ríkisstjórnin hefur einnig haft það á stefnuskrá sinni að afnema stimpilgjöld, en því miður hefur enn ekki orðið af framkvæmd þess enn sem komið er. Það veldur svo vonbrigðum, að ekki skuli vera á stefnuskrá stjórnvalda að afnema vörugjöld, en þess í stað er stefnt að því að lækka neðra þrep virðisaukaskatts. Væri mikilsvert, að þeirri forgangsröðun yrði snúið við. 

Kaupréttarsamningar eru tiltölulega nýtilkomnir í íslensku atvinnulífi og hafa þeir mætt nokkurri tortryggni. Stjórnvöld hafa búið svo um hnúta í skattalöggjöf, að slíkir samningar verða fyrirtækjum hér á landi kostnaðarsamari en almennt er í samkeppnislöndum okkar. Tilgangur kaupréttarsamninga er að binda saman hagsmuni eigenda fyrirtækis annars vegar og stjórnenda og annarra starfsmanna hins vegar. Ákvæði skattalaga þess efnis, að skattaleg ívilnun skuli háð því að kauprétturinn nái til allra starfsmanna og sömuleiðis að við innlausn kaupréttar skuli greiddur tekjuskattur og útsvar óháð því hvort söluhagnaður sé innleystur, eru beinlínis til þess fallin að draga úr gildi slíkra samninga. Afkomutengdir launasamningar hafa ótvíræða kosti, þegar kemur að uppbyggingu nýrra fyrirtækja, sem e.t.v. hafa ekki sama bolmagn til þess að greiða samkeppnishæf laun í upphafi rekstrar, en kunna að geta það, þegar árangur af starfinu er farinn að skila sér. Fyrirkomulag þetta lækkar aðgangshömlur að markaði, gerir sprotafyrirtækjum kleift að standast erlenda samkeppni og síðast en ekki síst eykur samkeppni hér innanlands til hagsbóta fyrir neytendur. Vissulega er nauðsynlegt að taka tillit til almennra aðstæðna í íslensku efnahagslífi og gæta hófs við gerð slíkra kaupréttarsamninga. Á sama hátt er mikilvægt að stíga varlega til jarðar, þegar skattareglur eru settar í þessu nýja umhverfi, og miða reglusetninguna við skattalega skilvirkni. Þær eiga ekki undir neinum kringumstæðum að koma í veg fyrir það hagræði, sem árangurstengdir launasamningar geta haft í för með sér. 

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á, að stefnumótun í skattamálum byggi á því að markmið um skilvirkni verði sett framar markmiðum um tekjuskiptingu.  Stöðugleiki og gagnsæi í skattareglum eru ekki síður mikilvæg en stöðugleiki í verðlagi. Forgangsröð í skattamálum þarf að byggja á því, að skattlagning valdi sem minnstu óhagræði, og því telja Samtök atvinnulífsins brýnna að afnema skaðlega og neyslustýrandi skatta eins og stimpilgjöld og vörugjöld heldur en að lækka lægra skattþrep í virðisaukaskatti. Reglusetning um breytileg skattþrep í virðisaukaskatti er afar dýr og óskilvirk leið til þess að bæta hag heimilanna. Sú breyting á ekki að vera hluti af almennri stefnumörkun í skattamálum til lengri tíma, enda er hún ekki niðurstaða rökræðna eða rannsókna á því, hvaða leiðir í skattamálum stuðli best að bættum hag þjóðarinnar. Stjórnvöld ættu því tvímælalaust að taka til endurskoðunar áform um lækkun á lægra þrepi virðisaukaskatts og gaumgæfa fremur, hvort ekki sé affarasælla að vinna að afnámi vörugjalda.

Ágætu fundarmenn!
Hér á eftir verður m.a. fjallað um skattaleg atriði varðandi skuldsetta yfirtöku hlutafélaga og skattlagningu kaupréttar og annarra hlunninda. Þá verður fjallað um Hybrid fjármögnun, breytingar á skattalögum á árinu 2003, og mörk skattasniðgöngu og skattafyrirhyggju. Allt eru þetta fróðleg og mikilvæg umræðuefni. Ég vil nota tækifærið og þakka Deloitte fyrir að eiga frumkvæði að því að stofna til þessa fundar hér í dag, en hann er haldinn í samstarfi við Viðskiptablað Morgunblaðsins og Samtök atvinnulífsins.

Að svo mæltu segi ég fundinn settan og bið Guðrúnu Hálfdánardóttur, fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, að taka við fundarstjórn.

Samtök atvinnulífsins