Efnahagsmál - 

08. Júní 2007

Stefnuyfirlýsing G8 fundarins: Hagvöxtur og ábyrgð

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stefnuyfirlýsing G8 fundarins: Hagvöxtur og ábyrgð

Stefnuyfirlýsing 8 helstu iðnríkja heims sem samþykkt var á fundi leiðtoga ríkjanna í gær ber yfirskriftina "Vöxtur og ábyrgð í hnattrænu hagkerfi". Þar er ítarlega fjallað um helstu verkefni sem eru á döfinni í efnahagskerfi heimsins.

Stefnuyfirlýsing 8 helstu iðnríkja heims sem samþykkt var á fundi leiðtoga ríkjanna í gær ber yfirskriftina "Vöxtur og ábyrgð í hnattrænu hagkerfi". Þar er ítarlega fjallað um helstu verkefni sem eru á döfinni í efnahagskerfi heimsins.

Hagkerfi heimsins
Farið er yfir hvernig smám saman hafi náðst aukið jafnvægi í efnahagsþróuninni en verkefnin framundan hjá ríkjunum séu m.a. að draga úr halla ríkissjóðs í Bandaríkjunum og að halda fast við Lissabon áætlunina um að efla hagvöxt og fjölga störfum í Evrópu. Einnig er lögð áhersla á að ríki í Asíu taki upp meiri sveigjanleika í skráningu gjaldmiðla og að olíuríkin auki framleiðslu sína. Fjallað er um stöðugleika fjármálamarkaða og nauðsyn þess að auka gagnsæi vogunarsjóða. Mikilvægt er talið að auka frelsi til fjárfestinga og hvetja til þeirra. Viðskiptahindranir og verndarstefna leiði til minni velferðar. Hvatt er til þess að ríki heims leyfi alþjóðlegum fyrirtækjum í auknu mæli að bjóða í verkefni í þróunarríkjum. Með því að leyfa beina erlenda fjárfestingu í grunnkerfum þróunarríkja og hvetja til samstarfs alþjóðlegra fyrirtækja og heimaaðila megi auka þekkingu og bæta tækni þar. Fjallað er um ýmsar útfærslur á slíkum verkefnum.

Félagslegt öryggi
Lögð er áhersla á að alþjóðavæðingu og tæknilegum framförum fylgi einnig aukin félagsleg velferð og að stutt verði við það starf sem fram fer hjá Alþjóða vinnumálastofnuninni í því skyni. Lögð er áhersla á að einkafyrirtæki sýni fulla ábyrgð á þessu sviði og í umhverfismálum.

Efling nýsköpunar og vernd réttinda
Vísindi, rannsóknir og nýsköpun leggja grunn að hagvexti og aukinni velferð. Lykilatriði sé að efla þessa þætti í öllum ríkjum heimsins. Samspil vísinda og menntunar og að rannsóknir skapi verðmæti í formi nýrrar þjónustu og vöru sem leiði til þess að auðveldara verður að takast á við áskoranir sem framundan eru. Leiðtogarnir leggja áherslu á vernd einkaleyfa og hugverkaréttinda og að berjast gegn ólöglegri hagnýtingu þessara réttinda. Hvatt er til þess að ríki heims sameinist um vettvang til að fjalla um vernd rétttinda sem skapast með nýsköpun.

Ábyrg nýting
Vinnsla hráefna úr jörðu er mikilvæg fyrir sjálfbæran hagvöxt. Í mörgum fátækustu ríkjum felast í þeim mikilvæg verðmæti til að skapa vöxt og draga úr fátækt. Það eru sameiginlegir hagsmunir allra að þessar auðlindir séu nýttar á ábyrgan hátt og mikilvægt er að tryggja  gagnsæi við nýtingu þeirra og viðskipti með þær. Hvatt er til þess að námufyrirtæki gefi reglulega upplýsingar um nýtingu og að byggt verði upp vottunarkerfi til að auka gagnsæi á þessu sviði. Mikilvægt er að berjast gegn spillingu og misbeitingu.  Því er fagnað að stórir bankar styðji við frumkvæði Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna á þessu sviði og aðrir hvattir til að fylgja í þau fótspor. 

Baráttan við spillingu
Því er lýst yfir að eitt mikilvægasta verkefni G8 samstarfsins sé baráttan við spillingu bæði í einstökum ríkjum og á heimsvísu. Þung áhersla verður lögð á aukið samstarf á þessu sviði auk þess sem ríki verða aðstoðuð við ná aftur eignum sem horfið hafa á ólöglegan hátt. Eftirlit með samningum verður aukið með það að markmiði að draga úr mútugreiðslum. Til að tryggja beina erlenda fjárfestingu í þróunarríkjum er alger nauðsyn að efnahagskerfi ríkjanna sé stöðugt, gegnsætt og laust við spillingu.

Heiligendamm ferlið
Leiðtogarnir hafa rætt við þjóðarleiðtoga Brasilíu, Indlands, Kína, Mexíkó og Suður Afríku um áskoranir sem takast þarf á við í hagkerfi heimsins. Hvorki G8 ríkin né önnur ríki geta tekist á við þær án stuðnings annara. Efnt er til viðræðna sem hefjast í haust og á að  ljúka fyrir leiðtogafund á Ítalíu 2009. Í viðræðunum verður lögð áhersla á fernt:

Að hvetja til nýsköpunar og afla henni verndar.

Að auka frelsi til fjárfestinga í opnum hagkerfum þar sem áhersla er lögð á félagsleg réttindi.Að skilgreina sameiginlega ábyrgð í þróunarmálum og taka sérstakt tillit til Afríku.
Að miðla þekkingu til að bæta orkunýtingu og tæknisamvinnu með það að markmiði  að draga úr útstreymi koldíoxíðs.

Stór hluti stefnuyfirlýsingarinnar fjallar um loftslagsbreytingar, orkunýtingu og orkuöryggi og er fjallað um það í öðrum pistli hér á vef SA.

Auk stefnuyfirlýsingar gáfu leiðtogarnir út sérstaka yfirlýsingu um "Hagvöxt og ábyrgð í Afríku" þar sem fjallað er um fjölmörg atriði svo sem baráttuna við alnæmi og aðra smitsjúkdóma, hlutverk lyfjaiðnaðarins, betra heilbrigðiskerfi og öryggi og frið.

Vefur G8 fundarins er hér.

Samtök atvinnulífsins