Efnahagsmál - 

03. júlí 2008

Stefnir í 90 milljarða olíuinnkaup Íslendinga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stefnir í 90 milljarða olíuinnkaup Íslendinga

Verðmæti innflutts eldsneytis án álagningar og skatta nam 37,2 milljörðum króna á síðasta ári og 36,4 milljörðum árið 2006. Sé miðað við óbreytta notkun á þessu og næsta ári og gengi krónunnar eins og það er um þessar mundir gæti verðmætið numið 75 milljörðum króna á þessu ári og 90 milljörðum á því næsta. Þá eru kaup íslenskra aðila erlendis ótalin en ætla má að þau nemi allt að 15 milljörðum króna á þessu ári. Haldist olíuverð áfram jafn hátt eða hækki enn eins og ýmsar spár standa til, mun það valda miklum búsifjum hér á landi sem annars staðar. Mikilvægt er að þróun vistvænna orkugjafa verði hraðað.

Verðmæti innflutts eldsneytis án álagningar og skatta nam 37,2 milljörðum króna á síðasta ári og 36,4 milljörðum árið 2006. Sé miðað við óbreytta notkun á þessu og næsta ári og gengi krónunnar eins og það er um þessar mundir gæti verðmætið numið 75 milljörðum króna á þessu ári og 90 milljörðum á því næsta. Þá eru kaup íslenskra aðila erlendis ótalin en ætla má að þau nemi allt að 15 milljörðum króna á þessu ári. Haldist olíuverð áfram jafn hátt eða hækki enn eins og ýmsar spár standa til, mun það valda miklum búsifjum hér á landi sem annars staðar. Mikilvægt er að þróun vistvænna orkugjafa verði hraðað.

Olíuverð er nú hærra en nokkru sinni fyrr. Í júnímánuði hefur verð á olíutunnu á hrávörumörkuðum verið tæplega 140 bandaríkjadollarar og nemur hækkunin frá áramótum um 50%. Olíuverðið er um tvöfalt hærra en það var að meðaltali á síðasta ári.

Haldist olíuverð óbreytt út árið má ætla að olíureikningur landsmanna hækki milli ára um rúmlega 70% í dollurum talið. Þar til viðbótar mætir neytendum gengislækkun krónunnar þannig að í krónum gæti verðið tvöfaldast.

Raunverð olíu 40% hærra en í olíukreppunni í lok áttunda áratugarins

Olíukreppurnar tvær á áttunda áratug síðustu aldar ollu alvarlegum samdrætti í heimsbúskapnum á þeim tíma. Á verðlagi ársins 2007 komst verð á olíutunnu upp í 54 dollara í fyrri olíukreppunni árið 1974 og upp í 95 dollara árið 1980 og er þá miðað við meðalverð ársins. Olíuverðið nú er því næstum þrefalt hærra en árið 1974 og 40% hærra en árið 1980.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Sé litið á þróunina undanfarin ár eru verðhækkanirnar enn stórkostlegri. Í byrjun þessa áratugar var raunverð olíu um 30 dollarar á tunnu miðað við verðlag ársins 2007 og hefur raunverð olíu því meira en fjórfaldast á síðustu fimm árum. Eins og kunnugt er hefur dollarinn fallið mikið í verði miðað við aðra helstu gjaldmiðla, t.d. evru, og er verðhækkun olíu því minni reiknuð í þeim gjaldmiðlum. Um þessar mundir er verð á olíutunnu 86 evrur miðað við verðlag ársins 2007 en var um 30 evrur í byrjun áratugsins. Raunverð olíu hefur því tæplega þrefaldast á síðustu fimm árum samanborið við rúma fjórföldun í dollurum.

Olíureikningurinn tvöfaldast í krónum á milli ára

Verðmæti innflutts eldsneytis og smurningsolía nam 37 milljörðum króna á síðasta ári. Til samanburðar var verðmætið um 20 milljarðar í upphafi áratugarins og í kringum 10 milljarða á síðari hluta síðasta áratugar. Ef sú 70% hækkun sem sem orðin er á olíuverði frá síðasta ári helst og gengi krónunnar verður áfram jafn lágt og það er nú má búast við að olíureikningurinn tvöfaldist milli ára og verði í kringum 75 milljarða króna. Að auki hafa íslenskir aðilar keypt eldsneyti erlendis fyrir fjárhæðir sem nema um 30% af verðmæti innflutnings og erlendir aðilar hafa keypt eldsneyti hérlendis fyrir 10-15% af verðmæti innflutts eldsneytis. Áætla má því að olíureikningur landsmanna hafi undanfarin ár verið 15-20% hærri en innflutningstölur gefa til kynna eða 43-45 milljarðar króna á síðasta ári og samkvæmt því gæti olíureikningurinn numið allt að 90 milljörðum á þessu ári.

Útgjöld vegna innfluttra olíuvara stefna í 6% af landsframleiðslu

Verðmæti innfluttra olíuvara í hlutfalli við landsframleiðslu hefur verið á bilinu 2-2,5% þar til allra síðustu ár. Á síðustu þremur árum hefur hlufallið numið um 3% en í ár stefnir það í 5,5% og á næsta ári gæti það farið yfir 6% miðað við óbreytt verð og sömu notkun og áður. Viðskiptakjör þjóðarinnar hafa þannig versnað verulega af þessum sökum og þjóðartekjur falla.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu!

Áhrif olíuverðshækkana á atvinnuvegina

Olíuverðshækkanirnar snerta atvinnuvegina misjafnlega, en augljóslega verða flutningsaðilar í lofti, sjó og á landi fyrir mestum búsifjum ásamt útgerðum fiskiskipa. Opinberar upplýsingar um eldsneytisútgjöld einstakra atvinnuvega liggja ekki fyrir hjá Hagstofu Íslands, að sjávarútvegi undanskyldum. Samkvæmt rekstraruppgjöri fiskveiða fyrir árið 2006 námu útgjöld til olíukaupa tæplega 10 milljörðum króna eða sem nam 12,1% af tekjum, minnst hjá bátum, 9,5%, en mest hjá frystitogurum, 14,7%. Kaup fiskvinnslu á olíu nam 0,6% af tekjum.  Samkvæmt uppgjörinu var framlegð fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) fiskveiða sem hlutfall af tekjum 24,3% og er því ljóst að tvöföldun olíuverðs frá árinu 2006 helmingar framlegð fiskveiða. Gengislækkun krónunnar vegur þó minnkandi framlegð upp að hluta. Samkvæmt rekstraruppgjöri Icelandair Group nam eldsneytiskostnaður tæplega 10 milljörðum króna á árinu 2007 en tekjur af flugrekstri námu 36 milljörðum. Eldsneytiskostnaðurinn nam því rúmum fjórðungi af tekjum á árinu 2007 og er því ljóst að verulegar hækkanir flugfargjalda eru óhjákvæmilegar og meðfylgjandi samdráttur í eftirspurn og umsvifum.

Aðrir orkugjafar og orkuberar

Hækkun olíuverðs á áttunda áratugnum var skammvinn enda stafaði hún ekki af umframeftirspurn heldur af samræmdri takmörkun framboðs af hálfu OPEC ríkjanna. Í kjölfarið hófst langt tímabil ódýrrar olíu og hægðist þá á þróun annarra orkugjafa. Verðhækkunin nú stafar hins vegar af stöðugt vaxandi eftirspurn án þess að framboð af olíu aukist. Af þeim sökum er lífsnauðsynlegt fyrir heimsbúskapinn að nýir orkugjafar og orkuberar leysi olíuna af hólmi. Á undanförnum árum hefur mikil framþróun átt sér stað við raforkuframleiðslu með vindorku og sólarorku og er raforka framleidd með þeim hætti orðin samkeppnisfær við raforku framleidda með brennslu olíu við núverandi olíuverð. Hlutur vetnis, etanóls og metanóls sem orkubera mun vaxa hratt. Fjárfestingar í kjarnorkuverum munu einnig aukast á næstu árum. Framleiðsla raforku með kolum verður þó mikil og vaxandi næstu áratugina, enda eru kol ódýr og mikið til af þeim, einkum í Kína.

Þessar aðstæður skapa tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Ef rafbílar koma á markaðinn og  orkukostnaður þeirra verður lægri en bensín- og díselbíla geta Íslendingar skipt út stórum hluta af bílaflota sínum á einum til tveimur áratugum sem hefði gríðarlega jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð og mengunarbókhald landsins. Á hinn bóginn eru engar lausnir í sjónmáli varðandi flutninga í lofti og á sjó og verður áherslan á þeim sviðum á komandi árum lögð á orkusparnandi aðgerðir og betri nýtingu.

Samtök atvinnulífsins