14. júní 2022

400 stærstu: versnandi horfur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

400 stærstu: versnandi horfur

Versnandi stöðumat stjórnenda

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem meta aðstæður góðar og slæmar, versnar nokkuð frá síðustu könnun. Tvöfalt fleiri stjórnendur töldu aðstæður góðar en slæmar, en í síðustu könnun voru þeir fjórfalt fleiri.

Álíka margir telja aðstæður batna og versna

Hlutfall stjórnenda sem telja aðstæður fara batnandi hefur einnig lækkað á undanförnum mánuðum. Þriðjungur stjórnenda bjóst við að aðstæður bötnuðu á næstu sex mánuðum en álíka margir að þær versnuðu.

Spurn eftir starfsfólki slær met

Skortur á starfsfólki hefur vaxið mikið undanfarið ár. Yfir helmingur fyrirtækja býr við skort á starfsfólki en aðeins tíunda hvert gerði það fyrir rúmu ári síðan. Þessi niðurstaða markar tímamót því það hefur ekki gerst síðan þensluárið mikla 2007, að meirihluti fyrirtækja búi við skort á starfsfólki. Skortur á starfsfólki er sem fyrr langmestur í byggingariðnaði.

Starfsmönnum gæti fjölgað um 2.000 til ársloka

Fyrirtæki áforma umtalsverða fjölgun starfsfólks á næstunni. 25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni og búast 37% þeirra við fjölgun starfsmanna, 6% við fækkun en 57% við óbreyttum fjölda á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsfólki fyrirtækjanna í heild fjölgi um 1,6% á næstu sex mánuðum. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fjölgað um 2.000 á næstu sex mánuðum, þ.e. á síðari hluta ársins 2022.

Verðbólguvæntingar aukast enn

Verðbólguvæntingar stjórnenda hafa tekið stakkaskiptum undanfarið ár. Væntingar til eins árs eru nú 6% og hækka úr 5% í síðustu könnun. Væntingar um verðbólgu eftir tvö ár eru 5,5%.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins eru í samstarfi við Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Minni og stærri kannanir skiptast á með 9 og 20 spurningum.

Þessi könnun var gerð á tímabilinu 6. maí til 10. júní 2022 og voru spurningar 9.

Í úrtaki voru 418 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu 199, þannig að svarhlutfall var 48%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu fyrirtækis, atvinnugrein, veltu, starfsmannafjölda og hvort fyrirtækið starfi á útflutnings- eða innanlandsmarkaði. Atvinnugreinaflokkar eru sjö: (1) Sjávarútvegur, (2) iðnaður, (3) byggingarstarfsemi og veitur, (4) verslun, (5) samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta, (6) fjármála- og tryggingastarfsemi og (7) ýmis sérhæfð þjónusta. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Samtök atvinnulífsins