Starfsmenntun Litla Íslands og menntahóps Húss atvinnulífsins

Fundaröð Menntahóps Húss atvinnulífsins vegna starfsmenntunarmála hélt áfram í nóvember en fundirnir hafa verið vel sóttir. Fókusinn að þessu sinni var á Litla Ísland og hvaða möguleika lítil og meðalstór fyrirtæki í öllum atvinnugreinum hafa í starfsmenntamálum. Var fundurinn sýndur í beinni útsendingu á vefnum fyrir þá sem ekki áttu heimangengt. Var ánægjulegt að sjá landsbyggðina nýta sér þennan möguleika.

Reynslusögur voru sagðar af forsvarsmönnum lítilla fyrirtækja til fundarmanna um hvernig nálgast ætti starfsmenntasjóði og hvernig fyrirtækin gætu styrkt sig með aukinni menntun starfsfólks.  Fyrirtækin voru  Veitingahúsið Iðnó, Pink Iceland og Unique en jafnframt flutti Ingi Rúnar Eðvarðsson prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands erindi um fræðslumál en hann er sérfróður um mannauðsstjórnun lítilla og meðalstórra fyrirtækja.  Sólveig L. Snæbjörnsdóttir frá Starfsmenntasjóði verslunar- og skrifstofufólks gaf góð ráð til fundarmanna um hvernig hægt væri að gera fyrirtækjunum lífið auðveldara við umsókn í starfsmenntasjóði. 

Ljóst er af þeim fundum um starfsmenntamál sem haldnir hafa verið í Húsi atvinnulífsins í haust að fyrirtæki hafa mikinn áhuga á að fá upplýsingar um hvaða leiðir eru í boði til að efla enn frekar fræðslu og starfsmenntun innan fyrirtækjanna.

Menntahópur í Húsi atvinnulífsins mun stefna á frekari fundi á nýju ári á þessu sviði. Einnig er ætlunin að miðla upplýsingum um önnur svið menntamála, eins og vegna Hvítbókar menntamálaráðherra. Þar er mikil vinna framundan, ekki síst hvað snertir skipulagsbreytingar á iðn- og starfsnámi. Er mikilvægt að stjórnvöld, skólar og atvinnulíf geti náð saman um skynsamlegar breytingar í þágu iðn- og starfsmenntunar. Er til mikils að vinna.