Starfsmenn í sama liði oft misverðmætir

Viðtal Fréttablaðsins við Hrafnhildi Stefánsdóttur, yfirlögfræðing SA:

"Eðlilegar ástæður eru oftast fyrir launamun milli kvenna og karla í sambærilegu starfi," segir Hrafnhildur Stefánsdóttir yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins sem hélt fyrirlestur á málþingi um launajafnrétti sem haldið var á Bifröst í síðasta mánuði. "Einstaklingsbundin viðmið við launaákvarðanir" hét fyrirlesturinn og hóf hún hann á að varpa upp myndum af fótboltamönnum. "Ég notaðist við þá sem líkingu, því við vitum jú að menn sem eru í sama liði og spila sömu stöðu eru misverðmætir. Þeir færustu eru mun meira virði en þeir sem ekki standa sig jafn vel og eru laun þeirra samkvæmt því," segir Hrafnhildur.

"Sömu lögmál gilda á vinnumarkaði, þar sem fólk á að fá laun eftir færni og getu og þar með verðgildi en ekki kyni. Hlutlægar og málefnalegar ástæður verða að vera fyrir launamun  kvenna og karla  í sama eða sambærilegu starfi, og ef á reynir liggur það á vinnuveitandum að sýna fram á þessar ástæður," segir Hrafnhildur. Þessar ástæður geta ráðist af ýmsum þáttum eins og markaðsaðstæðum, frammistöðu, þekkingu og menntun, starfsreynslu og sveigjanleika. Aðilar á samkeppnismarkaði geta ekki leyft sér að horfa framhjá slíkum þáttum en verðlauna það sem engu máli skiptir eins og kynferði. Aðstöðumunur hefur verið á milli kynjanna hvað varðar möguleika til fullrar atvinnuþáttöku. "Sú skoðun hefur verið ríkjandi að konur séu enn að bera mun meiri ábyrgð á heimilishaldinu en karlmenn. Þessi jöfnuður sem kominn er á vinnumarkaði hefur ekki alveg flust inn á heimilin og það veikt samkeppnisstöðu kvenna í atvinnulífinu, en við bæði teljum og vonum að það sé að breytast." segir Hrafnhildur.