Vinnumarkaður - 

06. Oktober 2005

Starfshæfni einstaklinga á atvinnuleysisskrá

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Starfshæfni einstaklinga á atvinnuleysisskrá

Á ársfundi Vinnumálastofnunar 29. september sl. flutti Hugrún Jóhannesdóttir, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, erindi sem fjallaði um þá þversögn að allstór hópur fólks er skráður atvinnulaus og þiggur atvinnuleysisbætur á sama tíma og þensla er ríkjandi á vinnumarkaði og verulegur skortur er á starfsfólki á mörgum sviðum.

Á ársfundi Vinnumálastofnunar 29. september sl. flutti Hugrún Jóhannesdóttir, forstöðumaður Svæðisvinnumiðlunar höfuðborgarsvæðisins, erindi sem fjallaði um þá þversögn að allstór hópur fólks er skráður atvinnulaus og þiggur atvinnuleysisbætur á sama tíma og þensla er ríkjandi á vinnumarkaði og verulegur skortur er á starfsfólki á mörgum sviðum.

Í erindinu voru þeir tæplega 1.800 einstaklingar sem voru á atvinnuleysisskrá á höfuðborgarsvæðinu í lok september 2005 flokkaðir eftir tilgreindum einkennum sem gera þeim erfitt fyrir að fá vinnu. Tiltekinn hluti þeirra sem skráðir eru atvinnulausir er þó klárlega ekki í atvinnuleit, en það eru skjólstæðingar félagsmálastofnana sveitarfélaganna. Þetta fólk hefur ekki verið í atvinnu undanfarið ár og hefur engan bótarétt. Önnur einkenni sem gerð voru að umtalsefni voru skert starfshæfni, örorka, hlutastarf (atvinnuleysi að hluta), börn yngri en 3 ára á framfæri og loks erlent ríksfang. Þeir sem höfðu umrædd einkenni voru 57% atvinnulausra en 43% voru án þessara einkenna.

Smellið á myndina

október Starfshæfni lit

Skipting atvinnulausra eftir umræddum einkennum kemur fram í meðfylgjandi skífuriti. Stærsti hópurinn eru foreldrar ungra barna, 17%, síðan kemur hópurinn sem ekki hefur bótarétt, 15%, þá koma þeir sem búa við skerta starfshæfni, erlendir ríkisborgarar, starfsmenn í hlutastarfi og loks öryrkjar. 

Í hópi atvinnulausra í septemberlok voru 264 á aldrinum 60-70 ára, eða 15% hópsins og þeir sem voru 65 ára og eldri voru 123, eða 7%.  Lauslegar athuganir vinnumiðlunarinnar hafa sýnt að um helmingur þessa hóps er í raunverulegri atvinnuleit.

Forstöðumaðurinn upplýsti að nýtt úrræði vinnumiðlunarinnar væri komið til sögunnar gagnvart stærsta hópnum, atvinnulausum foreldrum ungra barna, sem er að bjóða þeim dagvistunarpláss á góðum kjörum samhliða atvinnutilboði. Fróðlegt verður að sjá áhrif þessa úrræðis á næstu vikum og mánuðum á atvinnuleysi þessa hóps.


 

Samtök atvinnulífsins