Vinnumarkaður - 

23. janúar 2012

Starfsfólki á vinnumarkaði fjölgaði ekki árið 2011. Full störf jafn mörg og 2009

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Starfsfólki á vinnumarkaði fjölgaði ekki árið 2011. Full störf jafn mörg og 2009

Starfsfólk á vinnumarkaði var samtals 167.300 árið 2011 sem er sama tala og árið 2010 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Heldur fleiri voru starfandi árið 2009, eða 167.800. Flestir urðu starfsmenn á vinnumarkaðnum árið 2008, eða 178.600, en fara þarf aftur til ársins 2005 til þess að finna færri starfsmenn, en þá töldust 161.300 vera í starfi.

Starfsfólk á vinnumarkaði var samtals 167.300 árið 2011 sem er sama tala og árið 2010 samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar. Heldur fleiri voru starfandi árið 2009, eða 167.800. Flestir urðu starfsmenn á vinnumarkaðnum árið 2008, eða 178.600, en fara þarf aftur til ársins 2005 til þess að finna færri starfsmenn, en þá töldust 161.300 vera í starfi.

Í ljósi framangreindrar þróunar og fjölgunar fólks á vinnualdri hefur atvinnuþátttaka farið minnkandi. Atvinnuþátttaka er reiknuð sem hlutfall starfandi að viðbættum atvinnulausum í hlutfalli við mannfjölda á aldrinum 16-74 ára. Atvinnuþátttakan var 80,4% og hefur ekki mælst lægri síðan Hagstofan hóf ársfjórðungslegar mælingar á vinnumarkaðnum árið 2003. Atvinnuþátttakan var 81,1% árið 2010 en varð mest 83,3% árið 2007. Þótt atvinnuþátttaka hafi minnkað er hún þó óvíða meiri og meiri en í þeim ríkjum sem við berum okkur við.

Þótt starfsfólki hafi ekki fjölgað árið 2011 þá varð nokkur breyting á samsetningu milli fullra starfa og hlutastarfa. Í kjölfar efnahagskreppunnar haustið 2008 gripu mörg fyrirtæki til þess ráðs að lækka starfshlutfall fólks til þess að komast hjá uppsögnum.  Þannig fækkaði fullum störfum um 13.400 árið 2009 en hlutastörfum fjölgaði um 2.500. Þessi þróun hélt áfram árið 2010 þegar fullum störfum fækkaði um 2.500 en hlutastörfum fjölgaði um 2.000. Árið 2011 snérist þessi þróun við og fullum störfum fjölgaði um 2.500 en hlutastörfum fækkaði samsvarandi. Staðan á árinu 2011 er því mjög svipuð og var á árinu 2009 þar sem full störf eru jafnmörg og þá, eða 127.200, en hlutastörf eru 400  færri en þá.

Þau áhrif efnahagskreppunnar að minnka starfshlutföll starfsmanna árin 2009 og 2010 gengu því að hluta til baka árið 2011.  Sú þróun mun líklega halda áfram ef einhver efnahagsbati verður á þessu ári. Starfandi í fullu starfi voru 76% af heildinni árið 2011, sem er svipað hlutfall og árið 2009, en hlutfallið var 77-79% á árunum 2003-2008.

Auk fjölgunar starfsfólks í fullu starfi telst lengri meðalvinnutími til jákvæðra teikna í vinnumarkaðsrannsókninni. Meðalvinnutími var nákvæmlega 40 stundir á árinu 2011 og lengdist um hálfa klukkustund. Meðalvinnutími lengdist bæði hjá fólki í fullu starfi og hlutastarfi. Meðalvinnutíminn var þó töluvert styttri en á árunum 2003-2008 þegar hann var í kringum 42 stundir öll árin.

Lenging meðalvinnutíma um hálfa klukkustund nemur 1,3% og þessi lenging hefur orðið ýmsum tilefni til þess að draga ályktanir um að mikill viðsnúningur hafi orðið á vinnumarkaði. Umreikna má þessa lengingu í vinnutíma í ársverk, t.d. m.v. 173 vinnu stundir í mánuði, og þá fæst að ársverkum hafi fjölgað um 2.100 frá árinu 2010. Séu reiknuð ársverk borin saman við árið 2009 er fjölgunin um 1.200.

Smelltu til að stækka!
Smelltu á myndina til að stækka

Samtök atvinnulífsins