Vinnumarkaður - 

20. september 2002

Starfsdagar í skólum valda áhyggjum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Starfsdagar í skólum valda áhyggjum

Starfsdagar í skólum valda oft mikilli röskun og óþægindum fyrir foreldra og vinnustaði þeirra. SA hefur að undanförnu borist fjöldi erinda þar sem fyrirtæki lýsa áhyggjum sínum vegna þessa og spyrja hvort ekki sé hægt að skipuleggja þá með skilvirkari hætti.

Starfsdagar í skólum valda oft mikilli röskun og óþægindum fyrir foreldra og vinnustaði þeirra. SA hefur að undanförnu borist fjöldi erinda þar sem fyrirtæki lýsa áhyggjum sínum vegna þessa og spyrja hvort ekki sé hægt að skipuleggja þá með skilvirkari hætti.

Í erindi á haustþingi kennara og skólastjóra á Vesturlandi lýsti Gústaf Adolf Skúlason, forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins, áhyggjum úr atvinnulífinu vegna þeirrar röskunar og óþæginda sem starfsdagar í skólum valda. Samtökunum berast iðulega erindi þar sem spurt er hvort ekki sé hægt að skipuleggja þessa starfsdaga með skilvirkari hætti en nú er gert. Gústaf nefndi ýmsa hugsanlega möguleika í því sambandi, svo sem eins og nánara samstarf skóla og jafnvel nánara samstarf grunnskóla og leikskóla. Aðalatriði væri hins vegar það að þetta fyrirkomulag þarfnaðist skoðunar.

Ekki efasemdir um mikilvægi undirbúnings skólastarfs

Gústaf sagði ekki uppi efasemdir innan atvinnulífsins um mikilvægi vandaðs undirbúnings fyrir skólastarfið. Þá væri Samtökum atvinnulífsins fullkunnugt um að þetta fyrirkomulag er að einhverju leyti bundið í kjarasamninga kennara. Eftir standi þó spurningin um hvort ekki sé hægt að skipuleggja þessa starfsdaga með skilvirkari hætti, sem hefði minni röskun og óþægindi í för með sér fyrir foreldra, vinnustaði þeirra og þar með þjóðfélagið í heild.

Tengist jafnréttismálunum
Gústaf fjallaði einnig um hvernig þetta fyrirkomulag tengist launamun kynjanna. Samkvæmt nýrri úttekt Jafnréttisráðs og Nefndar um efnahagsleg völd kvenna er hægt að skýra tvo þriðju til þrjá fjórðu hluta launamunar kynjanna með starfi, menntun o.fl. Eftir stendur 7,5 til 11% launamunur, sem stafar af því að hjónaband o.fl. hefur "önnur áhrif á laun kvenna en karla," eins og segir í niðurstöðum úttektarinnar. Sá félagslegi veruleiki að konur bera ennþá í ríkari mæli ábyrgð á heimilunum en karlar skiptir þarna verulegu máli. Starfsdagar í skólum eru hluti af þeirri mynd og stuðla þannig í raun óbeint að viðhaldi þessa launamunar, á meðan ekki verða frekari breytingar á verkaskiptingu kynjanna á heimilunum.

Samtök atvinnulífsins