Efnahagsmál - 

05. apríl 2001

Stækkun Norðuráls

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stækkun Norðuráls

Í ræðu sinni á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins, vék Halldór Ásgrímsson að miklu fjármagnsflæði frá landinu og þörfinni á því að auka fjármagnsflæði til landsins. Það eru orð að sönnu.

Í ræðu sinni á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins, vék Halldór Ásgrímsson að miklu fjármagnsflæði frá landinu og þörfinni á því að auka fjármagnsflæði til landsins. Það eru orð að sönnu.

Því miður hefur áhugi erlendra fjárfesta á Íslandi verið fremur lítill fram að þessu.
Ánægjuleg undantekning frá því er Bandaríkjamaðurinn Kenneth Peterson, eigandi Norðuráls, sem byggt hefur upp álver sem brátt hefur 90 þúsund tonna árlega framleiðslugetu og óskar nú eftir viðræðum við íslensk stjórnvöld um mögulega tvöföldun á stærð verksmiðjunnar, í 180 þúsund tonn.

Fram hefur komið opinberlega að dráttur hafi orðið á því að stjórnvöld gæfu eiganda verksmiðjunnar svar og hæfu viðræður við hann um heimildir til stækkunar og möguleika á orkusölu. Við svo búið má ekki standa. Stjórnvöld bera ríkar skyldur gagnvart þessum erlenda fjárfesti, sem sýnt hefur frumkvæði í því að byggja upp íslenskt atvinnulíf. Fyrirtækið á möguleika á því að vaxa og dafna og stækkun verksmiðjunnar gerir því kleift að ná stóraukinni hagkvæmni.

Hér er um allt of mikilvægt mál að ræða fyrir íslenskt þjóðarbú til þess að hætta á það að ekkert verði úr framkvæmdum vegna dráttar á svari frá stjórnvöldum. Fyrirhuguð fjárfesting vegna stækkunar verksmiðjunnar nemur um 30 milljörðum króna og talið er að framkvæmdir til að auka orkuframleiðslu á Þjórsársvæðinu muni nema svipaðri fjárhæð.

Sumir virðast telja að stækkun Norðuráls myndi spilla fyrir möguleikum Reyðaráls, sem stjórnvöld eiga þegar í viðræðum við. Svo þarf alls ekki að vera, þar sem framkvæmdir Norðuráls gætu hafist um næstu áramót og yrði lokið á árinu 2004. Reyðarálsframkvæmdir yrðu í hámarki á árinu 2005, en taka þyrfti á ákveðinni skörun á árinu 2004 ef til kæmi.

Það er raunar alls ekki rétt að stilla þessum tveimur framkvæmdum upp sem einhverjum keppinautum og hefja jafnvel pólitískar umræður um það hvort framkvæmdir megi fara fram í Norðvestur kjördæmi, eða bara í Norðaustur kjördæmi.

Staðreyndin er sú að eigandi Norðuráls er tilbúinn til að hefjast handa við fjárfestingu sem íslenskt efnahagslíf þarf nauðsynlega á að halda og íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að sinna erindinu. Dráttur á viðbrögðum stjórnvalda getur hæglega leitt til þess að ekkert verði af framkvæmdum hjá Norðuráli, án þess að nokkur vissa sé fyrir því á þessu stigi að áform Reyðaráls verði að veruleika.

Að hika er sama og tapa.

Samtök atvinnulífsins