Vinnumarkaður - 

21. september 2005

Stækkun ESB: Lítil áhrif á norrænan vinnumarkað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stækkun ESB: Lítil áhrif á norrænan vinnumarkað

Áður en tíu ný ríki gerðust aðilar að ESB (og þar með að EES) 1. maí 2004 settu nær öll ríki sem fyrir voru aðilar að EES einhvers konar tímabundnar takmarkanir á vinnumarkaðsaðgang fólks frá átta hinna nýju aðildarríkja (allra utan Kýpur og Möltu, þ.e. átta ríkja Mið- og Austur-Evrópu). Takmarkanirnar gilda til 1. maí 2006.

Áður en tíu ný ríki gerðust aðilar að ESB (og þar með að EES) 1. maí 2004 settu nær öll ríki sem fyrir voru aðilar að EES einhvers konar tímabundnar takmarkanir á vinnumarkaðsaðgang fólks frá átta hinna nýju aðildarríkja (allra utan Kýpur og Möltu, þ.e. átta ríkja Mið- og Austur-Evrópu). Takmarkanirnar gilda til 1. maí 2006.

Mun strangari reglur hér en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð

Á Íslandi voru gildandi strangar reglur um aðgang fólks frá þessum nýju aðildarríkjum EES einfaldlega framlengdar til tveggja ára, þ.e. gildistöku ákvæða EES-samningsins um frjálsa för frestað gagnvart íbúum þessara ríkja. Svipaða sögu er að segja um Finnland en Danmörk og Noregur veittu íbúum nýju aðildarríkjanna dvalarleyfi og rétt til atvinnuleitar í sex mánuði. Dönsku og norsku reglurnar fólu þannig í sér umtalsverða tilslökun á þeim kröfum sem gilt höfðu gagnvart fólki frá þessum löndum. Svíþjóð, Bretland og Írland voru þau einu í hópi eldri aðildarríkja EES sem létu regluna um frjálsa för taka gildi þegar við inngöngu ríkjanna.

Engar takmarkanir, færri útlendingar

Samkvæmt niðurstöðum skýrslu sem unnin hefur verið fyrir norrænu ráðherranefndina hefur reynslan hins vegar verið sú að þau ríki sem ekki komu á fót neinum slíkum takmörkunum hafa alls ekki fengið hlutfallslega fleira erlent starfsfólk frá hinum aðildarríkjum en reyndin hefur orðið í ríkjum sem komu á fót slíkum takmörkunum. Frá maí til desember 2004 voru þannig gefin út 4.000 slík atvinnuleyfi (til meira en þriggja mánaða) í Svíþjóð, en á sama tíma voru þau 20.500 í Noregi, 2.200 í Finnlandi og Danmörku og 600 á Íslandi. Þá kemur fram í skýrslunni að þótt um aukningu sé að ræða í öllum löndunum hafi ekkert þeirra fundið fyrir neikvæðum áhrifum hvað varðar jafnvægi á vinnumarkaði.

Strangar reglur kalla á þjónustuviðskiptaformið

Í skýrslunni er talsvert fjallað um þjónustuviðskipti sem heimiluð eru yfir landamæri innan EES (þótt framkvæmdin geti oft verið snúin), þar sem verktaki frá einu EES-ríki sendir sitt starfsfólk til annars á grundvelli þjónustusamnings. Ekki eru til nákvæmar tölur yfir þann fjölda fólks frá nýju aðildarríkjum EES sem starfar á Norðurlöndunum á slíkum forsendum. Fram kemur í skýrslunni að á öllum Norðurlöndunum séu dæmi um erfiðleika sem tengist slíkri framkvæmd, en þess má geta að ólíkt því sem gildir á Íslandi eru engin lagaákvæði um lágmarkslaun í sumum nágrannalanda okkar. Að mati skýrsluhöfunda hafa strangar reglur um atvinnuleyfi meðal annars haft þau áhrif að meiri eftirspurn hefur myndast eftir slíkum þjónustusamningum en ella.

Jákvæð efnahagsleg áhrif

Almennt telja skýrsluhöfundar að aukinn hreyfanleiki starfsfólks á stækkuðu Evrópsku efnahagssvæði, einkum á grundvelli þjónustuviðskipta, hafi haft jákvæð áhrif á efnahag Norðurlandanna og að á öllum þeirra hafi reynst eftirspurn á vinnumarkaði eftir fólki frá þessum löndum.

Um skýrsluna

Gerð skýrslunnar stýrðu Jon Erik Dølvik og Line Eldring og skýrsluna má nálgast á vef norrænu ráðherranefndarinnar. Bæði starfa þau Dølvik og Eldring hjá norsku Fafo rannsóknarstofnunni. Fafo er sjálfstæð rannsóknarstofnun sem stofnuð var af norska alþýðusambandinu árið 1982 en er nú fjármögnuð af stéttarfélögum og fyrirtækjum.

Samantekt skýrslunnar má nálgast hér í íslenskri þýðingu.

Skýrsluhöfundur á ársfundi Vinnumálastofnunar

Þess má geta að Line Eldring, annar skýrsluhöfunda, verður með erindi á ársfundi Vinnumálastofnunar, sem haldinn verður á Kaffi Reykjavík fimmtudaginn 29. september nk.

Samtök atvinnulífsins