Vinnumarkaður - 

02. maí 2006

Stækkun ESB dýrmæt „prufukeyrsla“ fyrir hnattvæðingu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Stækkun ESB dýrmæt „prufukeyrsla“ fyrir hnattvæðingu

Stækkun ESB hefur reynst nýju aðildarríkjunum gríðarlega dýrmæt en einnig haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið í þeim sem fyrir voru. Hún hefur stuðlað að vísi að samevrópskri verkaskiptingu sem styrkir evrópskt atvinnulíf í alþjóðlegri samkeppni. Þá hefur frjáls för launafólks haft jákvæð áhrif á þau ríki sem afléttu hömlum á hana strax við stækkun og beinn kostnaður af stækkun hefur verið mun minni en margir óttuðust. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Centre for European Reform fyrir dönsku samtök iðnaðarins (Dansk Industri) og danska starfsgreinasambandið (CO-industri).

Stækkun ESB hefur reynst nýju aðildarríkjunum gríðarlega dýrmæt en einnig haft mjög jákvæð áhrif á atvinnulífið í þeim sem fyrir voru. Hún hefur stuðlað að vísi að samevrópskri verkaskiptingu sem styrkir evrópskt atvinnulíf í alþjóðlegri samkeppni. Þá hefur frjáls för launafólks haft jákvæð áhrif á þau ríki sem afléttu hömlum á hana strax við stækkun og beinn kostnaður af stækkun hefur verið mun minni en margir óttuðust. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Centre for European Reform fyrir dönsku samtök iðnaðarins (Dansk Industri) og danska starfsgreinasambandið (CO-industri).

Thorkild E. Jensen, forseti danska starfsgreinasambandsins, segir stækkunina hafa verið eins konar "prufukeyrslu" fyrir hnattvæðinguna. Fyrirtæki í Vestur-Evrópu hafi flutt vinnuaflsfrek störf til austurhluta álfunnar, sem hafi gert þeim kleift að viðhalda samkeppnishæfni sinni og skapa ný störf í staðinn á sviðum þróunar, rannsókna og hönnunar. Hans Skov Christensen, framkvæmdastjóri dönsku samtaka iðnaðarins, segir stækkunina hafa varðveitt störf í Evrópu og báðir leggja forystumennirnir áherslu á að stækkun ESB hafi haft jákvæð áhrif bæði í nýju og "gömlu" aðildarríkjunum.

Efasemdir í "gömlu" aðildarríkjunum

Í skýrslunni er bent á að nú tveimur árum eftir að tíu ný ríki fengu aðild að Evrópusambandinu (innsk. og þar með að EES) sé vaxandi fjöldi fólks í "gömlu" aðildarríkjunum með efasemdir um ágæti stækkunarinnar. Margir telja að samkeppni á stækkuðum innri markaði ESB sé með einhverjum hætti orðin "ósanngjörn" og ný aðildarríki eru sökuð um "félagsleg undirboð." Starfsfólki frá nýju aðildarríkjum ESB er kennt um mikið atvinnuleysi í gömlu aðildarríkjunum.

Flytja þarf réttu skilaboðin

Skýrsluhöfundar og samtökin bæði leggja áherslu á mikilvægi þess að stjórnmálamenn, embættismenn og fjölmiðlar í ESB og aðildarríkjunum flytji þau skilaboð að stækkun ESB hefur verið jákvæð fyrir efnahagslíf ESB í heild. Þannig blómstri viðskipti milli nýrra og eldri aðildarríkja sambandsins og fjárfesting frá vestri hefur skapað þúsundir nýrra starfa í nýju aðildarríkjunum, um leið og hún hefur hjálpað vestur-evrópskum fyrirtækjum að styrkja samkeppnishæfni sína á tímum hnattvæðingar og vaxandi alþjóðlegrar samkeppni.

Gríðarlegar umbætur í nýju aðildarríkjunum

Fram kemur að nýju aðildarríkin hafi hagnast gríðarlega á aðild sinni að ESB. Aðlögunarferlið hófst strax uppúr 1990 og þannig virkuðu aðildarumsóknir ríkjanna til ESB sem sterkur hvati til umbóta. Fyrir vikið hafi þessi ríki á innan við einum og hálfum áratug þróast úr óreiðu eftir hrun kommúnismans yfir í nútímaleg þjóðfélög með markaðshagkerfi og skýru regluverki.

Mjög jákvæð áhrif fyrir "gömlu" aðildarríkin

Þá segir að áhrif stækkunarinnar hafi jafnframt verið mjög jákvæð fyrir gömlu aðildarríkin, þótt áhrifin séu vissulega mun minni en í nýju aðildarríkjunum. Sum ESB ríki, t.d. Þýskaland og Austurríki, hafa náð miklum árangri í útflutningi á hratt vaxandi markaði nýju aðildarríkjanna. Ennfremur hafa mörg fyrirtæki víða í ESB náð árangri á hinum nýju mörkuðum á sviðum á borð við fjarskipti og smásölu. En skýrsluhöfundar benda einnig á að stækkunin hafi haft önnur og dýpri jákvæð áhrif á atvinnulífið í gömlu aðildarríkjunum. Henni samfara hafi myndast vísir að nýrri samevrópskri verkaskiptingu sem muni reynast evrópsku atvinnulífi dýrmæt á tímum hnattvæðingar og vaxandi alþjóðlegrar samkeppni.

Þannig hafi mörg fyrirtæki í t.d. Frakklandi, Þýskalandi og Danmörku, flutt vinnuaflsfrek framleiðslustörf til nýju aðildarríkjanna og þá ekki eingöngu vegna lægri launa, heldur jafnframt í trausti þess að með aðlögun þessara ríkja að ESB-aðild hefur viðskiptaumhverfi þeirra þróast í átt að því sem fyrirtækin í eldri aðildarríkjunum eiga að venjast. Þessi þróun hefur gert fyrirtækjunum kleift að varðveita og skapa ný störf heima fyrir á sviðum þróunar, rannsókna og dýrrar vöru og þjónustu.

Hagnast á frjálsri för launafólks

Loks er í skýrslunni sagt frá því að þau ríki sem opnuðu strax fyrir aðgang starfsfólks frá nýju aðildarríkjunum að sínum vinnumarkaði hafa haft af því góða hag, og að beinn kostnaður eldri aðildarríkja af stækkuninni hafi reynst mun minni en margir reiknuðu með, eða innan við 0,1% af samanlagðri þjóðarframleiðslu aðildarríkja ESB.

Sjá skýrslu Centre for European Reform (á ensku).

Sjá fréttatilkynningu DI og CO (á ensku).

Samtök atvinnulífsins