Vinnumarkaður - 

11. júní 2009

Staðlar seljast sem aldrei fyrr

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Staðlar seljast sem aldrei fyrr

Staðlar seljast vel um þessar mundir en í maí sló salan líkast til met. Í lok ársins 2008 voru tæplega 21 þúsund staðlar í gildi á Íslandi en þegar kreppir að opnast augu fólks fyrir gildi þess að nýta sér stöðluð viðmið, fyrirmyndir og samræmdar aðferðir. Staðlaráð selur staðla, stendur fyrir námskeiðum og veitir ráðgjöf, upplýsingar og þjónustu um hvaðeina er lýtur að stöðlum og stöðlun. Áfram miðar í starfi ráðsins og aðila vinnumarkaðarins við að búa til staðal til að byggja á vottunarkerfi um framkvæmd jafnlaunastefnu.

Staðlar seljast vel um þessar mundir en í maí sló salan líkast til met. Í lok ársins 2008 voru tæplega 21 þúsund staðlar í gildi á Íslandi en þegar kreppir að opnast augu fólks fyrir gildi þess að nýta sér stöðluð viðmið, fyrirmyndir og samræmdar aðferðir. Staðlaráð selur staðla, stendur fyrir námskeiðum og veitir ráðgjöf, upplýsingar og þjónustu um hvaðeina er lýtur að stöðlum og stöðlun. Áfram miðar í starfi ráðsins og aðila vinnumarkaðarins við að búa til staðal til að byggja á vottunarkerfi um framkvæmd jafnlaunastefnu.

Stjórn Staðlaráðs hefur mótað sér stefnu til næstu tveggja ára. Meginmarkmiðin eru  að Staðlaráð sé virk og viðurkennd miðstöð starfs á sviði stöðlunar og samræmingar, veiti íslensku atvinnulífi, stjórnvöldum og almenningi fyrsta flokks þjónustu og hafi áhrif í erlendu samstarfi á sviði stöðlunar. Til þess að ná markmiðunum hefur afmörkuðum verkefnum verið raðað í  forgangsröð. Flest verkefnanna sem ráðast á í á næstu mánuðum  snúa að frekari markaðsetningu og kynningu á stöðlum og staðlavinnu. Meðal annars á að kanna áhuga á að til verði fagstaðlaráð í heilbrigðistækni, bæta vefverslun Staðlaráðs og koma greinargóðum upplýsingum um CE-merkingar og tengsl staðla við tilskipanir ESB á vef Staðlaráðs.

Staðlar og samræming nýtist atvinnulífinu á margvíslegan hátt. Þekkt er stöðlunarstarf sem tekur til  bygginga og raforku, en stöðlun er einnig nauðsynleg forsenda rafrænna viðskipta og tölvusamskipta af ýmsum toga. Framleiðslufyrirtæki vita ekki alltaf af stöðlum sem gilda um vöruna sem þau fram­leiða en þau sem fram­leiða til útflutnings komast hins vegar fljótt að því að notkun staðla er lykilatriði, sérstaklega ef varan þarf að fá einhvers konar vottun. Þá er mikið vísað í staðla í tengslum við reglur um öryggi vöru og tilheyrandi markaðseftirlit. Rétt er að hvetja fyrirtæki til að taka þátt í stöðlunarstarfi, einkum í tengslum við nýsköpun og þróun og til að nýta sér staðla í starfsemi sinni. Kostnaður við staðlakaup er óverulegur miðað við  ávinninginn  af notkun staðla. Í stefnumótun Staðlaráðs kom fram sú skoðun hagsmunaaðila að ekki væri mikil þörf á að þýða nema örfáa staðla á íslensku. Frekar ætti að útbúa handbækur eða leiðbeiningar með stöðlum til að auðvelda notkun þeirra.

Á nýliðnum aðalfundi Staðlaráðs kom meðal annars fram að áfram miðar í verkefni sem gengur út á að búa til staðal sem hægt væri að byggja á vottunarkerfi um framkvæmd jafnlaunastefnu. Verkefnið markar tímamót í starfi Staðlaráðs sem  hefur ekki haft umsjón með félagslegu verkefni sem þessu fyrr en býr að góðum og nýtilegum aðferðum og fyrirmyndum í nálguninni að baki gæðastöðlum. Tímamótin verða fyrst og fremst þegar tekst að ljúka verkefninu og koma því í gagnið.

Sjá nánar:

www.stadlar.is

Samtök atvinnulífsins