Staða og horfur í íslensku efnahagslífi út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans

Á fundi Samtaka atvinnulífsins í morgun fór Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA, yfir stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi út frá nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var í gær. Jafnframt fór Ásdís yfir aðhald peningastefnunnar.

"Þrátt fyrir að Seðlabankinn sé að spá áframhaldandi hagvexti á komandi árum þá eru óvissuþættirnir margir og batinn brothættur. Talsverð óvissa ríkir um hversu mikill framleiðsluslakinn er í íslensku efnahagslífi, í grunnspá bankans er gert ráð fyrir því að enn sé nokkur slaki í þjóðarbúskapnum aftur á móti bendir mat bankans á jafnvægisatvinnuleysi til þess að slakinn hafi jafnvel verið horfinn á árunum 2011-2012.

Seðlabankinn er ekki í öfundsverðri stöðu. Í stað þess að beita vaxtahækkunum ofan í veikt hagkerfi þá hefur hann beitt öðrum ráðum til að reyna að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum. Á meðan verðbólguvæntingar eru háar þá mun raunvaxtastigið haldast hér hátt. Seðlabankinn hefur sýnt í verki að honum er alvara með að reyna að ná niður verðbólgunni og verðbólguvæntingum með ströngu peningalegu aðhaldi," sagði Ásdís m.a. 

Kynningu Ásdísar má finna hér