Staða miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði
Þannig er yfirskrift eftirfarandi greinar Ara Edwald, framkvæmdastjóra SA, sem birt er í Morgunblaðinu í dag:
Að undanförnu hefur Ögmundur Jónasson ritað tvær greinar í Morgunblaðið, þar sem hann fjallar um stöðu miðaldra og eldra fólks á vinnumarkaði og kallar eftir að Samtök atvinnulífsins skýri sjónarmið sín í þeim efnum. Ögmundur vísar í umsögn SA um þingsályktunartillögu hans um lagasetningu sem ætlað yrði að sporna við uppsögnum eða mismunun í starfi vegna aldurs. Hann kýs hins vegar að heimfæra ummæli umsagnar SA um áhrif lagasetningar á fyrirtæki yfir á miðaldra og eldra fólk á vinnumarkaði.
Ekki sé mismunað eftir aldri
SA geta svo sannarlega tekið undir mikilvægi þess að fólki
sé ekki mismunað á vinnumarkaði eftir aldri eða af öðrum
ómálefnalegum ástæðum. Fólk á ekki að þurfa að gjalda aldurs síns á
vinnumarkaði né annars staðar. SA er ekki kunnugt um slíka mismunun
á vinnumarkaði, en þörf er á aukinni umræðu um stöðu þessara hópa.
SA eru fyrir sitt leiti tilbúin til að stuðla að slíkri umræðu í
samvinnu við BSRB og aðra er áhuga hafa á þessu mikilvæga máli. Má
vel hugsa sér ráðstefnu m.a. með aðkomu ráðningaskrifstofa, en þær
kunna að hafa mikil áhrif á það hvaða umsækjendum er haldið
að fyrirtækjum. Það kann að eiga sér eðlilegar skýringar í sumum
tilvikum að fyrirtæki sækist eftir yngra starfsfólki, en í öðrum
tilvikum ættu reynsla og stöðugleiki í starfsmannahaldi að hafa
vinninginn.
Bætt starfsmenntun er mikilvæg í þessum efnum. Fyrirtæki leggja í vaxandi mæli áherslu á hana og dæmi eru um að fyrirtæki hafi sett á fót eigin skóla til að sinna starfsmenntun síns starfsfólks. Þá má nefna að á síðasta ári var m.a. samið um framlög til starfsmenntamála í kjarasamningum SA við verkafólk og verslunarfólk. Þær aðgerðir miða jafnframt að því að styrkja stöðu starfsfólksins á síbreytilegum vinnumarkaði, ekki síst þeirra sem eldri eru. Þeim gefast þannig í auknum mæli möguleikar á að fylgja þeirri framþróun sem á sér stað og nýta jafnframt reynslu sína og þekkingu. Hæfni og þekking er besta tryggingin á vinnumarkaði.
Lagasetning óheppileg
SA geta hins vegar ekki fallist á ágæti lagasetningar í þessu
sambandi. Eins og fram kemur í umræddri umsögn myndi slík
lagasetning skapa fleiri vandamál en henni er ætlað að leysa. Hún
væri eingöngu til þess fallin að skerða snerpu og viðbragðsflýti
fyrirtækja og draga þannig úr samkeppnishæfni þeirra og þá um leið
atvinnumöguleikum starfsfólks þeirra. Í grein sinni kýs Ögmundur að
færa þessi orð í þann búning að SA hafi viðhaft þau um miðaldra og
eldra fólk á vinnumarkaði, en það er misskilningur. Þessi orð voru
viðhöfð um fyrirtækin og rekstur þeirra, en íþyngjandi lagasetning
er ekki til þess fallin að auka á snerpu þeirra og viðbragðsflýti í
samkeppni á markaði.