Efnahagsmál - 

03. febrúar 2005

Sporna þarf gegn ofþenslu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Sporna þarf gegn ofþenslu

Gengishækkun krónunnar undanfarna mánuði veldur fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni miklum búsifjum. Lausleg áætlun Samtaka atvinnulífsins á framlegð í fiskvinnslu, sem birt er í þessu fréttabréfi, bendir til að hún hafi lækkað úr tæpum 9% árið 2003 í 4% í upphafi þessa árs. Þetta er minni framlegð en sést hefur í greininni um langt árabil og gerist þetta þrátt fyrir allnokkra hækkun afurðaverðs í erlendri mynt. Fréttir undanfarinna daga af hópuppsögnum á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn koma því ekki á óvart, enda taprekstur óumflýjanlegur við þessar aðstæður. Þessi erfiðu skilyrði endurspeglast í fjárfestingaráformum en samkvæmt könnun SA sem einnig er birt í þessu fréttabréfi hyggjast sjávar-útvegsfyrirtæki draga þar verulega saman á þessu ári. Val margra fiskvinnslufyrirtækja stendur því einfaldlega um það að hætta starfsemi eða þreyja þorrann í von um að gengi krónunnar lækki þannig að raunhæfur rekstrargrundvöllur skapist á ný.

Gengishækkun krónunnar undanfarna mánuði veldur fyrirtækjum í alþjóðlegri samkeppni miklum búsifjum. Lausleg áætlun Samtaka atvinnulífsins á framlegð í fiskvinnslu, sem birt er í þessu fréttabréfi, bendir til að hún hafi lækkað úr tæpum 9% árið 2003 í 4% í upphafi þessa árs. Þetta er minni framlegð en sést hefur í greininni um langt árabil og gerist þetta þrátt fyrir allnokkra hækkun afurðaverðs í erlendri mynt. Fréttir undanfarinna daga af hópuppsögnum á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn koma því ekki á óvart, enda taprekstur óumflýjanlegur við þessar aðstæður. Þessi erfiðu skilyrði endurspeglast í fjárfestingaráformum en samkvæmt könnun SA sem einnig er birt í þessu fréttabréfi hyggjast sjávar-útvegsfyrirtæki draga þar verulega saman á þessu ári. Val margra fiskvinnslufyrirtækja stendur því einfaldlega um það að hætta starfsemi eða þreyja þorrann í von um að gengi krónunnar lækki þannig að raunhæfur rekstrargrundvöllur skapist á ný.

Aðrar greinar í alþjóðlegri samkeppni eins og fyrirtæki sem þjónusta erlenda ferðamenn og í framleiðsluiðnaði hafa yfirleitt ekki búið við jafn hagstæða þróun afurðaverðs og fiskvinnslan og hafa rekstrarskilyrði þeirra því versnað enn frekar. Samkvæmt nýju mati greiningardeildar Íslandsbanka er gengi krónunnar nú um 20% of hátt og fyrirsjáanlegt að nauðsynleg aðlögun þess að raunveruleikanum verður því harkalegri á næstu misserum, sem ofris krónunnar verður meira nú. Því er nauðsynlegt að allir sem áhrif hafa á þessa þróun leggist á eitt um að sporna gegn þenslu og draga úr líkum á frekari vaxtahækkunum Seðlabankans.

Íbúðalán þensluvaldur

Fasteignaverð í vísitölu neysluverðs hefur hækkað um 14% á síðustu 12 mánuðum og skýrir sú þróun ein og sér helming allrar hækkunar á vísitölunni á þessu tímabili. Ef þessi þróun hefði ekki átt sér stað væri verðbólguþróunin vel innan verðbólgumarkmiða Seðlabankans. Ástæður þessarar hækkunar fasteignaverðs má að miklu leyti rekja til aukins framboðs á lánsfé á betri kjörum en áður. Útlán til fasteignaviðskipta námu 120 milljörðum króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Áætlað er að allt að 10% þeirrar fjárhæðar renni til aukinnar einkaneyslu. Umreiknað yfir á ársgrundvöll samsvarar þessi einkaneysla 5% af landsframleiðslu. Aukning einkaneyslu af slíkri stærðargráðu leiðir óhjákvæmilega til verulegs eftirspurnarþrýstings á verðlag. Þáttur Íbúðalánasjóðs er afar sérstakur í þessari þróun og ljóst að stjórnvöld hafa algerlega hunsað ráðgjöf Seðlabankans varðandi þróun þessa málaflokks, en bankinn hefur lagt til að hlutverk Íbúðalánasjóðs verði endurskilgreint þannig að sjóðurinn sinni fyrst og fremst afmörkuðu, félagslegu hlutverki. Sjónarmið Seðlabankans um breytingar á opinbera húsnæðislánakerfinu eru algerlega í samræmi við afstöðu Samtaka atvinnulífsins. Telja SA að við núverandi aðstæður, þegar útlán til íbúðakaupa hafa vaxið mjög mikið og ýta undir vaxandi þenslu í samfélaginu, sé fyllilega tímabært að endurmeta forsendur þátttöku ríkisins á íbúðalánamarkaði.

Aðhald opinberra fjármála

Við þær aðstæður sem nú eru að skapast ríður á að opinberir aðilar sýni verulegt aðhald í sínum fjármálum, meira en t.d. núverandi fjárlög ríkisins gera ráð fyrir. Framkvæmd fjárlaga mun líka skipta miklu máli, en í síðustu útgáfu Peningamála gengur Seðlabankinn útfrá því að aukning samneyslu verði helmingi meiri en fjárlög gera ráð fyrir, eða 3% í stað 2% á árinu 2005. Launasamningar hins opinbera munu ráða miklu um þróun opinberra fjármála og um stöðuna á vinnumarkaði almennt. Þeir samningar sem sveitarfélög hafa þegar gert vekja ugg um hvert stefni í þeim efnum. Auðvitað þarf að hafa í huga mismunandi eðli samninga sem ákvarða öll launakjör og samninga þar sem launamyndun á markaði kemur til viðbótar. Samanburður á samningum undanfarinna ára og mælingar á launaþróun þegar upp er staðið, taka þó af öll tvímæli um að gjá hefur myndast á síðustu árum á milli þróunar á almennum markaði, þar sem fyrirtæki horfa framan í hagnað eða tap, og hjá hinu opinbera, sem hefur úr sívaxandi skatttekjum að spila.

Þáttur alþjóðavæðingar

Margir forsvarsmenn greina í alþjóðlegri samkeppni, sem finna þegar illa fyrir áhrifum af of háu gengi krónunnar og sjá fram á harkalega aðlögun ef svo fer fram sem horfir, virðast eiga erfitt með að átta sig á þeirri þjóðhagsspá fjármálaráðuneytisins að framleiðsluspenna verði hófleg á næstu árum og verðbólga innan þolmarka verðbólgumarkmiðs. Ein helsta forsenda þeirrar bjartsýni er samkvæmt spánni að alþjóðavæðing efnahagslífsins dragi úr spennu með greiðari aðflutningi erlendra aðfanga og starfsfólks! En hvað eru stjórnvöld að gera í þeim málum, eru þau að hamla gegn yfirvofandi ofhitnun á vinnumarkaði? Svarið virðist því miður vera: Nei, þvert á móti. Nýjar áherslur stjórnvalda ganga almennt út á það að hamla aðgengi erlends starfsfólks að íslenskum vinnumarkaði, setja fram nýjar kröfur, sem sumar hafa hæpna lagastoð, og herða á framkvæmd. Þessi stefnumörkun getur í reynd leitt til þess að svokölluð ruðningsáhrif yfirstandandi stórframkvæmda verði dýpri og varanlegri en ella. Fleiri fyrirtæki þurfi að loka og fleira fólk missi varanleg störf heldur en þyrfti að vera.

Staðan er alvarleg

Öll þessi atriði sem hér hafa verið gerð að umtalsefni eru þess eðlis að hafa mikil áhrif á þá hættu á ofþenslu sem orðin er að raunverulegri ógnun við stöðugleika íslensks efnahagslífs. Að þessu þarf að huga vandlega. Stjórnvöld mega ekki skella skollaeyrum við þeim hættumerkjum sem nú blasa víða við í atvinnulífinu. Uppsagnir á Stöðvarfirði og í Þorlákshöfn eru ekki einangruð fyrirbæri heldur vitna um almenna þróun starfsskilyrða. Álagning veiðigjalds á taprekstur í sjávarútvegi má ekki vera eina bjargráðið.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins