Spjótin standa á ríkisstjórninni

Kjaraviðræðurnar mjakast nú áfram og eru stjórnvöld smám saman að koma að viðræðum um einstök mál og aðgerðir, sem aðilar vinnumarkaðarins telja nauðsynlegar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Morgunblaðsins í dag. Nú er liðinn hálfur fjórði mánuður frá því kjarasamningar losnuðu á almenna vinnumarkaðnum, og tveir mánuðir frá því SA og ASÍ lögðu fram sín áherslumál gagnvart ríkisstjórninni. Ljóst er að niðurstöður munu ekki nást í viðræður SA og ASÍ um launabreytingar í væntanlegum samningum fyrr en það skýrist hvað ríkisstjórnin er tilbúin að leggja af mörkum til að skapa þær aðstæður að hægt verði að gera kjarasamninga til þriggja ára.

Meðal þeirra mála sem SA hafa beitt sér fyrir er að atvinnutryggingagjald lækki samhliða minnkandi atvinnuleysi enda eru tekjur af gjaldinu 7,5 milljörðum kr. hærri en áætluð útgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs á árinu. "Það myndi auðvelda lausn í samningum um launamálin," segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóra SA, í samtali við Morgunblaðið en fréttaskýringu blaðsins má lesa á mbl.is.

Vilhjálmur segir að viðræður fari fram ýmist við fulltrúa stjórnvalda eða milliliðalaust við ráðherra í ríkisstjórninni. "Það er hreyfing á þessu og það hefur ekkert stoppað þetta af, en enn er þó eftir að koma ákveðnum hlutum í gang svo hægt verði að sjá hvernig þau mál þróast áfram. Þar eru mikilvægust sjávarútvegsmálin og framkvæmdamálin," segir hann.

Í gær fóru m.a. fram viðræður Samtaka atvinnulífsins og fulltrúa ríkisstjórnarinnar um skattamál fyrirtækja og í dag stendur til að ræða atvinnuleysistryggingar, framkvæmdir og fleiri mál.

Tvö meginmarkmið eru uppi við endurnýjun kjarasamninga á vinnumarkaðinum, annars vegar að auka atvinnu, koma fjárfestingum í gang og að fækka þannig í hópi atvinnulausra og hins vegar að auka kaupmátt launafólks.

Samtök atvinnulífsins leggja á það megináherslu að atvinnuleiðin verði farin út úr kreppunni sem nú ríkir, með sköpun nýrra starfa, auknum kaupmætti og bættum lífskjörum. Þriðja hvert heimili hefur orðið fyrir barðinu á atvinnuleysinu frá hruni 2008 og orðið tímabært að snúa þessari óheillaþróun við.

Sjá nánar:

Fréttaskýring Morgunblaðsins 15. mars 2011

Ályktun stjórnar SA um atvinnuleiðina