Vinnumarkaður - 

12. desember 2003

Slæmt innlegg í kjaraviðræður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Slæmt innlegg í kjaraviðræður

Forystumenn launþegasamtaka hafa frestað kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og sagt kröfugerðir verða hækkaðar, verði ekki dregið til baka frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Í samtali við Morgunblaðið segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, enn erfiðara að ná samningum í komandi kjaraviðræðum hækki launþegahreyfingin kröfugerð sína.

Forystumenn launþegasamtaka hafa frestað kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins og sagt kröfugerðir verða hækkaðar, verði ekki dregið til baka frumvarp til laga um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara. Í samtali við Morgunblaðið segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, enn erfiðara að ná samningum í komandi kjaraviðræðum hækki launþegahreyfingin kröfugerð sína.

"Það liggur fyrir að af hálfu viðsemjanda okkar hefur þetta sett viðræður um næstu kjarasamninga upp í loft. Þeir hafa tilkynnt okkur um frestun á viðræðum sem voru hafnar," segir Ari og á við Starfsgreinasambandið, Flóabandalagið og Samiðn. Jafnframt hafi Rafiðnaðarsambandið og verslunarmenn aflýst fyrstu fundum um kröfugerð sem hefðu átt að vera í dag. Þessar samningaviðræður eru því í biðstöðu.

Ari segir þetta mál ekki koma upp á heppilegum tíma. "Það blasir við að þetta mál, sem og nokkur önnur sem hafa komið upp undanfarið, er slæmt innlegg í kjaraviðræðurnar. Það má augljóslega sjá af viðbrögðum okkar viðsemjendum við þessum fréttum." Forystumenn launafólks hafi sagst vilja fresta viðræðum þangað til það komi í ljós hvort þetta frumvarp verði dregið til baka. Verði það ekki gert muni þeir skoða sína kröfugerð í kjaraviðræðum til hækkunar.

Bilið milli viðsemjenda breikkar
"Það er hins vegar alveg ljóst að aðkoma okkar að þessum kjarasamningum byggist á því svigrúmi sem til staðar er í atvinnulífinu og samkeppnisstöðu þess. Þær forsendur breytast ekkert við uppákomu af þessu tagi. Ef kröfugerðir verða endurskoðaðar til hækkunar leiðir það til þess að bilið milli okkar og viðsemjanda breikkar og það verður erfiðara að ná samningum. Eins og við höfum skýrt frá er kröfugerð launþegasamtakanna, sem við höfum séð, þegar langtum hærri en þær launakostnaðar-breytingar sem við sjáum í viðskiptalöndum Íslands," segir Ari.

Ari segir Samtök atvinnulífsins ekki hafa frestað neinum viðræðum og verði að bíða þangað til launþegahreyfingin sé tilbúin að setjast að samningaborðinu. "Það þarf tvo til að funda og eins og sakir standa hafa forystumenn launþegafélaganna frestað þeim fundum sem voru fyrirhugaðir með okkur." Aðspurður hvort þetta setji tímaramma viðræðnanna í uppnám segir hann of snemmt að segja til um það. Samningar Starfsgreinasambandsins og Flóabandalagsins verði lausir nú um áramótin en aðrir samningar einum til tveimur mánuðum síðar. "Við sjáum hverju fram vindur. Undirbúningur samninga var vel tímanlega á ferðinni."

Eftirlaunaréttindin stílbrot
Efnislega um frumvarpið sjálft segir Ari Edwald að ef til vill megi finna rök fyrir ákveðnum breytingum með hliðsjón af innbyrðis samanburði í þessum hópi sem þarna er fjallað um. Þannig megi segja að forsætisráðherra, sérstaklega ef hann hafi gegnt starfinu lengi, sé að mörgu leyti í svipaðri aðstöðu og forseti Íslands. Því sé eðlilegt að hann hafi sama hlutfall og forsetinn í eftirlaun af sínum kjörum.

"Að því er varðar aðra þætti frumvarpsins, eins og þeir koma mér fyrir sjónir, þá átta ég mig ekki á því á hvaða leið menn eru þegar þingmenn geta jafnvel farið á full eftirlaun við 55 ára aldur ef þeir setjast ungir á þing. Það er algjört stílbrot við allt sem þekkist hér í þjóðfélaginu og felur líka í sér mikið frávik frá þeirri stefnumörkun, sem ég hélt að allir vildu koma lífeyrismálunum í," segir Ari. Stefnumörkunin felist í því að lífeyrisréttindi byggist á sjóðsöfnun á starfsævi lífeyrisþegans.


 

Samtök atvinnulífsins