Slæmar afkomuhorfur sveitarfélaga
Stórfelldur hallarekstur blasir við sveitarfélögunum bregðist þau ekki við í tíma. Mikil aukning á umsvifum þeirra undanfarin ár var að miklu leyti fjármögnuð með aukningu skatttekna sem rætur sínar átti í góðu árferði, sem nú fer hins vegar versnandi um sinn.
Lægri staðgreiðsla á kosningaári
Hlutfall staðgreiðslu tekjuskatts til ríkisins og útsvars
sveitarfélaga hefur verið ákveðið 38,54% á þessu ári. Þetta
er nokkur lækkun frá því í fyrra og er þar að baki 0,33% lækkun
tekjuskatthlutfalls ríkisins annars vegar og 0,11% hækkun
útsvarsins. Hækkun á lögbundnu hámarksútsvari um 0,33% tók
gildi um áramótin. Þrátt fyrir að þessi heimild til
útsvarshækkunar væri til komin vegna þrýstings frá sveitarfélögunum
brá svo við að þau stærstu, að Hafnarfirði og Akureyri
undanskildum, kusu að nýta sér hana ekki. Vafalaust liggja komandi
sveitarstjórnarkosningar að baki þeim ákvörðunum og því má gera ráð
fyrir að þessi lækkun staðgreiðsluhlutfallsins sé tímabundin og
gangi til baka á næsta ári.
Óbreytt skattbyrði framundan
Skattbyrði einstaklinga ákvarðast í aðalatriðum af
staðgreiðsluhlutfallinu og persónuafslættinum. Lækkun hlutfallsins
þarf ekki að þýða lækkun á skattbyrði ef laun hækka meira en
persónuafslátturinn. Persónuafslátturinn hækkaði um 3% um áramótin
en samkvæmt opinberum spám hækka laun að jafnaði um 5% milli
ára. Ef svo fer mun skattbyrðin haldast óbreytt að jafnaði á
næsta ári í flestum tekjubilum.
Mikil hækkun skattbyrði undanfarin ár
Skattbyrði hækkaði nokkuð mikið á síðasta ári, u.þ.b. 1%,
annars vegar vegna útsvarshækkunar og hins vegar vegna launaþróunar
sem var langt umfram hækkun persónuafsláttar. Skattbyrðin jókst
einnig á árunum 1998-2000 þrátt fyrir lækkun
tekjuskattshlutfallsins vegna mikilla launahækkana.
Mikil breyting hefur orðið á innbyrðis samsetningu staðgreiðsluhlutfallsins undanfarin ár, til samræmis við breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Þannig hefur tekjuskattshlutfall ríkisins lækkað úr 34,30% árið 1993, þegar það náði hámarki, í 26,75% á þessu ári, eða um 7,55%. Á sama tíma hækkaði útsvarið úr 7,04% í 12,79%, eða um 5,75%.
Þróun tekjuskattshlutfallsins
Útsvarið er lang mikilvægasti tekjustofn sveitarfélaga og leggst það á allar skattskyldar tekjur. Því hefur persónuafsláttur engin áhrif á tekjur sveitarfélaga.
Gríðarleg tekjuaukning í krafti góðs
árferðis
Tekjustofnar sveitarfélaga hafa dafnað vel á undanförnum árum, þar
sem atvinna og kaupmáttur hafa aukist svo mikið að vart verður við
jafnað í fyrirsjáanlegri framtíð og sama á við um fasteignaverð og
þar með tekjur af fasteignagjöldum. Þrátt fyrir þessa afar
hagstæðu þróun sem hefði átt að leiða til verulegs tekjuafgangs
hafa heildargjöld verið umfram tekjur og sveitarfélögin safnað
skuldum. Árið 2000 voru t.d. rekstrar-, fjármagns- og
fjárfestingargjöld tæplega 8% hærri en skatttekjur.
Frá árinu 1995 hafa útsvartekjur sveitarfélaga aukist úr rúmum 20 í um 50 milljarða króna eða um tæpa 30 milljarða. Aukningin er 136% að nafnvirði en 93% að raunvirði miðað við hækkun vísitölu neysluverðs á þessum tíma (22,6%). Þessari hækkun má skipta í tvennt. Annars vegar hækkaði útsvarið úr 8,78% í 12,68% á þessu tímabili eða um 44%. Hins vegar hækkaði útsvarsstofninn, þ.e. tekjur almennings, um 64% sem er aukning um þriðjung að raungildi miðað við hækkun vísitölu neysluverðs. Tveir fimmtu hlutar aukningar útsvarstekna eiga því rætur í útsvarshækkunum, að mestu vegna tilfærslu verkefna frá ríkinu, en þrír fimmtu hlutar tekjuaukningarinnar eiga rætur í góðu árferði í þjóðarbúskapnum á þessum tíma.
Tekjur sveitarfélaga af útsvari, m. kr.
Lækkun útgjalda eða stórfelldur hallarekstur
Sveitarfélögin geta alls ekki reiknað með að þróunin verði þeim
eins hliðholl og á undanförnum árum, heldur þvert á móti.
Tekjumegin eru horfurnar þannig að útsvarstekjur aukist óverulega á
árinu þar sem atvinna fer minnkandi, kaupmáttur launa stendur
nokkurn veginn í stað og fasteignaverð fer lækkandi. Gjaldamegin
munu útgjöld til félagsmála vaxa vegna versnandi
atvinnuástands. Sveitarfélögunum er því nauðugur sá kostur að
stíga fast á hemlana ætli þau að forðast stórfelldan
hallarekstur.
Afkomuvandi sveitarfélaganna á rætur sínar í gjaldaþróuninni og þar sem meginhluti gjalda þeirra er launagreiðslur er einsýnt að ekki verður náð tökum á fjárhagsvandanum nema launakostnaður þeirra lækki. Hlutfall samneyslu af landsframleiðslunni jókst úr 20,5% árið 1995 í 23,5% á síðasta ári, og var hlutur sveitarfélaganna drjúgur í þeirri aukningu. Þessi mikla aukning á hlut hins opinbera í þjóðarbúskapnum var ekki fjármögnuð með beinum skattahækkunum heldur með aukningu skatttekna sem rætur sínar átti í góðu árferði. Þar sem árferði fer versnandi um sinn blasir stórfelldur hallarekstur við sveitarfélögunum bregðist þau ekki við í tíma.