Efnahagsmál - 

10. apríl 2008

Slæmar aðstæður í efnahagslífinu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Slæmar aðstæður í efnahagslífinu

Í könnun um stöðu og framtíðarhorfur hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja stjórnendur hjá um 48% fyrirtækjanna núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar eða mjög slæmar, um 36% telja þær hvorki góðar né slæmar, en einungis um 16% telja þær vera góðar. Þessi niðurstaða er mun lakari en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002. Ljóst er að fjárfesting í atvinnulífinu dregst nú hratt saman en tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 13. febrúar til 12. mars 2008, þegar vísitala gengisskráningar krónunnar var að meðaltali 131, en næstu daga á eftir lækkaði gengi krónunnar verulega og var vísitala gengisskráningar tæplega 155 stig í síðari hluta marsmánaðar. Þegar könnunin var gerð voru stýrivextir Seðlabankans 13,75% og spáðu forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins að vextirnir yrðu 11% eftir 12 mánuði.

Í könnun um stöðu og framtíðarhorfur hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins telja stjórnendur hjá um 48% fyrirtækjanna núverandi aðstæður í efnahagslífinu vera slæmar eða mjög slæmar, um 36% telja þær hvorki góðar né slæmar, en einungis um 16% telja þær vera góðar. Þessi niðurstaða er mun lakari en fram hefur komið í fyrri reglubundnum könnunum um sama efni eða allt frá árinu 2002. Ljóst er að fjárfesting í atvinnulífinu dregst nú hratt saman en tekið skal fram að könnunin var gerð á tímabilinu 13. febrúar til 12. mars 2008, þegar vísitala gengisskráningar krónunnar var að meðaltali 131, en næstu daga á eftir lækkaði gengi krónunnar verulega og var vísitala gengisskráningar tæplega 155 stig í síðari hluta marsmánaðar. Þegar könnunin var gerð voru stýrivextir Seðlabankans 13,75% og spáðu forsvarsmenn stærstu fyrirtækja landsins að vextirnir yrðu 11% eftir 12 mánuði.

Stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins voru á þessum tíma hins vegar heldur bjartsýnni um aðstæður í efnahagslífinu þegar litið fram í tímann og telja margir að núverandi óvissa verði ekki mjög langvinn. Telur rösklega fjórðungur fyrirtækjanna að þegar litið er sex mánuði fram í tímann verði aðstæður almennt betri en um 44% að þær verði verri. Bjartsýnin er ótvíræðari þegar horft er 12 mánuði fram í tímann, en þá væntir um 47% fyrirtækjanna betri aðstæðna í efnahagslífinu, um 19% búast við óbreyttum aðstæðum, en um 34% telja þó að aðstæður verði þá verri.

Niðurstöður könnunarinnar um aðstæður í efnahagslífinu má draga saman í svonefnda vísitölu efnahagslífsins[1], en hún sýnir samandregið mat fyrirtækja á núverandi efnahagsaðstæðum. Sams konar vísitölur má reikna miðað við mat stjórnenda á horfum eftir sex og tólf mánuði. Til samanburðar eru á eftirfarandi mynd einnig sýndar niðurstöður um sama efni úr fyrri könnunum. Lægsta gildi vísitölunnar er 0, þegar allir telja aðstæður verri en hæst 200, þegar allir telja þær betri. Jafnvægi er við gildið 100, þegar jafn margir telja aðstæður betri og þeir sem telja þær verri.



Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Þegar niðurstöður könnunarinnar eru þannig virtar í sögulegu samhengi er ljóst að stjórnendur telja að ríkjandi aðstæður í efnahagslífinu hafi hríðversnað síðustu mánuðina. Eins og sjá má á myndinni hefur vísitala efnahagslífsins miðað við núverandi aðstæður aldrei mælst svo lág frá árinu 2002 eins og að þessu sinni. Á hinn bóginn ríkir nokkur bjartsýni um að aðstæður muni batna á næstunni, sérstaklega þegar horft er ár fram í tímann. Í því felst sú skoðun margra stjórnenda stærstu fyrirtækja landsins að óvissuástand í efnahags- og fjármálakerfi landsins verði ekki mjög langvinnt.

Staða og horfur á vinnumarkaði

Aðstæður á vinnumarkaði hafa einnig breyst nokkuð miðað við hliðstæðar kannanir undanfarin misseri. Nú telur um 73% fyrirtækjanna að framboð á vinnuafli sé nægjanlegt en aðeins um 27% telja sig skorta starfsfólk. Í hliðstæðri könnun í september 2007 var á hinn bóginn skortur á starfsfólki hjá um 58% fyrirtækjanna. Aðstæður eru þó nokkuð misjafnar eftir atvinnugreinum og landshlutum eins og eftirfarandi mynd sýnir.

            Mat á því hvort fyrirtæki skortir starfsfólk

                    við núverandi aðstæður

C2 MN

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Athygli vekur að aðeins 6% fyrirtækja í byggingarstarfsemi telja sig skorta starfsfólk, en í ýmissi sérhæfðri þjónustu skortir hins vegar starfsfólk hjá rösklega helmingi fyrirtækjanna. Þá er lítil umframeftirspurn eftir vinnuafli á landsbyggðinni, en á höfuðborgarsvæðinu skortir á hinn bóginn starfsfólk hjá um þriðjungi fyrirtækjanna.

Ráðningaráform á næstu sex mánuðum eru jafnframt minni en í fyrri könnunum. Rösklega helmingur fyrirtækjanna (54%) gerir ráð fyrir óbreyttum starfsmannafjölda að hálfu ári liðnu, um fjórðungur ráðgerir fjölgun og röskur fimmtungur fækkun. Mestrar fjölgunar er vænst í ýmissi sérhæfðri þjónustu, en í öðrum atvinnugreinum er ýmist jafnvægi milli ætlaðrar fjölgunar og fækkunar starfsmanna eða að búast má við fækkun, eins og eftirfarandi mynd gefur til kynna. Koma fram einna mest áform um fækkun starfsmanna í byggingarstarfsemi.

Ráðningaráform fyrirtækja á næstu sex mánuðum

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Eftirspurn á innlendum og erlendum mörkuðum

Miðað við niðurstöður samsvarandi kannana undanfarin misseri sýnir könnunin nú meira jafnvægi og minni bjartsýni um þróun innlendrar eftirspurnar á næstunni. Hjá meirihluta fyrirtækjanna (55%) er þess vænst að innlend eftirspurn verði óbreytt á næstu sex mánuðum, fjórðungur spáir aukningu en fimmtungur samdrætti. Í könnun á sama tíma í fyrra gerði um helmingur fyrirtækjanna ráð fyrir aukinni innlendri eftirspurn á næstu sex mánuðum og aðeins um 6% spáðu samdrætti.

Eins og sjá má á eftirfarandi mynd er ekki mikill munur eftir atvinnugreinum á spám fyrirtækjanna um þróun innlendrar eftirspurnar.

   Spá um þróun innlendrar eftirspurnar á næstu sex mánuðum

 Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu


Í verslun gera 60% fyrirtækjanna ráð fyrir að innlend eftirspurn standi í stað, um 20% búast við að hún minnki nokkuð (15%) eða mikið (5%), en 20% búast við aukningu. Mests samdráttar er vænst í byggingastarfsemi og veitum, þar sem 20% fyrirtækjanna búast við að eftirspurn minnki mikið og 13% að hún minnki nokkuð, en um 27% fyrirtækjanna gera engu að síður ráð fyrir nokkurri aukningu.

Meiri bjartsýni kemur fram um þróun eftirspurnar á erlendum mörkuðum á næstunni og býst helmingur (51%) fyrirtækjanna við að hún muni aukast á næstu sex mánuðum, um 8% telja að hún muni minnka en 41% búast við óbreyttri stöðu. Um 54% fyrirtækja í sjávarútvegi eiga von á aukinni erlendri eftirspurn og aðeins um 4% búast við minnkun. Í iðnaði og framleiðslu er aukningar vænst hjá 62% fyrirtækjanna, en um 15% búast þó við minni erlendri eftirspurn.

Velta, hagnaður og EBITDA-framlegð

Spár fyrirtækjanna um breytingu á veltu milli áranna 2007 og 2008 eru á þann veg að velta er talin aukast nokkuð hjá um 48% þeirra og aukast mikið hjá um 3% þeirra, óbreyttrar veltu er vænst hjá um 27% fyrirtækjanna en nokkuð eða mikið minni veltu hjá um 22% þeirra. Í heild spá fyrirtækin einungis 2,3% hækkun á veltu milli ára, en ef gengið er út frá 8% meðalhækkun verðlags milli ára felst í þessu ríflega 5% samdráttur að raunvirði. Spá um breytingu á veltu milli ára er að þessu sinni talsvert lakari en undanfarin misseri, en í hliðstæðri könnun fyrir ári síðan bjóst um 64% fyrirtækjanna við aukningu á veltu á yfirstandandi ári en aðeins um 8% gerðu ráð fyrir minni veltu og spáðu fyrirtækin þá að jafnaði lítils háttar hækkun á veltu að raunvirði.

Spár fyrirtækjanna um afkomu á árinu 2008 eru greinilega talsvert lakari en hliðstæðar spár á undanförnum árum. Hjá um 40% fyrirtækjanna er búist við minni hagnaði árið 2008 en í fyrra, svipaðrar afkomu er vænst hjá um 29% þeirra en betri afkomu hjá um 31%. Á eftirfarandi mynd má sjá að afkomuhorfur fyrir yfirstandandi ár eru lakari en fram hefur komið í fyrri könnunum.

  Horfur um hagnað á yfirstandandi ári

         miðað við fyrra ár

C5

Í könnuninni er einnig spurt um breytingar á EBITDA-framlegð (þ.e. hagnaði fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir) undanfarna sex mánuði og líklegar breytingar næstu sex mánuði. Niðurstaðan fyrir atvinnulífið í heild er jákvæð en þó lakari en í könnunum undanfarin misseri. Minnkaði framlegð síðustu sex mánuði hjá um 23% fyrirtækjanna, stóð í stað hjá um 25% en jókst hjá um 52% þeirra. Niðurstaðan er talsvert breytilega eftir atvinnugreinum. Slökust er útkoman í fjármála- og tryggingastarfsemi þar sem framlegð minnkaði á síðustu sex mánuðum hjá um helmingi fyrirtækjanna. Þróunin var á hinn bóginn hagstæðari í ýmissi sérhæfðri þjónustu en þar jókst framlegð hjá meirihluta fyrirtækjanna (53%).

Þegar litið er til atvinnulífsins i heild endurspeglar áætlunar fyrirtækjanna um framlegð á næstu sex mánuðum nokkurt jafnvægi. Aukinnar framlegðar er vænst hjá rösklega þriðjungi (36%) fyrirtækjanna, minnkandi framlegðar hjá tæplega þriðjungi (32%) og óbreyttrar stöðu er vænst hjá þriðjungi fyrirtækjanna (32%). Rösklega helmingur (55%) fyrirtækja í sjávarútvegi býst við að framlegð muni minnka á næstu sex mánuðum en meira jafnvægi endurspeglast í öðrum atvinnugreinum. Lækkun á gengi krónunnar síðustu vikurnar mun þó væntanlega bæta framlegð hjá fyrirtækjum í mestri alþjóðlegri samkeppni, en á hinn bóginn rýra framlegð hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu sem byggja starfsemi sína að meginhluta til á innlendum markaði.

Fjárfesting

Ljóst er að fjárfesting í atvinnulífinu dregst nú hratt saman. Gera fyrirtæki sem svöruðu könnuninni að jafnaði ráð fyrir að útgjöld til fjárfestinga í varanlegum rekstrarfjármunum verði að nafnvirði 41% lægri á þessu ári en í fyrra. Á hinn bóginn er talið að fjárfesting taki að vaxa á ný á árinu 2009 og gera fyrirtækin ráð fyrir að hún verði um 13% meiri en árið 2008.

Spá um verðbólgu, stýrivexti og gengi

Forsvarsmenn fyrirtækjanna voru beðnir að spá fyrir um hækkun vísitölu neysluverðs. Er niðurstaðan sú að spáð er að meðaltali 4,6% verðbólgu næstu 12 mánuði. Hér skal þó enn minnt á að könnunin var gerð á tímabilinu 13. febrúar til 12. mars, en næstu daga á eftir lækkaði gengi krónunnar verulega. Þá er því spáð að eftir 12 mánuði verði stýrivextir Seðlabankans 11%, en þeir eru nú 15%, en var 13,75% þegar könnunin var gerð.

Þegar könnunin var gerð var vísitala gengisskráningar krónunnar að jafnaði 131 stig. Mikill meirihluti fyrirtækjanna (72%) spáði að krónan myndi veikjast á næstu tólf mánuðum, en um 11% spáðu styrkingu. Að meðaltali spáðu fyrirtækin 5,9% veikingu krónunnar á næsta ári. Gangi sú spá eftir verður gengisvísitalan um 139 stig í mars á næsta ári. Í því fælist að gengislækkun krónunnar að undanförnu gangi að nokkru leyti til baka, en síðari hluta marsmánaðar var gengisvísitalan að jafnaði 155 stig.

Um könnunina

Samtök atvinnulífsins hafa samstarf við fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands um reglubundna könnun á stöðu og framtíðarhorfum stærstu fyrirtækja á Íslandi. Framkvæmd könnunarinnar er í höndum Capacent Gallup. Könnunin er gerð ársfjórðungslega. Einföld könnun með um 10 spurningum er gerð í annað hvort skipti, en hin skiptin er gerð ítarleg könnun með um 30 spurningum.

Að þessu sinni var könnunin gerð á tímabilinu 13. febrúar - 12. mars 2008 og voru spurningar alls 32. Í upphafleg úrtaki voru 400 stærstu fyrirtæki landsins (miðað við heildarlaun), en í endanlegu úrtaki voru 368. Svarhlutfall var 50,0%. Niðurstöður eru greindar eftir staðsetningu, atvinnugrein, veltu og starfsmannafjölda. Ekki er um að ræða samræmda túlkun samstarfsaðilanna á niðurstöðum könnunarinnar.

Skýrslu Capacent Gallup



[1] Vísitalan er reiknuð þannig: [(# betri / (# betri + # verri)) * 200], þar sem # = fjöldi fyrirtækja.

Samtök atvinnulífsins