Efnahagsmál - 

03. júlí 2008

Skýrsla um fjölmyntavæðingu atvinnulífsins

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýrsla um fjölmyntavæðingu atvinnulífsins

Sérfræðinganefnd SA sem framkvæmdastjórn samtakanna fól í apríl síðastliðnum að skoða fjölmyntavæðingu atvinnulífsins hefur lokið störfum og skilað af sér skýrslu sem má nálgast hér á vefnum. Viðfangsefni nefndarinnar var að draga saman greiningu á fjölmyntavæðingu atvinnulífsins, þ.e. aukinni notkun erlendra gjaldmiðla í skuldbindingum og viðskiptum einkaaðila með auknu frjálsræði í viðskiptum og alþjóðavæðingu og án beins atbeina stjórnvalda. Einhugur var í nefndinni um að auka ætti sveigjanleika atvinnulífsins hvað gjaldmiðlanotkun varðar og greiða ætti götu þess að viðskipti og notkun eða tenging við gjaldmiðla gæti þróast óhindrað eftir þeim leiðum sem markaðsaðilar telja hagkvæmast hverju sinni. Nefndinni var ekki falið að fjalla um hugsanlega aðild Íslands að ESB.

Sérfræðinganefnd SA sem framkvæmdastjórn samtakanna fól í apríl síðastliðnum að skoða fjölmyntavæðingu atvinnulífsins hefur lokið störfum og skilað af sér skýrslu sem má nálgast hér á vefnum. Viðfangsefni nefndarinnar var að draga saman greiningu á fjölmyntavæðingu atvinnulífsins, þ.e. aukinni notkun erlendra gjaldmiðla í skuldbindingum og viðskiptum einkaaðila með auknu frjálsræði í viðskiptum og alþjóðavæðingu og án beins atbeina stjórnvalda. Einhugur var í nefndinni um að auka ætti sveigjanleika atvinnulífsins hvað gjaldmiðlanotkun varðar og greiða ætti götu þess að viðskipti og notkun eða tenging við gjaldmiðla gæti þróast óhindrað eftir þeim leiðum sem markaðsaðilar telja hagkvæmast hverju sinni. Nefndinni var ekki falið að fjalla um hugsanlega aðild Íslands að ESB.

Tvær leiðir færar

Nefndin var skipuð 17 fulltrúum frá aðildarfyrirtækjum SA, greiningardeildum bankanna og sérfræðingum. Fram kom í máli meirihluta fulltrúa að til langframa kæmu aðeins tvær leiðir til greina; upptaka evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu (ESB) og Efnahags- og myntbandalaginu (EMU) eða áframhaldandi notkun sjálfstæðs gjaldmiðils með grundvallar endurskoðun á meginþáttum hagstjórnar. Flestir nefndarmanna töldu að einhliða upptaka evru kæmi vart til greina.

Niðurstöður nefndarinnar

Í niðurstöðukafla skýrslunnar um fjölmyntavæðingu atvinnulífsins kemur m.a. fram að aukinn hluti eigna og skulda, tekna og gjalda, íslenskra heimila og fyrirtækja hafi verið að færast yfir í erlenda gjaldmiðla yfir langt tímabil. Aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem kom til framkvæmda frá ársbyrjun 1994, og ákvæði hans um frjálsa fjármagnsflutninga til og frá landinu ásamt óheftum gjaldeyrisviðskiptum hafi markað þáttaskil í þeirri þróun. Hlutverk Samtaka atvinnulífsins og annarra samtaka í atvinnulífinu í þessari þróun hafi jafnan verið að vinna að því að fella niður allar hindranir fyrir fjölmyntavæðingu þannig að fyrirtæki hefðu alla möguleika til þess að velja á milli gjaldmiðla eftir því sem þarfir þeirra hafi gefið tilefni til. Það verði áfram hlutverk Samtaka atvinnulífsins en fjölmyntavæðingin verði hins vegar alltaf knúin áfram af eftirspurn eða þörfum atvinnulífins og heimilanna.

Íslenska krónan er í samkeppni við aðra gjaldmiðla og íslensk fyrirtæki og heimili hafa sífellt meiri möguleika til þess að nota þá í stað krónunnar til að reyna að bæta stöðu sína - ýmist með því að lækka kostnað eða minnka áhættu eftir föngum. Sú viðleitni leiðir til síaukinnar fjölmyntavæðingar meðan krónan er ekki samkeppnishæf. Á meðfylgjandi mynd má sjá þróun útlána til heimila á árunum 1998-2008

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Aukning skulda fyrirtækja í erlendum gjaldmiðlum hefur verið hröð síðustu ár samhliða gríðarlegum vexti í þróun útlána innlánsstofnana og á allra síðustu misserum hafa erlend lán til heimila einnig aukist mikið. Í lánakerfinu í heild námu gengisbundnar skuldbindingar um 25% heildarútlána í árslok 1997, en í árslok 2007 hafði vægi þeirra nánast tvöfaldast í tæplega 50%. Hlutdeild gengisbundinna skuldbindinga atvinnulífsins er talsvert hærri en þegar horft er til útlána í heild. Hún nam tæplega 30% í árslok 1997 en hafði vaxið í rösklega 60% í árslok 2007 og tæplega 70% í lok mars 2008. Í árslok 2007 var hlutdeild gengisbundinna lána hæst í sjávarútvegi, 92,5%, þá kom verslun með 69,0% hlutdeild, samgöngur 62,5% og þjónustustarfsemi 62,1%. Í árslok 2007 voru 13% af heildarskuldum heimila við lánakerfið gengisbundnar. Gengisbundin útlán innlánsstofnana til heimila námu 16,7% heildarútlána í árslok 2007 og í marslok 2008 hafði hlutfallið hækkað í 22,3%.

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu 

Laun og lán heimila í erlendri mynt"text-align: center">Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Smellið á myndina til að sjá stærri útgáfu

Færsla bókhalds og ársreikninga í erlendum gjaldmiðlum mun fara vaxandi sem og skráning hlutafjár. Fyrirtæki munu einnig í vaxandi mæli eiga viðskipti sín í millum með tengingum við erlenda gjaldmiðla. Allir þessir þættir stuðla að minnkandi hlutdeild krónunnar í viðskiptalífinu, sem, auk víðtækrar verðtryggingar og lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs, gerir peningamálastefnu Seðlabankans bitlitla og óskilvirka. Óbreytt peningastefna mun því festa krónuna í fjötra hárra vaxta og stuðla að áframhaldandi sveiflum í gengi krónunnar sem í sjálfu sér nærir áframhaldandi fjölmyntavæðingu.

Alþjóðlega fjármálakreppan sem nú gengur yfir hefur hægt á eða stöðvað um sinn þróun undanfarinna ára í átt til fjölmyntavæðingar vegna takmarkaðs aðgangs að erlendum gjaldmiðlum. Þegar lánsfjárkreppunni linnir mun að líkindum notkun erlendra gjaldmiðla aukast enn og hlutdeild krónunnar fara minnkandi. Fjölmyntavæðing eykur hins vegar ekki traust á fjármálakerfi Íslands og minnkar ekki þörf bankakerfisins fyrir lánveitanda til þrautavara í erlendum gjaldmiðlum, en í því sambandi er einkum litið til myntsamstarfs við aðrar þjóðir.

Ítarlegar niðurstöður nefndarinnar má nálgast hér að neðan:

Fjölmyntavæðing atvinnulífsins (PDF)

Samtök atvinnulífsins