Menntamál - 

09. júlí 2001

Skýrsla SA og ASÍ um menntamál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýrsla SA og ASÍ um menntamál

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa skilað til starfsmenntaráðs skýrslu um samstarf aðila vinnumarkaðarins um menntamál. Tilgangur skýrslunnar er að gefa yfirlit um sameiginlegar áherslur og verkefni aðila vinnumarkaðarins í menntamálum og að gera tillögur um aukna samvinnu í þessum málaflokki.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa skilað til starfsmenntaráðs skýrslu um samstarf aðila vinnumarkaðarins um menntamál.  Tilgangur skýrslunnar er að gefa yfirlit um sameiginlegar áherslur og verkefni aðila vinnumarkaðarins í menntamálum og að gera tillögur um aukna samvinnu í þessum málaflokki.


Hér á landi á sér stað samvinna og samráð milli aðila vinnumarkaðarins um ýmis mál. Meðal annars er hún blómleg á sviði menntamála og er þá ýmist með eða án þátttöku stjórnvalda. 

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands telja að lykillinn að því að hægt sé með markvissum hætti að þoka góðum málum áfram sé sá að atvinnurekendum og launafólki takist að skilgreina sameiginleg markmið og nái sátt um sameiginlegar aðgerðir til að ná þessum markmiðum.

Til þess að nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru til að þoka áfram hagsmunamálum ólíkra aðila er nauðsynlegt að þeir vinni að því að skilgreina sameiginlega hagsmuni.  Í því sambandi er mikilvægt að hafa á hverjum tíma handbært yfirlit um samstarf aðila vinnumarkaðarins sem nýtist við frekari þróun samstarfsins.

Sameiginlegur grunnur þrátt fyrir skoðanamun
Í skýrslunni er greint frá samstarfi í fræðslustofnunum iðnaðarins, í opinberu samstarfi (t.d. starfsmenntaráði), innan Menntar og um málefni ófaglærða (Starfsafl og Landsmennt).  Greint er frá samvinnu aðila vinnumarkaðarins og háskólastigsins, m.a. um ýmis Evrópuverkefni.  Þetta viðamikla samstarf hefur ekki byggst upp á einni nóttu.  Mismunandi áherslur atvinnurekenda og launafólks hafa valdið því að þurft hefur að gera margar atrennur að góðum málum áður en þau komust í framkvæmd.  En þrátt fyrir skoðanamun hefur samstarfið byggst á tiltekinni sameiginlegri sýn sem þróast hefur á undanförnum árum og er í frekari þróun.

Áherslur aðila vinnumarkaðarins hafa verið mismunandi.  Um sum atriði næst illa sátt þar sem hagsmunir eru gagnólíkir.  Miklu fleiri eru þau atriði sem aðilar standa saman um og / eða gætu náð saman um.  Í stuttu máli eru aðilar vinnumarkaðarins sammála um að nýta menntun til að treysta stöðu starfsmanna og fyrirtækja. Aukin menntun og þjálfun leiðir m.a. eftirfarandi af sér:
- Treystir stöðu starfsfólks á vinnumarkaði
- Eykur verðmæti starfsfólks
- Eykur gæði og verðmæti framleiddrar vöru og þjónustu
- Eflir samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóða

Sameiginleg verkefni - Ávinningur margra
Sameiginlegur skilningur aðila vinnumarkaðarins á mikilvægi menntunar í atvinnulífinu hefur dafnað í skjóli vissunnar um ábata beggja aðila af samstarfi í þessum málaflokki.  Ljóst er að samstarfið hefur vaxið hratt og er viðamikið. Möguleikar á hagræðingu hér á landi eru því miklir.

Sameiginlegt verkefni aðila vinnumarkaðarins á sviði menntamála ætti að vera eftirfarandi:

1) Að tala skýrar einni röddu um sameiginleg hagsmunamál atvinnurekenda og launafólks í menntamálum, bæði gagnvart íslenskum stjórnvöldum og í Evrópusamstarfi.
2) Að kanna möguleika á að auka formlegt samstarf félaga og stofnana í atvinnulífinu um sameiginleg markmið.  Til greina kemur að sameina félög og samstarf með sameiginleg markmið.
3) Að nýta sameiginleg tækifæri atvinnurekenda og launafólks í samstarfi atvinnulífs og skóla.
4) Að bjóða í auknum mæli þekkingu og þjónustu atvinnulífsins til að leysa af hendi lögbundin verkefni stjórnvalda á sviði menntamála. (Atvinnulífið þjóni stjórnvöldum.)
5) Að kanna möguleika á að nýta opinbera skólakerfið til að þjóna menntahagsmunum atvinnulífsins. (Skólar þjóni atvinnulífinu.)
6) Að vinna með stjórnvöldum að því að draga upp gegnsæja heildarmynd af íslenska menntakerfinu þar sem hlutverk aðila er skilgreint, sátt sé um hugtakanotkun og einfalda framsetningu.

Samtök atvinnurekenda og launafólks munu njóta góðs af skipulegra samstarfi á sviði menntamála.  Markmið nást auðveldar og tilkostnaður minnkar.  Ávinningurinn er ekki eingöngu atvinnurekenda og launafólks heldur einnig "viðskiptavina" þeirra: starfsfólks og fyrirtækja auk stjórnvalda, skóla, félaga og fyrirtækja í menntageiranum.  Samskipti og boðskipti einfaldast og hlutverk skýrast.

Sjá skýrsluna í heild (pdf-snið).

Samtök atvinnulífsins