Vinnumarkaður - 

06. janúar 2004

Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um menntareikninga

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýrsla Hagfræðistofnunar HÍ um menntareikninga

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið um margt fróðlega skýrslu um svokallaða menntareikninga, að beiðni Eflingar, VR og Starfsmenntaráðs. "Grunnhugmyndin um menntareikninga byggist á því að tekið er fast hlutfall af launum hvers starfsmanns sem er síðan ávaxtað í séreignasjóði með skattfríðindum þar til viðkomandi launþegi ákveður að nýta sér innistæðuna til að sækja sér menntun eða þjálfun," að því er fram kemur í skýrslunni. Þar segir einnig að "til viðbótar gæti komið framlag atvinnurekenda sem væri þá einnig fast hlutfall af launum starfsmanns." Hafi launþegi ekki nýtt sparnaðinn þegar hann fer af vinnumarkaði getur hann nýtt hann sem viðbótarlífeyrissparnað, að því er lagt er til í skýrslunni.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands hefur unnið um margt fróðlega skýrslu um svokallaða menntareikninga, að beiðni Eflingar, VR og Starfsmenntaráðs. "Grunnhugmyndin um menntareikninga byggist á því að tekið er fast hlutfall af launum hvers starfsmanns sem er síðan ávaxtað í séreignasjóði með skattfríðindum þar til viðkomandi launþegi ákveður að nýta sér innistæðuna til að sækja sér menntun eða þjálfun," að því er fram kemur í skýrslunni. Þar segir einnig að "til viðbótar gæti komið framlag atvinnurekenda sem væri þá einnig fast hlutfall af launum starfsmanns." Hafi launþegi ekki nýtt sparnaðinn þegar hann fer af vinnumarkaði getur hann nýtt hann sem viðbótarlífeyrissparnað, að því er lagt er til í skýrslunni.

Erlendar tilraunir
Í skýrslunni er fjallað um tilraunir sem gerðar hafa verið með kerfi menntareikninga í Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Í Bretlandi hafa verið gerðar tilraunir með eignasöfnunarreikninga í formi beins stuðnings frá ríkinu, en það kerfi er nú í endurskoðun þar sem eftirspurnin reyndist meiri en búist hafði verið við og vísbendingar voru um misnotkun, þótt ljóst sé að margir hafi notið góðs af kerfinu. Bandarísk stjórnvöld hafa jafnframt gert tilraun með kerfi menntareikninga sem fólst í að ákveðið fjármagn, hvort sem væri í formi peninga frá yfirvöldum eða vinnutíma, yrði sett til hliðar fyrir starfsfólk til að nýta til menntunar og þjálfunar. Í Svíþjóð hafa ýmsir aðilar barist fyrir upptöku menntareikninga og hefur hið opinbera kynnt áform um að taka upp menntareikninga en endanleg niðurstaða liggur ekki fyrir.

Lágt hlutfall með framhaldsskólanám hérlendis
Þá er í skýrslunni m.a. fjallað um hversu lágt hlutfall Íslendinga hefur lokið framhaldsskólanámi, samanborið við nágrannalöndin. Ef horft er á aldurshópinn 25-31 árs hafa þannig 61% Íslendinga lokið framhaldsnámi, en þetta hlutfall er á bilinu 86-93% á hinum Norðurlöndunum. Fram kemur að þetta hljóti að teljast áhyggjuefni fyrir íslenskt samfélag og því sé nauðsyn á nýjum úrræðum í menntamálum sem nái til þeirra sem hætt hafi námi eftir grunnskóla en vildu gjarnan bæta við sig þekkingu. Fram kemur að stigið hefur verið skref í þá átt að þróa heilsteypt kerfi símenntunar á Íslandi með stofnun Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins í desember 2002, sem er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Eitt af markmiðum hennar er að vinna skipulega að því að meta og votta óformlegt nám og starfsþjálfun í samstarfi við fræðsluaðila og atvinnulífið.

SA hafa hvatt til upptöku námssparnaðarreikninga
Í Áherslum atvinnulífsins, sem gefnar voru út í tengslum við aðalfund Samtaka atvinnulífsins í maí 2001, er hvatt til þess að teknir verði upp svokallaðir námssparnaðarreikningar. Hugmyndin að baki þeim er einmitt sú að launafólki yrði umbunað í formi skattfríðinda fyrir að leggja fyrir fé til að kosta menntun eða þjálfun, og taka þannig að vissu marki ábyrgð á eigin menntun. "Með tilkomu menntareikninga taka einstaklingar sjálfir ábyrgð á sinni eigin menntun en það hefur sýnt sig að slíkt eykur bæði þátttöku og áhuga og hvetur einstaklinga til að standa sig vel," segir í tillögum skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ.

Skýrslu Hagfræðistofnunar má nálgast á vef Starfsmenntaráðs.

Samtök atvinnulífsins