14. júlí 2022

Skýrsla AGS – Glöggt er gests augað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýrsla AGS – Glöggt er gests augað

Nýlega birti Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) árlega skýrslu sína um íslenskt efnahagslíf. Telur sjóðurinn íslenska hagkerfið vel í stakk búið að takast á við möguleg neikvæð efnahagsleg áföll og að vel hafi tekist til við að vinda ofan af þeim áföllum sem dunið hafa á hagkerfinu frá árinu 2019. Þá séu horfur á stöðugum hagvexti á næstu árum, drifnum áfram af vexti útflutnings fyrst og fremst, ásamt einkaneyslu. Þrátt fyrir jákvæðar horfur verði verg landsframleiðsla, þ.e. þau verðmæti sem framleidd eru í landinu, hins vegar enn töluvert minni árið 2027 en hefði mátt gera ráð fyrir áður en faraldur kórónuveiru skall á, eða sem nemur 2 prósentum.

Þó útlitið sé gott og staðan ekki sem verst má alltaf gera betur. AGS leggur áherslu á mikilvægi þess að endurheimta svigrúm opinberra fjármála til að takast á við áföll, að tryggja þurfi kjölfestu verðbólguvæntinga og verðstöðugleika og að koma þurfi böndum á verðþróun á húsnæðismarkaði. Síðast en ekki síst, þurfi að fjölga efnahagslegum undirstöðum íslenska hagkerfisins, einkum og sérílagi með því að létta á regluverki í kringum sprotafyrirtæki ásamt því að tryggja að kjarasamningar og launaþróun taki mið af framleiðniþróun. Áherslur sjóðsins endurspegla að miklu leyti megináherslur og athugasemdir Samtaka atvinnulífsins í umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 .

Nauðsynlegt að búa í haginn

Vandi ríkisfjármálanna er ekki nýr af nálinni heldur er um undirliggjandi ójafnvægi að ræða sem var tekið að myndast fyrir heimsfaraldur. Það er því skoðun SA að bættar efnahagshorfur nú dragi ekki úr þörf fyrir útfærslum á afkomubætandi ráðstöfunum hins opinbera, hvort sem um er að ræða tekju- eða útgjaldahlið. Þá hafi skort á aðhald í uppsveiflum og tímabundnum tekjum gjarnan verið ráðstafað til varanlegra útgjalda. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur undir þessi sjónarmið í skýrslunni. Sérstaklega er tekið fram að nauðsynlegt sé fyrir hið opinbera að leggja til hliðar allan óvæntan tekjuauka svo virkja megi fjármálareglur laga um opinber fjármál sem fyrst.

Í þessu samhengi hafa SA talið vert að skoða hvort ekki væri skynsamlegt að taka upp útgjaldareglu til viðbótar við þær fjármálareglur sem þegar er gert ráð fyrir í lögum um opinber fjármál, þ.e. afkomu- og skuldareglu. Útgjaldaregla dregur úr sveiflum í opinberum fjármálum með því að tryggja að opinber útgjöld sveiflist ekki í takti við hagsveifluna, heldur fer óvænt tekjuaukning til sparnaðar sem hægt er að nýta þegar verr árar.

Tækifæri til umbóta í rekstri hins opinbera

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur sérstaka áherslu á nauðsyn þess að draga úr hallarekstri hins opinbera og stöðvun skuldasöfnunar í skýrslu sinni. Sjóðurinn telur tækifæri til hagræðingar geta falist í endurskoðun á virðisaukaskattkerfinu, samneyslu og tilfærslukerfum, ásamt því að ljúka við endurmat útgjalda þeirra málaflokka þar sem sú vinna er hafin.

SA hafa í umsögnum sínum einnig talað fyrir mikilvægi þess að við umbætur í ríkisrekstri séu árangurstengd fjárlagagerð og endurmat útgjalda í hávegum höfð, bæði svo hægt sé að hafa hemil á sífelldri útgjaldaaukningu en einnig svo hægt sé að taka gagnadrifnar ákvarðanir varðandi forgangsröðun opinberra útgjalda. Þá hafa samtökin tekið undir ábendingar OECD um nauðsyn þess að ráðast í umbætur á almannatryggingakerfinu, sem nú eru ítrekaðar upp að ákveðnu marki í skýrslu AGS, samhliða fyrirsjáanlega auknum kostnaði vegna hækkandi lífaldurs. Samkvæmt útreikningum OECD væri hægt að auka hagvöxt á mann um 3,5% á 10 árum og 7% til lengri tíma litið með því að auka útgjöld til fjárfestinga en draga til baka hluta af þeirri miklu aukningu sem orðið hefur í almannatryggingakerfinu á umliðnum árum. Að mati OECD myndu slíkar umbætur auka skilvirkni í þjóðarbúskapnum án þess að hafa neikvæð áhrif á jöfnuð. Fjárfesting í mikilvægum innviðum þjónar þannig hagsmunum allra landsmanna.

Launakostnaður mikill í alþjóðlegum samanburði

Ljóst er að kjarasamningar munu hafa mikið að segja um framvindu efnahagsmála næstu misserin og telur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kjarasamninga einn helsta óvissuþáttinn í þessum efnum. Varað er við því að samið sé um launahækkanir sem samrýmast ekki markmiðum um verðstöðugleika enda geti það orðið til þess að aukin verðbólga verði þrálát og kalli á frekari viðbrögð af hálfu Seðlabankans með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagsumsvif. Seðlabanki Íslands hefur að undanförnu tekið í sama streng.

Í skýrslunni er sérstaklega komið inn á launakostnað hins opinbera og bent á að hann sé umtalsvert meiri hér á landi en gengur og gerist meðal þróaðra ríkja, þar séu vafalaust tækifæri til hagræðingar. Samtök atvinnulífsins hafa undirstrikað mikilvægi þess að hið opinbera leiði ekki launaþróun sem hefur raunar verið tilfellið að undanförnu. Hlutfall launa á móti tekjum ríkissjóðs er sögulega hátt og gert er ráð fyrir að það haldist nokkuð stöðugt á tímabili fjármálaáætlunar. Fjármálaáætlun ber þannig með sér að aukning launakostnaðar verði afar hófleg á næstu árum í sögulegu tilliti. Þær forsendur verða að halda svo tryggja megi jafnvægi í ríkisrekstri og á vinnumarkaði sem og stöðugt verðlag. Mikilvægt er að hið opinbera sýni ábyrgð í verki með því að tryggja að launastefnunni, sem mótuð verður á almennum markaði í komandi kjaraviðræðum, verði fylgt eftir þegar kjarasamningar losna á opinberum vinnumarkaði.

Launahækkanir hérlendis hafa í lengri tíma verið langt umfram framleiðnivöxt, sem hefur að jafnaði verið um 1,2-1,5% á ári undanfarinn áratug, með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið í formi meiri verðbólgu og hærri stýrivaxta en ella. Hagfelld ytri skilyrði, s.s. mikill viðskiptakjarabati, hefur dregið úr verðbólguáhrifum þessarar þróunar á seinustu árum. Ekkert bendir til þess að slíkt endurtaki sig á komandi misserum. Niðurstaða komandi kjarasamninga má ekki leiða til þess að endurtekið efni úr hagsögu Íslands, víxlverkun launa og verðlags, öðlist nýtt líf.

Fjölbreyttari stoðir kalla á breytingar

Það er gömul saga og ný að íslenska hagkerfið skorti breidd og að fjölga þurfi efnahagslegum stoðum. Ísland hefur aftur á móti alla burði til að auka efnahagslega fjölbreytni að mati AGS. Nauðsynlegt sé hins vegar að skapa fyrirtækjum ákjósanlegt umhverfi til vaxtar og framþróunar. Létta þurfi á reglubyrði í viðskiptalífinu, sérílagi sé mikilvægt að huga að umhverfi sprotafyrirtækja og fjárfestingar, að efla fjárfestingu í rannsóknum og þróun og að efla stafvæðingu lítilla fyrirtækja, s.s. með bættu aðgengi að fjármagni. Reynsla annarra þjóða sýni að það að draga úr regluverki í ákveðnum geirum, svo sem sérfræðiþjónustu og netiðnaði, geti aukið VLF um meira en 2,25 prósent. Þá þurfi að gera frekari umbætur á menntakerfinu með það fyrir augum að bæta námsárangur og færni nemenda.

Hér geta yfirvöld skapað hagfelldari skilyrði til rekstrar með margvíslegum umbótum á regluverki eins og SA hafa ítrekað bent á. Ísland stendur aftar öðrum þjóðum þegar kemur að aðgengi að lánsfjármagni, erlendri fjárfestingu, og fjölbreytni hagkerfis en allt eru það þættir sem skipta sköpum þegar kemur að því að skapa gróskumikið umhverfi fyrir frumkvöðlastarfsemi. Nauðsynlegt er að styðja betur við fjárfestingu og atvinnulíf almennt í formi einfaldara og hagfelldara rekstrarumhverfis. Árangur af auknum stuðningi við nýsköpun er nú þegar að raungerast í formi fjölgunar starfa og aukins útflutnings, t.a.m. í hugverkaiðnaði. Þó er ljóst af greiningum erlendra aðila á borð við OECD, WIPO, IMD og fleiri að margvísleg tækifæri eru enn til umbóta sem aukið gætu samkeppnishæfni Íslands og þar með lífskjör almennings.

Samtök atvinnulífsins