Vinnumarkaður - 

04. Oktober 2001

Skýringar á launamun kynjanna

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýringar á launamun kynjanna

Samtök atvinnulífsins í Danmörku (Dansk arbejdsgiverforening, DA) birtu nýverið niðurstöður ítarlegrar rannsóknar á launamun kynja í Danmörku, sem gerð var í samstarfi við dönsku hagstofuna. Rannsóknin náði til 400 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði þar í landi. Helstu niðurstöður eru þær að af 15% mun á meðallaunum kynja í verkamanna- og iðnaðarmannastörfum skýrast 12 prósentustig af mælanlegum þáttum eins og menntunarstigi, starfsreynslu, starfsgreinaskiptingu og stöðu. Meðal annarra starfsstétta á almennum vinnumarkaði, fólki í skrifstofu-, afgreiðslu- og þjónustustörfum, störfum tækna og sérfræðinga, er launamunur milli kynja 26% og skýrast 19 prósentustig af mælanlegum þáttum. Sá munur sem eftir stendur skýrist af ómælanlegum, persónubundnum þáttum. Einfaldur samanburður á meðallaunum einstakra starfshópa, svo sem karla og kvenna, er því misvísandi sé ekki tekið tillit til mismunar á þeim skýringarþáttum launa sem máli skipta.

Samtök atvinnulífsins í Danmörku (Dansk arbejdsgiverforening, DA) birtu nýverið niðurstöður ítarlegrar rannsóknar á launamun kynja í Danmörku, sem gerð var í samstarfi við dönsku hagstofuna. Rannsóknin náði til 400 þúsund launamanna á almennum vinnumarkaði þar í landi. Helstu niðurstöður eru þær að af 15% mun á meðallaunum kynja í verkamanna- og iðnaðarmannastörfum skýrast 12 prósentustig af mælanlegum þáttum eins og menntunarstigi, starfsreynslu, starfsgreinaskiptingu og stöðu. Meðal annarra starfsstétta á almennum vinnumarkaði, fólki í skrifstofu-, afgreiðslu- og þjónustustörfum, störfum tækna og sérfræðinga, er launamunur milli kynja 26% og skýrast 19 prósentustig af mælanlegum þáttum.  Sá munur sem eftir stendur skýrist af ómælanlegum, persónubundnum þáttum. Einfaldur samanburður á meðallaunum einstakra starfshópa, svo sem karla og kvenna, er því misvísandi sé ekki tekið tillit til mismunar á þeim skýringarþáttum launa sem máli skipta.

Hérlendis hefur aldrei verið gerð jafn ítarleg rannsókn á hugsanlegum skýringum á mældum launamuni kynjanna, en engir aðilar hér á landi búa yfir jafn viðamiklum tölfræðilegum gögnum og þeim sem rannsökuð voru í þessari dönsku rannsókn.

Helstu niðurstöður

  • Þótt atvinnuþátttaka kvenna sé nú á tímum næstum jafnmikil og karla er enn mikill munur milli kynjanna hvað varðar menntun, starfsreynslu, vinnutíma o.fl.

  • Menntunarval er stór skýring á mismunandi skiptingu kynjanna milli atvinnugreina.  Þannig velja konur fremur menntun sem nýtist hjá opinberum aðilum en karlar velja fremur menntun sem nýtist í einkageiranum.

  • Starfsreynsla kvenna er að meðaltali 16% minni en karla.  Þetta skýrist af styttri vinnutíma kvenna og fjarverutímabilum frá vinnumarkaði, þ.m.t. fæðingarorlofi, öðrum leyfum og meira atvinnuleysi meðal kvenna en karla.

  • Afstaða kynjanna til vinnu og launa er mismunandi.  Rannsóknir í Danmörku sýna að karlar leggja meiri áherslu á laun en konur leggja meiri áherslu á starfsumhverfi, inntak starfsins og starfsöryggi.

  • Munur á meðallaunum karla og kvenna í verkamanna- og iðnaðarmannastörfum í Danmörku er rúm 15%.  Af þessum mun skýrast 12 prósentustig af mismunandi menntunarstigi, starfi, reynslu og öðrum mælanlegum þáttum.

  • Munur á meðallaunum karla og kvenna í skrifstofu-, afgreiðslu- og þjónustustörfum, störfum tækna og sérfræðinga er tæp 26%.  Af þessum mun skýrast tæp 19 prósentustig af mismunandi menntunarstigi, starfi, reynslu og öðrum mælanlegum þáttum.  Þar til viðbótar ofmeta sumir þættir laun karla, eins og t.d. að yfirvinna er ekki greidd sérstaklega, um 3%.  Stærstur hluti launamunarins skýrist þannig af  mismunandi vali og atferli kynjanna.

  • Launamunur er minni meðal yngri kynslóða og skýrist í ríkari mæli af mismunandi menntunarvali og starfsgreinaskiptingu.  Meðal ungs fólks vegur formleg hæfni og mælanlegir eiginleikar þannig þyngra en hjá þeim eldri.

  • Á almenna vinnumarkaðinum er launamyndun að miklu leyti einstaklingsbundin og laun einstakra starfsmanna ákvarðast af flóknu samspili fjölda áhrifaþátta. Þessir þættir eru ekki einungis formlegir og mælanlegir, eins og menntun, starfsreynsla, starfsgrein og staða, heldur einnig ómælanlegir eins og samskiptahæfni, persónuleg reynsla, áhugi og dugnaður.

Einfaldur samanburður á meðallaunum einstakra starfsmannahópa, þ.m.t. karla og kvenna, er þar af leiðandi misvísandi sé ekki tekið tillit til mismunar á þeim skýringarþáttum launa sem máli skipta. Við mat á því hvort konur og karlar fái jöfn laun er nauðsynlegt að taka tillit til mismunandi eiginleika.  Þrátt fyrir að stuðst sé við háþróaðar tölfræðiaðferðir verður aldrei hægt að ná utan um allar þær aðstæður sem skipta máli við ákvörðun launa einstaklinga.  Þar til viðbótar eru sumir þættir ekki mælanlegir. Í því sambandi má nefna samskiptahæfni, dugnað og áhuga.

Þrátt fyrir aðferðafræðileg vandamál við samanburð launa má skýra stærstan hluta af meðaltalslaunamun kynja með mælanlegum þáttum.

Sjá nánari endursögn á dönsku rannsókninni.

Sjá rannsóknina á heimasíðu dönsku samtaka atvinnulífsins (pdf-snið, 5. kafli vinnumarkaðsskýrslu DA).

Samtök atvinnulífsins