Efnahagsmál - 

17. Nóvember 2021

Skýr skilaboð frá Seðlabankanum

Efnahagshorfur

Efnahagshorfur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýr skilaboð frá Seðlabankanum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka meginvexti bankans um 0,5 prósentur, þannig að meginvextir bankans eru nú orðnir 2%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka meginvexti bankans um 0,5 prósentur, þannig að meginvextir bankans eru nú orðnir 2%.

Verðbólguhorfur hafa versnað m.a. vegna verðhækkana erlendis, batnandi hagvaxtarhorfa og mikilla launahækkana, sem samræmast ekki því sem hagkerfið getur staðið undir. Að mati bankans eru verðbólguhorfur líklega of bjartsýnar og frekari vaxtahækkana því að vænta á næstu vaxtaákvörðunarfundum.

Þrátt fyrir versnandi verðbólguhorfur eru meiri líkur en minni á að verðbólgan muni reynast vanmetin. Óvissan snýr fyrst og fremst að stefnu ríkisfjármála, almennri launaþróun og verðlagsþróun erlendis.


Staðan á vinnumarkaði eykur á verðbólguþrýsting
Varnaðarorð Seðlabankans í morgun voru skýr. Mikilvægt er að armar hagstjórnar gangi í takt – ef stefna nýrrar ríkisstjórnar ýtir undir þenslu og verðbólgu mun Seðlabankinn bregðast við. Hið sama má segja um ábyrgð aðila vinnumarkaðar. Launahækkanir umfram undirliggjandi verðmætasköpun og getu atvinnulífsins til að standa undir þeim stuðla að aukinni verðbólgu og hærra vaxtastigi.

Væntingar um hagvaxtarauka skv. Lífskjarasamningi voru teknar inn í verðbólguspá bankans og hafa þar áhrif til hækkunar. Launahlutfall íslenskra fyrirtækja, sem hefur verið það hæsta á heimsvísu, hefur hækkað enn frekar í miklum samdrætti. Ljóst er því að staðan á vinnumarkaði á sinn þátt í því að skapa aukinn verðbólguþrýsting sem hefur áhrif til vaxtahækkana.

Erlend verðþróun stór óvissuþáttur
Annar óvissuþáttur sem bankinn tiltekur snýr að erlendri verðþróun á hrávöruverði og flutningskostnaði vegna framboðstruflana. Einnig ber að hafa í huga að öll vestræn ríki hafa stutt við hagkerfi sín á myndarlegan hátt með eftirspurnarhvetjandi aðgerðum. Því hefur eftirspurn reynst kröftug á meðan hökt hefur verið á framboði sem hvort tveggja eykur verðbólguþrýsting. Vissulega hefur bankinn engin áhrif á alþjóðlega verðþróun en hún hefur engu að síður áhrif á verðbólguhorfur hér heima og verðbólguvæntingar fyrirtækja og heimila.

Samtök atvinnulífsins