24. ágúst 2022

Skýr skilaboð um að semja ekki umfram svigrúm

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skýr skilaboð um að semja ekki umfram svigrúm

Peningastefnunefnd Seðlabankans hefur ákveðið að hækka meginvexti um 0,75 prósentur. Meginvextir bankans fara því í 5,5%. Verðbólga stendur í 9,9% og mun aukast enn til ársloka skv. spá bankans (í nær 11%) en áætlað er að hún taki að hjaðna á næsta ári. Uppfærð spá Seðlabankans gerir ráð fyrir að meðaltalsverðbólga á næsta ári verði enn vel yfir markmiði eða 6,7% í stað 5,0% eins og spáð var í maí.

Eins og fram kemur í nýútgefnum Peningamálum eru horfur á auknum hagvexti í ár (5,9% í stað 4,6% eins og spáð var í maí). Verðbólguhorfur hafa þó versnað samhliða og er nú gert ráð fyrir að hún nái hámarki í árslok og verði þá tæplega 11%. Verðbólguvæntingar hafa einnig aukist frekar á flesta mælikvarða. Allir þessir þættir gefa tilefni til hærra vaxtastigs en ella og er ákvörðun nefndarinnar því í efri mörkum þess sem vænst var, en markaðs- og greiningaraðilar áttu almennt von á 50-75 punkta hækkun.


Varnaðarorð til atvinnulífs, vinnumarkaðar og ríkisfjármála

Meiri líkur en minni eru á að vextir verði hækkaðir enn frekar, en það mun ráðast af þróun helstu efnahagsstærða, verðbólgu og væntingum. Varnaðarorð voru send til atvinnulífs, vinnumarkaðar og ríkisfjármálanna rétt eins og við seinustu vaxtaákvörðun en nefndin ítrekar að þessir þættir muni „skipta miklu um hversu hátt vextir þurfa að fara”.

Í Peningamálum segir einnig: „Verðbólguhorfur í spá bankans gætu einnig reynst of bjartsýnar, sérstaklega ef fyrirtæki fara í vaxandi mæli að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag og ef víxlverkun launa og verðlags fer af stað sem gæti valdið því að mikil verðbólga festist enn frekar í sessi.”

Þetta eru skýr skilaboð til fyrirtækja um að hækka verðlag ekki umfram nauðsyn, aðila kjarasamninga um að semja ekki umfram svigrúm og ríkisfjármálanna um að standa ekki fyrir eftirspurnarhvetjandi aðgerðum með auknum ríkisútgjöldum.

Talsvert meiri þróttur en vænst var

Uppfærð spá í Peningamálum gefur til kynna talsvert meiri þrótt í innlenda hagkerfinu en vænst var. Það endurspeglast m.a. í spá um einkaneysluvöxt, sem í maí var spáð að yrði um 3,1% en er nú spáð að verði um 7,2% á árinu. Þá ganga heimilin hraðar á sparnað sinn en talið var. Spá um fjárfestingu var einnig færð lítillega upp á við en athygli vekur að ekki er ráðgert að fjárfesting í íbúðarhúsnæði taki við sér að ráði fyrr en á næsta ári þrátt fyrir mikla umræðu um skort í húsnæðismarkaði í kjölfar mikilla verðhækkana.


Verðbólgan almenns eðlis

Misskilnings virðist gæta í umræðunni um að peningastefnunefnd beiti vaxtatæki sínu gegn eigna- og hrávöruverðshækkunum nú um stundir. Það er raunar fjarri lagi að verðbólgan sé einungis tilkomin vegna hækkana á húsnæðisverði og hrávöru. Þó það vegi vissulega þungt er verðbólga samt sem áður almenns eðlis. Til dæmis mældist hún 7,5% að húsnæðisliðnum undanskildum í júlí síðastliðnum (og undirliggjandi verðbólga 6,5%).

Samtök atvinnulífsins