Skýr afstaða SA til Icesave

Samtök atvinnulífsins hafa allt frá því íslenska bankakerfið hrundi haustið 2008 hvatt til þess að reynt yrði sem fyrst að koma viðskiptum Íslands við aðrar þjóðir í eðlilegt horf. Í skýrslu sem SA gáfu út í janúar 2009 lögðu samtökin til dæmis áherslu á að afnema gjaldeyrishöftin og komið yrði á eðlilegum samskiptum við erlenda banka.

Samtök atvinnulífsins hafa lagt fram ítarlega aðgerðaráætlun um uppbyggingu atvinnulífsins og útrýmingu atvinnuleysis. Yfir 14 þúsund manns eru án atvinnu á Íslandi og þúsundir hafa yfirgefið landið í leit að betri tækifærum. SA telja þetta ólíðandi en meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er að fjárfesta í atvinnulífinu - einkum í útflutningsstarfsemi. Til þess þarf atvinnulífið greiðan aðgang að innlendu og erlendu lánsfé á viðráðanlegum kjörum. Eðlilegur aðgangur að erlendum fjármálamörkuðum hefur lykilþýðingu í að sú uppbygging sem framundan er gangi vel fyrir sig þannig að endurheimta megi fulla atvinnu og glötuð lífskjör eigi síðar en á árinu 2015.

Í ljósi þessa hafa Samtök atvinnulífsins stutt allar tilraunir starfandi ríkisstjórna á þessum tíma til að ná samkomulagi við stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi um svokallað "Icesave-mál". Lausn þess er einn liður í endurreisn hagkerfisins en dugir þó ekki ein og sér.

Það var augljóst frá því löngu fyrir hrun að kæmi til þess að Landsbanki Íslands færi í þrot skapaðist veruleg óvissa um hvernig farið yrði með innstæður í útibúum bankans erlendis. Þeirri atburðarás allri er lýst í 18. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og koma þar við sögu ráðherrar, ráðuneytisstjórar, bankastjórar Seðlabankans, forstjóri Fjármálaeftirlitsins og fleiri embættismenn auk starfsmanna Landsbankans.

SA töldu því jákvætt þegar náðist samkomulag við Evrópusambandið í nóvember 2008 sem fól í sér að íslensk stjórnvöld ábyrgðust lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um til innstæðueigenda í útibúum bankanna erlendis. Þetta samkomulag var staðfest með ályktun Alþingis þann 5. desember 2008 en í greinargerð með tillögunni segir m.a.

"...er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni."

 Í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar um tillöguna segir m.a.:

 "Á hinn bóginn má leiða að því líkur að lagaleg óvissa um þetta atriði gæti vegið að fjárhagslegum stöðugleika og trúverðugleika þess lagaumhverfis sem fjármálafyrirtækjum sem starfa innan vébanda Evrópusambandsins hefur verið skapað. Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður."

Þegar Icesave samkomulagið hið fyrra var til umfjöllunar á Alþingi í júlí 2009 mæltu SA með því að það yrði staðfest

og í umsögninni er að finna forsendur þessarar niðurstöðu:

"Lyktir þessa máls hafa frá upphafi verið skilyrði fyrir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) og annarra þjóða að lánveitingum til Íslands. Lítið lánstraust Íslands og alþjóðleg fjármálakreppa valda því að önnur gjaldeyrislán standa Íslendingum ekki til boða. Efnahagslegur stöðugleiki og uppbygging á næstu misserum og árum eru því háð lánveitingum frá framangreindum aðilum. Máli þessu þarf að ljúka sem fyrst til að rjúfa fjárhagslega einangrun Íslands og koma á ný á eðlilegu sambandi við erlenda fjármálamarkaði. Innstreymi erlends fjármagns er lykilatriði í því að skapa atvinnulífinu eðlileg starfsskilyrði og uppbygging næstu ára hvílir á því. Án aðgangs að erlendu lánsfé má búast við langvarandi kreppuástandi hér á landi."

Alla tíð síðan hafa SA hvatt til þess að málinu yrði lokið sem fyrst og í ályktun framkvæmdastjórnar samtakanna í janúar 2010 var hvatt til víðtækrar samstöðu um málið.

Sem betur fer hafa þeir samningsskilmálar sem náðst hafa batnað eftir því sem tíminn hefur liðið og er full ástæða til að fagna því að nú stefnir í að byrðar ríkissjóðs vegna þessa máls verði mun minni en búist var við í upphafi. Einnig virðist stefna í að þrotabú bankans geti staðið undir stærri hluta krafnanna en áður var talið.

Afstaða Eftirlitsstofnunar EFTA

Ekki verður fram hjá því litið að veruleg áhætta fælist í því fyrir íslensku þjóðina að þetta deilumál við Breta og Hollendinga yrði leitt til lykta fyrir dómstólum. Þannig hefur Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) talið að íslenska ríkinu bæri skylda til þess að standa að baki þeirri 20.887 evra tryggingu á hverjum innlánsreikningi sem lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir og fjárfesta kveða á um. Í slíkum málaferlum, sem ESA myndi höfða fyrir EFTA dómstólnum ef ekki verður samið, myndi að líkindum jafnframt verða fjallað um lögmæti þeirrar ákvörðunar stjórnvalda að tryggja innstæður í útibúum Landsbankans til fulls hér á landi en ekki í útibúum erlendis. Í því felst viðbótar áhætta. Um þessa áhættu hafa verið skiptar skoðanir hér á landi en í áformum ESA felst ótvíræð vísbending um það hverjar stofnunin telja líklegar lyktir slíkra málaferla.

Að biðjast afsökunar

Í Spegli í Ríkisútvarpsins sl. mánudag óskaði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, eftir því að SA bæðust afsökunar á stuðningi sínum við fyrra samkomulag um Icesave.  Í þættinum degi síðar sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, að það væri sjálfsagt að biðjast afsökunar á stuðningi SA ef það mætti verða til að koma málinu frá. Sá stuðningur hafi byggst á þeirri sýn að samkomulagið væri liður í að koma atvinnulífinu af stað á nýjan leik og bæta samskipti við viðskiptaþjóðir landsins. Það verði hins vegar aldrei reiknað út í krónum og aurum hver gróðinn er eða tapið af því að hafa ekki afgreitt málið fyrr.

Vefútgáfa 18. kafla skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið

Þingsályktunartillaga í nóvember 2008 um innistæðutryggingar
 

Álit meirihluta utanríkismálanefndar í desember 2008. 

Umsögn SA um Icesave frumvarpið í júlí 2009
 

Skýrsla SA í janúar 2009 "Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna" 

Skýrsla SA í febrúar 2010 "Atvinna fyrir alla"

Viðtal við Vilhjálm Egilsson í Spegli RÚV 7. desember