Skuldir borgarinnar aukast

Peningaleg staða á samstæðureikningi Reykjavíkurborgar (peningalegar eignir að frádregnum skuldum) var neikvæð um 40 milljarða króna í árslok 2000. Staðan hafði versnað úr mínus 32 milljörðum í lok árs 1999.  Í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að skuldastaðan versni enn á árinu sem er að líða. Þegar þess er gætt að bæjarstarfsmenn hafa samið um miklar launahækkanir að undanförnu og að í hönd fer kosningaár kæmi ekki á óvart að peningastaða borgarinnar versnaði um fimm til tíu milljarða á þessu ári.

Auk launahækkana og annarra almennra kostnaðarhækkana stafar skuldaaukningin árið 2001 að mestu leyti af framkvæmdum Orkuveitunnar við nýjar höfuðstöðvar og við Nesjavallavirkjun. Undanfarin ár hefur Orkuveitan fjárfest mikið á Nesjavöllum og er það ein meginskýringin á skuldaaukningu borgarinnar undanfarin ár.  Stefnt er að því að greiða þessar skuldir með tekjum Orkuveitunnar, en ekki með skattgreiðslum borgarbúa.  Borgarbúar bera þó fulla ábyrgð á skuldunum.

Ýmis þjónusta hefur orðið sveitarfélögunum dýrari á undanförnum árum en búist var við. Einkum reyndust grunnskólarnir kostnaðarsamari en gert var ráð fyrir þegar samið var um yfirfærslu þeirra frá ríkinu, árið 1996. Árið 1999 skipaði fjármálaráðherra nefnd til að endurskoða tekjustofna sveitarfélaga. Í skýrslu tekjustofnanefndar kemur fram að frá 1990 til 1999 jukust bókfærðar skatttekjur sveitarsjóða að raungildi um 69% meðan rekstrargjöld jukust um 97%. Hlutur rekstrargjalda af skatttekjum jókst á þessum tíma úr 78% í 92%. Rekstrarhalli var meiri á sveitarfélögum á landsbyggðinni en í Reykjavík og á Reykjanesi, en skuldirnar jukust meira á suðvesturhorninu.

Borgarsjóður ábyrgist skuldbindingar Landsvirkjunar og fleiri, að fjárhæð 35 milljarðar króna í árslok 2000. Má gera ráð fyrir að peningaleg skuld og ábyrgðir borgarinnar nemi samanlagt 80-90 milljörðum króna í lok árs 2001, en það er nálægt 750 þúsund krónum á hvern borgarbúa.

Myndin sýnir peningalega stöðu á samstæðureikningi borgarinnar, án lífeyrisskuldbindingar, á föstu verðlagi í milljörðum króna. Eins og sjá má var peningastaðan jákvæð árið 1992, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum, sem þá höfðu ekki verið reiknaðar út.

Tekjustofnanefnd lagði til að hámarksútsvar hækkaði úr 12,04% í 12,70% í byrjun árs 2001, og samþykkti Alþingi tillöguna. Þá lagði nefndin til að heimildin yrði enn hækkuð um 0,33% í ársbyrjun 2002. Reykjavíkurborg nýtti sér heimild til að hækka útsvar í 12,7% í ársbyrjun 2001. Auk þess hafa tekjur borgarinnar aukist vegna góðærisins undanfarin ár. Skatttekjur borgarinnar jukust um 11% frá 1999 til 2000 og í fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að þær aukist enn um 13% árið 2001. 

Að undanförnu hafa skuldir borgarsjóðs sjálfs raunar minnkað mikið. Víkur svo einkennilega við, að peningaleg staða borgarinnar hefur batnað á sama tíma og borgarsjóður hefur verið rekinn með halla. Skýringin liggur í millifærslum frá borgarfyrirtækjum. Orkuveitan gaf út skuldabréf til borgarsjóðs árið 1998 að fjárhæð 4 milljarðar, og árið 1997 gáfu Félagsbústaðir út skuldabréf til borgarsjóðs að fjárhæð 1,7 milljarðar.  Peningastaða borgarsjóðs batnaði sem þessu nam.  Þess vegna hefur það lítið upp á sig að skoða stöðu borgarsjóðs út af fyrir sig.  Horfa verður á samstæðureikninginn til þess að gera sér hugmynd um fjárhag borgarinnar.

Markmið með borgarrekstri
Reykjavíkurborg hefur leitast við að skilgreina betur markmið stofnana og fyrirtækja sinna á undanförnum árum. Reynt er að fylgja markmiðunum eftir með því að mæla árangur. Með þjónustu borgarinnar er stefnt að því að ,,[s]tuðla að fjölbreyttu atvinnulífi í borginni, m.a. með úrvali hentugra lóða, góðri skipulagningu borgarhverfanna og góðum innviðum. Mikilvægt [er] þó að borgin sinni ekki verkefnum sem eru betur/jafnvel komin í höndum annarra" (greinargerð með fjárhagsáætlun 2001, bls. 38).  Síðustu orðin vekja upp þá spurningu hvort nauðsynlegt sé að borgin reki fyrirtæki eins og Línu.net, sem starfar á samkeppnismarkaði. Á næstu árum færist rafmagnsframleiðsla væntanlega inn á samkeppnismarkað og einkafjárfestar eru þegar að feta sig þangað. Er þá eðlilegt eða æskilegt að borgin reki fyrirtæki á þeim markaði? Í fyrrahaust var Aflvaka hf. skipt í tvennt. Sprotasjóðurinn geymir nú hlutabréf fyrirtækisins og útistandandi lán. Stefnt er að því að selja Sprotasjóðinn við fyrsta tækifæri ef viðunandi kaupverð fæst, en velta má því fyrir sér hvaða tilgangi Aflvaki þjónar núna. Nágrannasveitarfélögin láta einkafyrirtæki hirða sorp og sjálfsagt er að borgin íhugi hvort sá háttur hentar betur en borgarrekstur. Þá er nauðsynlegt að fara yfir það annað veifið hvað rétt er að styrkja almenningssamgöngur mikið, en láta styrkinn ekki ráðast af tapinu á strætisvögnunum.

Meiri kröfur um arðsemi borgarfyrirtækja
Reykjavíkurborg krefst nú meiri arðs af sumum fyrirtækjum sínum en hún gerði lengi vel. Það stuðlar að ráðdeild í rekstri fyrirtækjanna, að það sé ljóst frá upphafi að fjárfestingar þeirra eigi að skila góðum arði. Auk þess jafnast staða keppinauta þeirra í einkaeign. Arðurinn getur þó vart talist mikill. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur er hann til dæmis nálægt 4% af eigin fé. Þá hefur borgarstjóri sagt að eignarhluti borgarinnar í Landsvirkjun, um 15 milljarðar króna, sé dautt fé. Virðist ekki hafa tekist að vekja það til lífsins, þar sem arðgreiðslur fyrirtækisins hafa verið innan við 1% af eigin fé undanfarin ár.

Auk þess sem arðgreiðslur borgarfyrirtækjanna eru í lægri kantinum ber borgin ábyrgð á skuldbindingum þeirra. Þess vegna greiða þau lægri vexti en einkafyrirtæki. Ef fyrirtækjum borgarinnar væri breytt í hlutafélög myndu vaxtagreiðslur þeirra fyrst nálgast þá vexti sem einkafyrirtæki greiða. Um leið yrði mikilli byrði létt af íbúum borgarinnar, því að þeir gætu þá í hæsta lagi tapað hlutafé sínu í borgarfyrirtækjunum, en bæru ekki lengur ábyrgð á skuldunum líka. Bakábyrgð borgarinnar er ekki ókeypis, þó að þeirri skoðun bregði stundum fyrir.

Ef krafist yrði svipaðs arðs af borgarfyrirtækjum og gert er á almennum markaði, og ef fyrirtækjunum yrði að auki breytt í hlutafélög, fengju stjórnendur fyrirtækjanna betri tilfinningu fyrir raunverulegum kostnaði við reksturinn en þeir hafa nú. Um leið ætti borgin hægara með að selja fyrirtækin ef hún kysi það.