Vinnumarkaður - 

05. Maí 2011

Skrifað undir kjarasamninga til þriggja ára: Blásið til sóknar í atvinnumálum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skrifað undir kjarasamninga til þriggja ára: Blásið til sóknar í atvinnumálum

Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þriggja ára við Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess. Samningarnir fela í sér umtalsverðar launahækkanir, mun meiri en í samkeppnislöndum Íslands. Laun hækka mest á fyrsta ári samninganna en þeir byggja á þeirri sýn að hagur fólks og fyrirtækja batni með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og atvinnuleysi minnki. Án uppsveiflu í atvinnulífinu eru samningarnir hins vegar ávísun á verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Aðildarfyrirtæki SA munu kjósa um gildistöku samninganna í rafrænni atkvæðagreiðslu.

Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir nýja kjarasamninga á almennum vinnumarkaði til þriggja ára við Alþýðusamband Íslands og landssambönd þess. Samningarnir fela í sér umtalsverðar launahækkanir, mun meiri en í samkeppnislöndum Íslands. Laun hækka mest á fyrsta ári samninganna en þeir byggja á þeirri sýn að hagur fólks og fyrirtækja batni með aukinni verðmætasköpun í atvinnulífinu og atvinnuleysi minnki. Án uppsveiflu í atvinnulífinu eru samningarnir hins vegar ávísun á verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Aðildarfyrirtæki SA munu kjósa um gildistöku samninganna í rafrænni atkvæðagreiðslu.

  • Heildarlaunakostnaður atvinnulífsins vegna samninganna mun aukast um 13% í heildina á samningstímanum sem er til 31. janúar 2014. Launakostnaður fyrirtækja í ákveðnum greinum hækkar meira. Almenn laun hækka um 4,25% þann 1. júní nk., 3,5% 1. febrúar 2012 og 3,25%
    1. febrúar 2013.

  • Atvinnutryggingagjald mun lækka 2012. Ef áætlanir um minna atvinnuleysi ganga eftir lækkar gjaldið frá næstu áramótum og aftur í ársbyrjun 2013. Tryggingagjaldið í heild gæti lækkað um tæpt 1% um næstu áramót og um 0,3% til viðbótar 2013.

  • Lágmarkstekjutrygging fyrir fulla dagvinnu hækkar úr 165 þúsund krónum í 182 þúsund krónur á mánuði við gildistöku samninganna. Hún hækkar í 193 þúsund krónur þann 1. febrúar 2012 og 204 þúsund 1. febrúar 2013. Hækkunin nemur 23,6% á samningstímanum.

  • Greidd verður 50 þúsund króna eingreiðsla til launþega í upphafi samningstímans miðað við fullt starf síðastliðna mánuði. Greitt verður tímabundið álag árið 2011 á orlofs- og desemberuppbót samtals kr. 25 þúsund.

  • Í tengslum við gerð samninganna hefur ríkisstjórnin skuldbundið sig til leggja grunn að varanlegum hagvexti og auknum framkvæmdum í hagkerfinu þannig að þær verði um 350 milljarðar króna árið 2013. Að auki fylgja yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tvær bókanir, önnur um málsmeðferð í sjávarútvegsmálum og hin um framkvæmd yfirlýsingarinnar.

  • Í kjarasamningunum er forsenduákvæði um að kaupmáttur aukist, verðlag haldist stöðugt, gengi krónunnar styrkist marktækt og að stjórnvöld standi við gefin fyrirheit í efnahags-, atvinnu- og félagsmálum. Forsendur verða metnar í janúar ár hvert.

Vilmundur Jósefsson, formaður SA, segir ánægjulegt að tekist hafi að tryggja nauðsynlegan frið á vinnumarkaðnum. Undanfarna mánuði hafi aðilar vinnumarkaðarins unnið að gerð þriggja ára kjarasamninga sem byggi á svokallaðri atvinnuleið, þar sem áhersla er lögð á hagvöxt, öruggt og tryggt starfsumhverfi fyrir allar atvinnugreinar, aukningu kaupmáttar og minna atvinnuleysi.

"Samtök atvinnulífsins telja að atvinnuleiðin sé best til þess fallin að ná þjóðinni út úr kreppunni og skapa grundvöll að nýrri sókn í atvinnulífinu," segir Vilmundur. Samningarnir verði atvinnulífinu þó mjög dýrir og ef ekki takist að skapa öfluga uppsveiflu í atvinnulífinu verði ekki innistæða fyrir umsömdum launahækkunum. Það sé nú hlutverk ríkisstjórnarinnar að tryggja að hagkerfið komist af stað og atvinnuvegirnir geti eflst þannig að forsendur samninganna standist.

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir áhættu felast í svo miklum hækkunum, en þær byggi alfarið á því að þjóðin komist út úr kreppunni. Ef það takist ekki séu samningarnir ávísun á verðbólgu og aukið atvinnuleysi. Það megi hins vegar forðast með því að stórauka fjárfestingar í arðbærum greinum atvinnulífsins og skapa ný störf.

Tengt efni:

Upplýsingasíða SA um kjarasamningana

Yfirlýsing ríkisstjórnar vegna kjarasamninga til þriggja ára (PDF)

Samtök atvinnulífsins