Skref í rétta átt
Í samtali við Morgunblaðið segist Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA, fagna vaxtalækkun Seðlabankans og telja hana skref í rétta átt. Hann segist ekki telja ástæðu til að ætla að hún í sjálfu sér skapi hættu á veikingu krónunnar, eins og margir hafi haldið fram, heldur telji hann þvert á móti að hækkun á gengi krónunnar í gær eigi rætur að rekja til væntinga um þessa vaxtalækkun. Ari segist telja að með hliðsjón af því sem hafi verið að gerast í umhverfinu og þeirri stöðu sem vextirnir eru í hefði þessi vaxtalækkun átt að vera meiri, en segist vona að þetta sé upphafið að frekari lækkunum. Þá bætir hann því við að á næstu vikum og mánuðum muni fjármagnshreyfingar til og frá landinu hafa meiri áhrif á þróun gengisins til skamms tíma heldur en vextir Seðlabankans, en háir vextir að undanförnu hafi ekki dregið fé til landsins.
Þá segir Ari aðra stefnumörkun þurfa að koma til til að ýta
undir tiltrú á íslenskt efnahagslíf og að þar séu honum ofarlega í
huga fjárlög næsta árs. Eitt mesta áhyggjuefnið nú í íslensku
efnahagslífi, að vöxtunum frátöldum, sé sú hækkun sem orðið hafi á
hlutfalli samneyslunnar í landinu á kostnað annarra liða. Þar
skipti miklu hvernig fjárlög næsta árs muni líta út og ljóst sé
draga þurfi meira úr ríkisútgjöldum en fjárlagafrumvarpið geri ráð
fyrir. "Ég tel að ríkisvaldið verði að setja sér markmið um að
vinda ofan af þessari miklu hækkun samneysluhlutfallsins sem orðið
hefur síðustu misserum, þrátt fyrir aukna landsframleiðslu," segir
Ari.