Efnahagsmál - 

05. Nóvember 2009

Skoðanabann, tjáningarbann og hlustunarbann?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skoðanabann, tjáningarbann og hlustunarbann?

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa að undanförnu fengið á sig mikla áróðursherferð. Gert er mikið úr því að þessir aðilar vinnumarkaðarins séu ekki kjörnir á Alþingi og eigi því ekki að skipta sér af störfum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Þessi áróðursherferð tengist sérstaklega andstöðu Samtaka atvinnulífsins við áætlanir um nýja séríslenska skatta, orku-, umhverfis- og auðlindagjöld, sem hafa sett fjárfestingaráform í orkufrekri atvinnustarfsemi í uppnám.

Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa að undanförnu fengið á sig mikla áróðursherferð. Gert er mikið úr því að þessir aðilar vinnumarkaðarins séu ekki kjörnir á Alþingi og eigi því ekki að skipta sér af störfum ríkisstjórnarinnar og Alþingis. Þessi áróðursherferð tengist sérstaklega andstöðu Samtaka atvinnulífsins við áætlanir um nýja séríslenska skatta, orku-, umhverfis- og auðlindagjöld, sem hafa sett fjárfestingaráform í orkufrekri atvinnustarfsemi í uppnám.

Þetta segir Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Í greininni segir ennfremur:

"Nú hefur ríkisstjórnin sett fram fjárlagafrumvarp og helstu forsendur þess eru m.a. að fjárfestingar í álverunum í Straumsvík og Helguvík og tilheyrandi virkjana- og línuframkvæmdir fari í fullan gang. Ennfremur hangir uppbygging gagnavera og annarrar orkufrekrar starfsemi, s.s. sólarkísilframleiðslu, á því að uppbygging orkuframleiðslu og orkudreifingar stöðvist ekki.

Verði ekkert af þessum stóru fjárfestingum í atvinnulífinu verður ekki einungis mun meira atvinnuleysi en nú er miðað við, þúsundir fá ekki vinnu og mörg fyrirtæki lognast útaf, heldur dregst landsframleiðslan aftur verulega saman og tekjuöflun ríkisins sömuleiðis. Það er ávísun á ennþá meiri skattahækkanir og frekari niðurskurð.

Samtök atvinnulífsins eru hvorki í ríkisstjórn né á Alþingi heldur eru þau langstærstu samtök fyrirtækja í landinu, smárra sem stórra. Hlutverk SA er að gera kjarasamninga við verkalýðsfélögin og vinna að bættum starfsskilyrðum alls atvinnulífsins. Við gerð kjarasamninga koma starfsskilyrði atvinnulífsins óhjákvæmilega til umfjöllunar því að þau marka þann grunn sem launahækkanir til starfsfólks fyrirtækja hvíla á.

Hingað til hefur það verið talið jákvætt að ríkisstjórnir eigi gott samstarf við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamband Íslands og aðra hlutaðeigandi vegna þeirra breytinga sem eru á döfinni vegna starfsskilyrða fyrirtækja og hags fólksins í landinu. Venjulega hafa ríkisstjórnir talið sig hafa þau sameiginlegu markmið með aðilum vinnumarkaðarins að bæta starfsskilyrði fyrirtækja og möguleika þeirra til að skapa ný störf og hækka laun.

Áróðursherferðin núna gegn bæði Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands gengur hins vegar út á að andstaða gegn óskynsamlegum skattahækkunum sem koma í veg fyrir fjárfestingar og aukna atvinnu sé ólýðræðisleg og sérstök tjónkun við tiltekin fyrirtæki. Samt er ljóst að stóraukið atvinnuleysi, tekjumissir, fleiri gjaldþrot fyrirtækja og frekari skattahækkanir munu bitna á öllum almenningi og öllum fyrirtækjum.

Þau stórfyrirtæki sem hætta við að fjárfesta á Íslandi hafa nóg tækifæri annars staðar í heiminum. Reyndar er samkeppni um að fá þessi fyrirtæki til annarra landa en Íslands. Þau þurfa ekkert á Íslandi að halda vegna sinnar starfsemi eða vaxtar. Ef ríkisstjórnin fælir þau frá með sköttum sem eru gegn anda eða bókstaf þeirra fjárfestingarsamninga sem gerðir hafa verið við þau, þá verður framtíðaruppbygging þessara fyrirtækja í öðrum löndum og seglin verða dregin saman hér á landi.

Samtök atvinnulífsins hafa þá skyldu gagnvart öllum fyrirtækjum á Íslandi að benda á skaðsemi þess að fæla burt erlenda fjárfesta og hafa atvinnu af fólki og verkefni af fyrirtækjum.

Þess vegna andmæla Samtök atvinnulífsins þeim áróðri að þau eigi að fara í skoðanabann og tjáningarbann í þessu máli.

En ætlar ríkisstjórnin að fallast á að fara í hlustunarbann vegna þessa máls?"

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins

Smellið hér til að nálgast greinina í Fréttablaðinu

Samtök atvinnulífsins