Skipuð verði ný samninganefnd í Icesave-deilunni

Formaður Samtaka atvinnulífsins,  Vilmundur Jósefsson, Tómas Már Sigurðsson, formaður Viðskiptaráðs Íslands og Helgi Magnússon, formaður Samtaka iðnaðarins, leggja það til í grein í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu  í dag að Alþingi skipi nýja samninganefnd án tafar til að leita lausna og ná sátt í Icesave-deilunni. Nefndin yrði skipuð fulltrúum allra þingflokka undir forystu utanríkisráðherra. Í greininni segja þeir mikilvægt að fá til liðs við nefndina erlendan fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga til að gegna hlutverki sáttasemjara.

Í grein þeirra segir:

 "Nú er komið tækifæri til að beita nýjum aðferðum til lausnar Icesave-málinu en þetta ólukkumál hefur truflað alla framvindu á Íslandi í heilt ár. Óþarfi er að rekja málavexti. Nú er það skylda okkar allra að leita lausna.

Margt hefur breyst á einu ári. Margar þjóðir telja sig hafa séð til botns í kreppunni og reyna nú að hraða för út úr henni á sem skemmstum tíma. Hvað sem um aðdraganda Icesave-samningaviðræðnanna má segja, virðist sem álit alþjóðasamfélagsins á stöðunni sé blandið. Við Íslendingar höfum ávallt áréttað að lagaleg skuldbinding til greiðslu sé ekki fyrir hendi, þótt að sjálfsögðu eigi menn að leita pólitískra lausna og niðurstöðu. Þrátt fyrir allt hefur tíminn unnið með okkur í þessari erfiðu deilu við Breta og Hollendinga. Sterk viðbrögð stjórnmálaleiðtoga þessara landa á síðustu dögum voru fyrirsjáanleg. Hins vegar er ljóst að krafa okkar um sanngjarnari meðferð fær stöðugt meiri hljómgrunn í virtum erlendum fjölmiðlum. Um það ber bæði leiðari í Financial Times og umfjöllun á vefriti The Economist ágætt vitni. Það er skylda okkar að nýta þetta tækifæri fyrir Íslendinga.

Pólitískt vopnahlé
Yfir undirbúningi málsins hér heima hvílir sá skuggi að stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að ná þeirri samstöðu sem nauðsynleg er í baráttu við erlenda mótaðila. Virðingarverð tilraun var þó gerð sl. sumar í þinginu en þrátt fyrir þrotlausa fundi og fyrirvara við umdeilanlega ríkisábyrgð hefur alþingismönnum ekki tekist að sannfæra okkur um að þeir séu að berjast fyrir þjóðina í þessu örlagaríka máli. Það verður að breytast.

Í þeirri stöðu sem nú er komin upp verður að nota tækifærið sem felst í ákvörðun forseta Íslands um að hafna samþykki laganna.

Nú verða Íslendingar að standa saman

Endurreisn íslensks atvinnulífs mun byggjast á þeirri starfsemi sem fyrir er í landinu. Í okkar stöðu eru engar galdralausnir tiltækar og ný tækifæri falla ekki af himnum ofan. Þess vegna er algert höfuðatriði að virða þá starfsemi sem fyrir er og tryggja að heimilin í landinu geti staðið upprétt. Það þarf að efla skilning á mikilvægi verðmætasköpunar í atvinnulífinu í smáu sem stóru og mikla áherslu þarf að leggja á eflingu sprotafyrirtækja, nýsköpunar og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda. Trúverðugleiki Íslands má ekki skaðast meira en orðið er.

Við skorum á stjórnmálaflokka og stjórnmálaleiðtoga landsins að snúa nú bökum saman. Markmiðið er að ná niðurstöðu í Icesave-málinu sem horfir til hagsældar fyrir Íslandinga. Samningaleiðin getur verið torsótt en það yrði Íslendingum styrkur að ná niðurstöðu í málinu núna.

Ný samninga- og sáttanefnd
Við leggjum því til að Alþingi skipi nýja samninganefnd án tafar sem skipuð væri fulltrúum allra þingflokka. Vel færi á því að utanríkisráðherra færi fyrir nefndinni og að hún fengi sér til fulltingis færustu sérfræðinga, innlenda og erlenda, sem hefðu til að bera víðtæka reynslu og þekkingu. Þá væri mikilvægt að fá til liðs við nefndina erlendan fyrrverandi stjórnmálaleiðtoga sem þekktur væri og virtur á alþjóðlegum vettvangi fyrir störf sín í alþjóðastjórnmálum og hefði jafnframt þekkingu á aðstæðum Íslendinga. Þannig einstaklingur gæti gegnt hlutverki sáttasemjara og gæfi okkur aukinn styrk í glímunni við erfiða mótaðila frá Englandi og Hollandi. Verkefni nefndarinnar væri að komast að niðurstöðu við viðsemjendur okkar sem bæði næði að mæta þeim skuldbindingum sem Íslendingar þurfa að axla og að ljúka málinu hratt og örugglega með réttlátum hætti þannig að bærileg sátt næðist á Íslandi. Með því gæfist loks ráðrúm til að snúa sér að uppbyggilegum viðfangsefnum.

Íslenskt atvinnulíf og þjóðlíf þolir ekki frekari tafir og óvissu vegna þessa erfiða og óheppilega máls. Þessu verður að ljúka. Nú er tækifæri sem brýnt er að nýta strax.

Öflug samninganefnd af því tagi sem hér er rætt um hefði tækifæri til að ná niðurstöðu sem þjóðin gæti risið undir fjárhagslega, samhliða því að Íslendingar næðu nauðsynlegri sátt við alþjóðasamfélagið. Við megum ekki dæma okkur til einangrunar. Við þurfum að vera þjóð meðal þjóða hér eftir sem hingað til."

Sjá einnig:

Viðtal við Vilmund Jósefsson í hádegisfréttum RÚV