Skilar hagræðing verðhækkun?

Eftirfarandi er grein Guðrúnar Johnsen, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins, í Viðskiptablaðinu í dag, 15.10.2003:

Viðskiptablaðið gerði að umfjöllunarefni sínu lokaritgerð BS nemenda í rekstrar- og viðskiptafræðum í síðasta tölublaði sínu, þann 3. október 2003. Niðurstöður ritgerðarinnar eru á þá leið að matvöruverð hafi hækkað umtalsvert meira en aðrar vörur á innlendum markaði. Þá hafi matvöruverðsvísitölur hérlendis hækkað meira í samanburði við verðlag almennt en sambærilegar vísitölur erlendis. Orsakir hinna miklu matvöruverðshækkana eru síðan raktar til meintrar fákeppni á matvörumarkaði þar sem eitt félag er talið hafa yfirburða markaðsstöðu og misnoti hana skv. túlkunum blaðamanns eða höfunda ritsmíðarinnar án nokkurra viðbragða frá samkeppnisyfirvöldum. Þetta eru áhugaverðar spurningar en rétt er að vekja athygli á nokkrum þáttum sem hafa verður í huga við slíkan samanburð.

Það sem nemendurnir eru að reyna að finna út er í fyrsta lagi hvort matvöruverð hækki hér meira og hraðar en í nágrannalöndunum og í öðru lagi, ef munur finnst milli landa að þessu leyti, af hverju sá munur stafar. Spurt er hvort hann er til kominn vegna gengisþróunar, þróunar launakostnaðar, flutningskostnaðar, almennra hækkana í öðrum viðskiptalöndum eða hugsanlegra samkeppnisáhrifa.

Kenningar án tilefnis
Samtök atvinnulífsins gerðu af þessu tilefni könnun á því hvort munur væri á hækkun matvöruverðs hérlendis samanborið við Noreg, en Noregur er sérstaklega tekinn til samanburðar í umræddri ritgerð. Niðurstaða könnunar SA er sú að enginn marktækur munur er á verðbreytingum matvöru í samanburði við almennt verðlag í löndunum tveimur. Það er því tilefnislaust að setja fram kenningar um að áhrif samkeppnisumhverfis á matvöruverð séu óhagstæðari hérlendis en í nágrannalöndum.

Nánar um aðferð og niðurstöðu
Til að svara spurningunum hér að ofan þurfa menn fyrst að mæla vöxtinn á hlutfalli matvöruverðsvísitölu og neysluverðsvísitölu og kanna hvort sá vöxtur sé tölfræðilega marktækt meiri hér en í nágrannalöndunum. Þetta er gert með því taka lógarithmann af vísitölunum tveimur; neysluverðsvísitölu (NVV) og verðvísitölu mat- og drykkjarvöru (VMD), draga frá logVMD-logNVV, fæst þá vöxtur hlutfallsins milli NVV og VMD, þetta er svo gert fyrir vísitölur Noregs einnig. Þá er tekinn svokallaður tímamunur (e. time difference) til að taka tillit til þess að um tímaraðargögn er að ræða og að eitt gildi tímaraðarinnar er háð því sem á undan fór. Að lokum er svokallað t-próf framkvæmt til að ganga úr skugga um hvort marktækur munur  er á vextinum. Þar er sett fram tilgátan:

H0:  vöxtur matvöruverðs á Íslandi = vöxtur matvöruverðs í Noregi


H1:  vöxtur matvöruverðs á Íslandi  ¹ vöxtur matvöruverðs í Noregi

Þegar tilgátupróf eru framkvæmd þarf svokallað p-gildi að vera minna en 0,05 til að við getum hafnað H0 tilgátunni um að sami vöxtur sé í löndunum með 95% vissu. Ef p-gildi er hærra en 0,05, getum við ekki hafnað H0 tilgátunni. Prófið sem framkvæmt var hjá SA gaf hins vegar p-gildi sem nam 0,65 þegar tekið var tillit til þróunar á tímabilinu jan. 1996 - ág. 2003 og p-gildi var 0,23 á tímabilinu jan. 2000- ág. 2003, en á grafi sem fylgir greininni má ætla að vöxtur matvöruverðsvísitölu verði meiri á tímabilinu 2001-2003. Við getum því ekki hafnað tilgátunni um að vöxturinn í matvöruverði hafi verið hinn sami á Íslandi og í Noregi á tímabilinu 1996-2003. Þar sem enginn er munurinn er ástæðulaust að leita að orsökum þess sem ekki er til staðar.