Efnahagsmál - 

27. janúar 2009

Skilaboð frá Finnlandi: Verndið fólkið og fyrirtækin

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skilaboð frá Finnlandi: Verndið fólkið og fyrirtækin

Það er algjört forgangsmál í þeirri kreppu sem Íslendingar glíma við að slá skjaldborg um fólkið í landinu og arðvænleg fyrirtæki. Ríkið verður af miklum skatttekjum við gjaldþrot fyrirtækja sem eru í rekstri og það kostar blóð svita og tár að stofna ný fyrirtæki - sem ekki komast öll á legg. Við þrot fyrirtækja tapast einnig dýrmæt störf og afkoma fjölskyldna versnar. Fulltrúar atvinnulífsins í Finnlandi ráðleggja íslenskum stjórnvöldum að bregðast markvissar við en gert var í Finnlandi á árunum 1991-1994 þegar efnahagskreppa reið yfir landið. Fálmkennd viðbrögð hafi reynst dýrkeypt. Þetta kom fram á fundi SA, FKA og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins sem fram fór í liðinni viku. Fjallað er um fundinn á vef Helsingin Sanomat í dag - stærsta dagblaðs Finnlands.

Það er algjört forgangsmál í þeirri kreppu sem Íslendingar glíma við að slá skjaldborg um fólkið í landinu og arðvænleg fyrirtæki. Ríkið verður af miklum skatttekjum við gjaldþrot fyrirtækja sem eru í rekstri og það kostar blóð svita og tár að stofna ný fyrirtæki - sem ekki komast öll á legg. Við þrot fyrirtækja tapast einnig dýrmæt störf og afkoma fjölskyldna versnar. Fulltrúar atvinnulífsins í Finnlandi ráðleggja íslenskum stjórnvöldum að bregðast markvissar við en gert var í Finnlandi á árunum 1991-1994 þegar efnahagskreppa reið yfir landið. Fálmkennd viðbrögð hafi reynst dýrkeypt. Þetta kom fram á fundi SA, FKA og Finnsk-íslenska viðskiptaráðsins sem fram fór í liðinni viku. Fjallað er um fundinn á vef Helsingin Sanomat í dag - stærsta dagblaðs Finnlands.

Sterkari á eftir
Yfirskrift fundarins var Úr vörn í sókn: Hvað gerðu finnsku fyrirtækin? Markmiðið var að læra af reynslu finnskra fyrirtækja af því að kljást við illvíga efnahagskrísu. Frummælendur voru Jukka Koivisto, framkvæmdastjóri stefnumótunar EK, samtaka atvinnulífsins í Finnlandi og Anders Blom, framkvæmdastjóri PL, samtaka finnskra einkafyrirtækja. Þeir þekkja mjög vel til í finnsku atvinnulífi og þeirra erfiðleika sem finnsk fyrirtæki gengu í gegnum.

Jukka flutti efnismikið erindi en hann sagði m.a. að fjölmörg tækifæri opnuðust þeim þjóðum sem auðnaðist að takast á við efnahagslegan samdrátt með árangursríkum hætti. Rétt viðbrögð geti jafnvel styrkt þjóðir til lengri tíma.

Jukka Koivisto, EK.

Ljóst er að margt líkt er með íslensku krísunni og þeirri finnsku en í máli Jukka og Anders fjölluðu þeir um aukið frelsi á fjármálamarkaði, mikla skuldsetningu fólks og fyrirtækja, gengisfellingar finnska marksins og bankakreppu.

Í samtali við Helsingin Sanomat segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, að fjöldi vel menntaðs fólks hafi misst vinnuna í fjármálageiranum og nú þurfi að skapa þessu fólki störf og verkefni til að reynsla þeirra nýtist. Íslendingar leita nú í reynslubanka Finna við endurreisn íslenska bankakerfisins sem stendur yfir.

Aðild að ESB reynst Finnum farsæl

Í máli Jukka kom fram að innganga Finna í ESB hafi breytt rekstarumhverfi fyrirtækja til hins betra þar sem finnskt atvinnulíf hafi fengið aðgang að stærri mörkuðum og stöðugra rekstrarumhverfi. Með upptöku evru hafi gengisfellingar horfið á braut úr finnsku efnahagslífi ásamt háum vöxtum.

ESB aðild Finna hafi hins vegar gert ríkari kröfur til finnskra fyrirtækja þar sem þau hafi eftir upptöku evru í Finnlandi þurft að spila eftir sömu leikreglum og samkeppnisaðilar á innri markaði ESB. Jafnframt hafi þurft að auka aðhald í ríkisfjármálum og viðurkenndi Jukka að atvinnuleysi væri hærra í Finnlandi með evru en finnska markinu - kostirnir væru þó fleiri en gallarnir við aðild að ESB.

SA, FKA og Finnsk-íslenska viðskiptaráðið stóðu að fundinum

Markviss viðbrögð nauðsynleg
Finnsk stjórnvöld hafa lært margt að því hvernig brugðist var við á árunum 1991-1994 eða öllu heldur hvernig ekki var brugðist við. Það er mat þeirra Jukka og Anders að öll viðbrögð finnskra stjórnvalda séu nú markvissari en áður og finnskt atvinnulíf njóti góðs af því í dag.

Skilaboð þeirra til Íslendinga um hvernig bregðast skuli við yfirstandandi erfiðleikum er að auka fjölbreytni í atvinnulífinu - m.a. með því að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum auk þess að leggja mikla áherslu á rannsóknir og þróun. Finnar brugðust við krísunni með því að byggja upp þekkingarþjóðfélag en þeir gerðu jafnframt mörg mistök og skilaboð þeirra til Íslendinga er að gleyma ekki þeim missi atvinnuna á erfiðum tímum - þjóðfélagið megi ekki við því.

Anders Blom, PL.

Umfjöllun Markaðarins sem fjallaði um fund SA lýsir vel þeim erfiðu aðstæðum sem Finnar þurftu að kljást við og hvaða víti ber að varast:

"Líkast til gera sér fáir í hugarlund það ástand sem hér getur skapast í viðvarandi og miklu atvinnuleysi þar sem fyrirtæki fara umvörpum á hliðina í vaxtaokri og gjaldeyrishöftum. Finnar gengu í gegnum fjármálakreppu í byrjun tíunda áratugarins og lýstu tveir fyrirlesarar reynslu Finna á fundi sem Samtök atvinnulífsins og fleiri stóðu fyrir í gær. "Ástandið var svo hryllilegt að erfitt er að gera sér í hugarlund að það gæti endurtekið sig nú," sagði Anders Blom, framkvæmdastjóri PL, samtaka einkafyrirtækja í Finnlandi.

Félagsleg vandamál tengd atvinnumissi urðu yfirþyrmandi. Hann segir að á 50 ára tímabili hafi um 35 þúsund látið lífið í umferðarslysum í Finnlandi. Á sama tímabili höfðu hins vegar yfir 55 þúsund karlar fyrirfarið sér. Félagsleg vandamál eru enn þá viðvarandi í Finnlandi og atvinnuleysi enn mikið. Þó var farin sú leið að viðhalda öflugu velferðarkerfi þar sem atvinnulausir héldu 60 til 70 prósentum af fyrri tekjum.

Anders Blom lagði hins vegar áherslu á mikilvægi þess að bjarga fyrirtækjum lands sem lendir í svo djúpri efnahagslægð. "Fyrirtækin sjá fólki fyrir vinnu og eru um leið farvegur ríkisvaldsins til að innheimta skatta samfélaginu til handa. Án fyrirtækjanna gengur það ekki," sagði hann. Ef stjórnvöldum hér er alvara með að bjarga því sem bjargað verður, þá verða þau líka að hafa manndóm í sér til að ganga í þær aðgerðir sem duga til að byggja upp trúverðuga efnahagsstjórn á ný. Trúverðugleika, sem vel að merkja hefur bein áhrif á þau kjör sem ríkinu kemur til með að standa til boða í þeim risalántökum sem þarf til að reisa hér við efnahagslífið á ný."

Sjá nánar:

Umfjöllun Helsingin Sanomat

Erindi Jukka Koivisto frá fundi SA, FKA og FÍV (PDF)

Umfjöllun Markaðarins 

Fleiri myndir frá fundinum á www.vb.is   

Um 200 stjórnendur kynntu sér reynslu Finna

EK er fulltrúi 16.000 fyrirtækja með um 950 þúsund starfsmenn. Fyrirtækin leggja til 70% landsframleiðslunnar í Finnlandi og 95% útflutnings. Um 95% fyrirtækjanna innan EK eru lítil eða meðalstór.

PL er fulltrúi 250 einkafyrirtækja í Finnlandi, þar af eru 50 á lista 500 stærstu fyrirtækja í Finnlandi. Aðildarfyrirtæki PL velta 25 milljörðum evra á ári og hjá þeim starfa 140 þúsund manns.

Sjá nánar um finnsku samtökin:

Vefur EK

Vefur PL

Samtök atvinnulífsins