Efnahagsmál - 

21. október 2010

Skattleysi eingreiðslubóta sjúkdómatrygginga er réttlætismál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Skattleysi eingreiðslubóta sjúkdómatrygginga er réttlætismál

Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að taka af allan vafa, með breytingu á lögum um tekjuskatt, að eignaauki vegna eingreiðslubóta úr sjúkdómatryggingum skuli vera undanþeginn tekjuskatti. Jafnræðissjónarmið mæla með því að eignaauki vegna þessara bóta verði áfram undanþegin tekjuskatti. Þá mæla velferðarrök með hinu sama. Með skattlagningu bótanna er verið að sækja fjármagn til þeirra sem lenda í alvarlegum heilsufarsvanda og hafa keypt sér að því þeir töldu skattfrjálsa tryggingu til að mæta slíkum vanda. Skattskylda bóta er tvísköttun og felur í sér auknar álögur á þá sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra sjúkdóma eða fötlunar.

Samtök atvinnulífsins hvetja stjórnvöld til að taka af allan vafa, með breytingu á lögum um tekjuskatt, að eignaauki vegna eingreiðslubóta úr sjúkdómatryggingum skuli vera undanþeginn tekjuskatti. Jafnræðissjónarmið mæla með því að eignaauki vegna þessara bóta verði áfram undanþegin tekjuskatti. Þá mæla velferðarrök með hinu sama. Með skattlagningu bótanna er verið að sækja fjármagn til þeirra sem lenda í alvarlegum heilsufarsvanda og hafa keypt sér að því þeir töldu skattfrjálsa tryggingu til að mæta slíkum vanda. Skattskylda bóta er tvísköttun og felur í sér auknar álögur á þá sem eiga um sárt að binda vegna alvarlegra sjúkdóma eða fötlunar.

Bótafjáhæð sjúkdómatryggingar er greidd út í einu lagi þegar vátryggður greinist með einhvern þeirra sjúkdóma sem vátryggingin tekur til eða verður fyrir varanlegri örorku af völdum skilgreinds vátryggingaratburðar. Flestir sjúkdómar og fötlun sem sjúkdómatrygging nær til eru þess eðlis að hafa í för með sér varanlegar afleiðingar svo sem örorku.

Sjúkdómatrygging flokkast sem líftrygging samkvæmt skilgreiningu í lögum um vátryggingarsamninga. Vátryggingafélög hafa frá upphafi gengið út frá því að líta beri á bætur úr vátryggingunni sem eignaauka sem telst ekki til tekna, enda eru þessar bætur ákveðnar í einu lagi til greiðslu. Það kom líftryggingafélögunum á óvart þegar yfirskattanefnd komst að þeirri niðurstöðu að bótafjárhæð úr sjúkdómatryggingu skuli teljast tekjuskattsskyld.

Héraðsdómur komst svo að sömu niðurstöðu í júní sl. og hefur málinu verið áfrýjað til Hæstaréttar. Endanleg niðurstaða í dómsmálinu mun hafa mikla þýðingu fyrir bótaþega sem þegar hafa fengið greiddar út bætur. Heildarbótafjárhæðir sem greiddar hafa verið út árlega undanfarið eru á bilinu 350-400 m.kr. Þá bíða vátryggingafélög og 44.000 skírteinishafar sjúkdómatrygginga í óvissu eftir niðurstöðu í dómsmálinu. Komist Hæstiréttur að sömu niðurstöðu og héraðsdómur er ljóst að rekstrargrundvöllur þessarar vátryggingagreinar er brostinn.

Samtök atvinnulífsins